05.05.1942
Sameinað þing: 12. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 312 í D-deild Alþingistíðinda. (2585)

103. mál, fjölgun hæstaréttardómara

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Ég hef í sjálfu sér ekkert að athuga við þau meginrök í aðalatriðum, sem hv. flm. bar fram varðandi dómsvaldið almennt og nauðsyn þess, að það sé sterkt. En lagaheimildin að fjölga dómurum úr 3 í 5 er þannig löguð, eins og hv. flm. orðaði það, að hún getur komið til framkvæmda, hvenær sem fé er veitt til hennar á fjárl. Þessu er ekki þannig varið, að almennt væri ætlazt til að hafa dómarana 5, heldur var það skilyrði af hendi eins þm. fyrir fylgi við breyt., sem gerðar voru á hæstaréttarl., að gert yrði ráð fyrir þessari fjölgun í framtíðinni, og var gengið að því til samkomulags við hann. Ákjósanlegt væri að ýmsu leyti að fjölga, og má sjálfsagt færa fyrir því ýmis þau rök, sem nú voru nefnd, og segja, að betur sjái augu en auga, öruggari muni sjónarmið fimm dómara en þriggja, þar sem hver um sig leggur til málanna. En orsök þess, að ekki hefur þótt næg ástæða til fjölgunar og ég hef ekki viljað gangast fyrir því, er hin sjálfsagða varfærni og varúð gegn þeirri áleitnu þróun, að embættiskerfi þessa fámenna þjóðfélags verði yfirbyggt. Við erum aðeins 120 þús., og aðrar þjóðir, —ekki svo mjög við sjálfir —, hafa oft um það efazt með nokkrum rökum, að. við hefðum getu til að vera. sjálfstætt ríki, standa undir byrðum þess. Við reynum á allan hátt að halda uppi þeim stofnunum, sem þjóðfélag verður að eiga, og þær þarfir eru margar og miklar. Kröfurnar eru eðlilega auknar ár frá ári. Nú verður ríkið að skapa sér þá dýrustu embættisstétt, sem til er, fulltrúa þá, er mæta fyrir hönd þess erlendis, og hlýtur hún að kosta árlega stórfé, hundruð þúsunda, og kostar það nú þegar. Þetta er óumflýjanlegt. Við erum nýbúnir að samþ. frv. um breyt. á læknaskipun, þar sem bætt er við 4 aðstoðarlæknisembættum. Settur hefur verið íþróttafulltrúi, þörf er á íþróttalækni, skólalækni fyrir allt landið með sinni skrifstofu o.s.frv. Það er ómögulegt að vera lengi í ríkisstj. án þess að taka eftir, að í þessari sjálfsögðu þróun getur, ef h!íu yrði of ör, verið fólgin mjög mikil hætta á yfirbygging ríkiskerfisins. Ég veit, að hv. flm., sem færði rök fyrir málinu, mun segja, að á sviði dómsmála, sem er eitthvert hið þýðingarmesta í hverju réttarríki, megi ekki lita á sparnaðinn. En þá gætu menn líka sagt: Okkur ríður ekki á neinu meir en íþróttum og heilsuvernd, því að heilbrigð kynslóð mun laga aðra hluti til, svo sem vera ber. — Þannig er um fjölmargt annað, sem gert er til öryggis í þjóðfélaginu. Um hæstaréttardómara hygg ég það sannast mála, að enn mikilsverðara en fjölgun þeirra sé að tryggja þeim svo góða fjárhagsafkomu, að áhyggjulaus sé, þar sem þeir mega ekki taka aukastörf. Frá því að hæstiréttur var stofnaður, hafa launakjör hans verið þau, að Alþingi sá réttilega ástæðu til að hækka launin um 2000 kr., og enn munu þau vera nær 8 en 10 þús. kr. á ári. Með þeim greiðslum, sem títt er, að málfærslumenn fái fyrir störf sín, er fljótséð, að ekki muni ætíð auðvelt að fá hæfa menn til að vera hæstaréttardómara, svo að þetta launaatriði skiptir ekki litlu máli. Og líkur eru til, að betur sé hægt að búa að 3 dómurum en 5, svo að fjárhagsafkoman hái þeim ekki eða jafnvel raski störfum þeirra. Þó að fjárhagur okkar sé nú álitinn sæmilegur, — ég vil ekkert fullyrða um, hver hann er í raun og veru —, þurfum við að fara gætilega. Ef allt fer að óskum, getur verið rétt, jafnskjótt og óvissan rénar, að fjölga dómurum hæstaréttar, en sem stendur álít ég mjög varasamt að samþ. þessa till. — Auk alls þessa hygg ég, að deila megi um, hvort dómar frá hendi 5 dómara yrðu fullkomnari og betri en frá hendi þeirra 3, sem nú hafa skipað réttinn um hríð og unnið honum mikið álit og ánægju með þjóðinni. Það skeður ákaflega sjaldan með suma valda dómara landsins, að dómum þeirra sé breytt. Ef fjölgun dómara í 5 leiddi til þess, sem viðbúið er, að farið yrði síðar að klípa af launum þeirra, gæti meira leitt illt en gott af breytingunni fyrir dómstólinn sjálfan. — Ég veit ekki, hvort nokkur ástæða er til að vísa þessu máli til stjórnarinnar, þar sem hún hefur enga ástæðu fundið til að fjölga. Hitt er e.t.v. ekkert óeðlilegt, að Alþingi taki nú afstöðu til þess, hvort dómararnir eigi að vera 3 eða 5.