19.03.1942
Efri deild: 19. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 18 í B-deild Alþingistíðinda. (26)

12. mál, loftvarnir

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Frv. þetta þarf engra verulegra skýringa við, svo að ég hef ekki ástæðu til þess að vera langorður. Ástæðan til, að þessi bráðabirgðal. voru sett er sú, að ef kviknar í húsum, einkum timburhúsum, út frá eldsprengjum, sem ef til vill yrði varpað hér, þá er sandur talinn helzta slökkvitækið.

Sandur þessi er geymdur á efsta lofti húsanna, og gefur loftvarnanefnd leiðbeiningar uni notkun hans. Sandinum á að dreifa yfir eldsprengjuna, sem út frá kviknar. Ef notaðar eru venjulegar slökkviaðferðir, t.d. vatn, er talið, að eldurinn muni fremur magnast en slokkna. Eftir því hefur verið gengið af bæjaryfirvöldum, að þessu yrði framfylgt, en ekki er hægt að skylda mann til þess, nema með bráðabirgðal. þessum. Ég geri ráð fyrir, að tækjum þessum hafi verið komið fyrir í öllum eða allflestum húsum. Ég tel svo ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð, en óska, að málinu verði að umr. lokinni vísað til 2. umr. og allshn.