10.04.1942
Neðri deild: 32. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 189 í B-deild Alþingistíðinda. (290)

2. mál, dómnefnd í kaupgjalds- og verðlagsmálum

Frsm. minni hl. (Finnur Jónsson) [frh.]:

Ég hafði í gær gefið yfirlit um forsögu þessa máls og framkvæmdaleysi hæstv. ríkisstj. á þeim heimildum eða lögum, sem hún hefur tvívegis tekið við frá Alþingi. Ég hafði sýnt fram á það, hvernig ríkisstj hefur ekkert gert af því, sem fyrir hana var lagt, þrátt fyrir gefin loforð. Og ég hafði sýnt fram á það, hvernig dýrtíðin hefur hækkað úr 57% upp í 83% á tímabilinu frá 1. júlí til áramóta, eða um 45%, án þess að á þeim tíma hafi komið fram nokkrar grunnkaupshækkanir. Ég ætla, að þessi ábending mín um hina geysilegu hækkun vísitölunnar ætti að nægja til að sanna það, sem hv. frsm., þm. Barð., var þó að finna að nál. mínu, að ég héldi fram, að grunnkaupshækkun væri ekki orsök dýrtíðarinnar.

Ég skal svo leyfa mér að rekja þetta mál dálítið lengra. Það er hv. þm. kunnugt, hver úrslit dýrtíðarmálin fengu hér á haustþinginu, að ríkisstj. tók á ný við þessum heimildarl., sem að vísu er nokkurs konar fyrirskipun til ríkisstj. um að framkvæma það, sem til er tekið í l. Ráðherrar Framsfl. töldu l. ófullnægjandi, en tóku þó við þeim, og fylgdi sú yfirlýsing, að ætlazt væri til, að l. yrðu framkvæmd. En það varð ekkert úr þessu loforði ríkisstj., heldur var tekið til að halda áfram sama kapphlaupinu milli fjögurra ráðh. í ríkisstj. um að auka dýrtíðina. Landbúnaðarafurðir voru stórhækkaðar; en ekki verðbættar, eins og Alþfl. lagði til að gert væri, verðlagseftirlit var látið halda áfram með sama sleifarlaginu. Það var svikizt um að gefa eftir tolla á nauðsynjavörum, eins og Alþ. þó hafði ætlazt til. Og það var látið undir höfuð leggjast að hafa nokkurt eftirlit með farmgjöldum. Allt þetta kæruleysi ríkisstj., eða réttara sagt kapphlaup um að auka dýrtíðina, mun hafa valdið því, að þau félög, sem höfðu sagt upp samningum um áramótin, sem að vísu voru fá, sáu sér ekki annað fært en að fara fram á allverulega grunnkaupshækkun. Það var talið á haustþinginu, að þessi félög mundu ekki hafa ætlað sér að fara fram á verulega grunnkaupshækkun. En þegar verkamenn sáu, að ríkisstj. gerði allt, sem hún gat, til að auka dýrtíðina í landinu, — ekki einasta með því að svíkjast um að framkvæma öll fyrirmæli Alþ., heldur einnig skrúfa upp verð á landbúnaðarafurðum úr öllu valdi, til þess að hækka vísitöluna, — þá mun það hafa orðið ljóst fyrir verkalýðsfélögunum, að ekki væri önnur leið fyrir þau að bæta hag þinn en að hækka kaupið. Nú voru þetta þó ekki neinar víðtækar kaupdeilur. Þeir, sem höfðu sagt upp samningi, voru aðeins fjögur félög iðnaðarmanna innan Alþýðusambandsins og tvö félög utan sambandsins. Þessi félög voru Bókbindarafélagið, Félag járniðnaðarmanna, Hið íslenzka prentarafélag, Klæðskerafélagið Skjaldborg, og utan sambandsins félög rafvirkja og skipasmiða. Það leit út fyrir, að samningar mundu takast brátt. upp úr áramótum milli flestra þessara félaga og atvinnurekenda. Það virtist ekki bera neitt það á milli, að ekki væri hægt fyrir þessa aðila að brúa það bil með samkomulagi. Vinnustöðvunin mundi þá hafa staðið skamma stund. Þá heldur hæstv. forsrh. hina alkunnu nýjársræðu sína og spáir þar afskiptum hins opinbera til að koma í veg fyrir, að grunnkaup hækki. Samt sem áður er samningsviljinn svo mikill á milli íðnaðarmanna og atvinnurekenda, að a.m.k. tvö af þessum félögum gerðu samninga. Nú liðu nokkrir dagar af janúar. Hinn 8. jan. gefur svo ríkisstj. út bráðabirgðal., sem hún nefnir 1. um gerðardóm í kaupgjalds- og verðlagsmálum. Nafnið á þessu frv. er harla einkennilega valið. Og ég vil gera fyrirspurn til hins ágæta lögfræðings, sem er frsm. meiri hl. n., hvort hann veit þess nokkur dæmi nokkurs staðar úr sögu lögfræðinnar, að gerðardómur hafi verið skipaður á þann hátt, sem ætlazt er til að gert sé í þessu frv. Ég hef heyrt það fullyrt af ekki ómerkum lögfræðingi, að í byggingu þessa frv. séu brotnar allar þær reglur, sem annars eru gerðar kröfur til uni gerðardóm. Venjulega mun það vera svo, að ef tveir aðilar búast við að geta ekki komið sér saman, þá tilnefna þeir jafnmarga menn hvor í gerðardóminn. Og ef þessir útnefndu aðilar koma sér ekki saman, þá er einhver óvilhöll stofnun, sem útnefnir oddamann, ef þá ekki þessir útnefndu menn af deiluaðilum sjálfum útnefna oddamann. Gerðardómurinn á svo að kynna sér allar málsástæður frá báðum hliðum. Það er skylda — gerðardómsmanna sem dómara. Og að því loknu kveða þeir upp sinn dóm. Hér virðist vanta öll grundvallaratriði fyrir því að kalla þetta frv., sem hér liggur fyrir, frv. til laga um gerðardóm, Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir, að þessi stofnun kveði upp úrskurði, jafnvel þótt ekki sé neinn ágreiningur fyrir hendi. Það er gert ráð fyrir, að fyrir þennan dómstól séu lagðar allar breytingar á kaupi, kjörum og þóknunum og hlutaskiptum, hverju nafni sem nefnast, frá því sem gilti árið 1941. Það er eins gert ráð fyrir, að þetta sé lagt fyrir dóminn, þótt báðir aðilar, verkamenn og atvinnurekendur, séu sammála um breyt. Það er með öðrum orðum gert ráð fyrir, að þessi stofnun geti búið til ágreining milli atvinnurekenda og verkamanna, þegar þeir eru búnir að koma sér saman um að ráða fram úr málinu. Ég tel, að þetta muni vera svo einstakt um gerðardóm, að ég vildi biðja þann ágæta lögfræðing,. hv. frsm. meiri hl. n., að benda á einhver dæmi, sem finnast mættu, annaðhvort hér á landi eða á Norðurlöndum, fyrir því, að fyrir dómstól væri lagt til úrskurðar — og kallað gerðardómsúrskurður — samkomulag, sem búið væri að gera á milli manna um kaup og kjör. Mér er ekki kunnugt, að annað hafi verið lagt fyrir sams konar stofnanir á Norðurlöndum en ágreiningur milli manna um kaup og kjör. En að leggja samkomulag undir dómstól, og kalla slíkt gerð, mun vera einsdæmi og til þess eins fallið að gera þvert á móti því, sem gerðardómi er ætlað í öðrum löndum, — sem sé að búa til ágreining í staðinn fyrir að jafna ágreining.

Þá er skipun þessa dóms. Ríkisstj. tilnefnir alla fimm mennina í dóminn. Þar með er ekki fylgt þeirri reglu um gerðardóm, sem ég gat um, — að aðilar, sem ekki koma sér saman, tiltaki jafnmarga menn í dóminn, — heldur kemur óviðkomandi stofnun og tilnefnir fimm menn í dóminn. Og í l. er ekki ráð fyrir því gert, að þessir fimm menn hafi neina sérþekkingu á því, sem þeir eru að gera, hvorki sérþekkingu á högum verkamanna né högum atvinnurekenda. Og það, sem út yfir tekur, er það, að þessum fimm mönnum er beinlínis markað starf, þeim er ekki leyft að meta málsástæður aðila, þeim er beinlínis bannað það. Þeim eru fyrirskipaðar reglur um, hvernig þeir eigi að dæma, hvernig svo sem kjör þeirra manna eru, sem þeir eiga að dæma um. Og hvernig svo sem möguleikar atvinnurekstrarins eru til að greiða hærra kaupgjald, þá er þeim fyrirskipað að halda sér við þá meginreglu að láta grunnkaupið vera óbreytt, frá því sem var á árinu 1941. Ég tel, að þegar að þessu leyti sé þessi löggjöf algert einsdæmi, — ekki einasta í löggjöf okkar hér á landi, heldur í löggjöf allra Norðurlanda. Ég tel, að það mundi þurfa að leita í reglugerðum þriðja ríkisins hjá sjálfum Adolf Hitler til þess að finna eitthvað, sem væri sambærilegt við ákvæði þessa lagafrv. Og þegar við búum undir vernd þeirra tveggja stærstu þjóða, sem telja sig vera að berjast fyrir lýðræði í heiminum, þá er það sannast að segja dálítið einkennilegt, að þessi einna elzta lýðræðisþjóð hér í álfu skuli leita til Adolfs Hitlers um fyrirmyndir fyrir sinni löggjöf. Ég vildi skora á þá, sem hér eru staddir úr meiri hl. allshn., að gera grein fyrir því, hvernig þeir geti talið það forsvaranlegt að kalla þetta lagafrv., sem hér liggur fyrir, því nafni, sem ríkisstj. hefur valið.

Í þessari löggjöf er að öðru leyti gert ráð fyrir því, að ríkisstj. gefi út skrá um nauðsynjavörur, sem ekki megi selja hærra verði en gert var í árslok 1941, og skrá yfir vörur, sem ekki megi leggja meira á en gerðist á þeim tíma. Þá er þessum svonefnda gerðardómi fyrirskipað að ákveða breytingar á verðlagi innanlandsframleiðslu þeirrar, sem á skránni er, í samræmi við framleiðslukostnað hennar. Enn fremur er honum heimilt að ákveða breyt. á verðlagi annarra vara, sem ríkisstj. kveður á um. Ef við tökum nú svolítinn samanburð á rétti þeirra, sem framleiða innlendar vörur, og rétti þeirra, sem selja vinnu sína, þá er þar harla mikið gert upp á milli. Grunnkaup skal að jafnaði standa óbreytt, hvort sem það er svo hátt, að þeir, sem taka kaupið, geta lifað af því eða ekki. Gerðardómnum er fyrirskipað að láta grunnkaupið standa, óbreytt. En þeir, sem framleiða innlendar vörur, hvort heldur eru iðnaðarvörur eða landbúnaðarvörur, njóta alls annars réttar. Gerðardómnum er beinlínis fyrirskipað að breyta vöruverðinu á þessum vörum eftir því, hvað það kostar að afla þeirra. Ég get vel fellt mig við þessa reglu gagnvart þeim, sem framleiða innlendar vörur. En hvers vegna mega þeir, sem selja vinnuafl sitt, ekki njóta sömu kjara hjá þessari dæmalausu stofnun? Það er vegna þess, að þeir, sem að þessu frv. standa, forvígismenn Sjálfstfl annars vegar, hafa hag af því, að kaupgjaldinu sé haldið niðri, og ýmsir menn úr Framsfl. sjá ekki annað böl verra í þessu þjóðfélagi heldur en að verkamenn í kaupstöðunum hafi við nokkurn veginn sæmileg kjör að búa. Eftir það samstarf, sem átt hefur sér stað milli fulltrúa bænda og verkamanna hér á Alþ., þá er þetta sárgrætilegur árangur, hvað fulltrúa bænda snertir. Þetta þrönga sjónarmið hefur orðið þess valdandi, að fulltrúar bænda hafa látið sér það lynda að láta stríðsgróðann renna millj. saman í vasa einstakra manna. Þeirra sjónarmið hefur ekki verið víðara heldur en það, að þeir (þ.e. Framsfl.) hafa séð ofsjónum yfir aurunum, sem verkam. hafa fengið, en láta á sama tíma millj. streyma óhindrað í vasa stríðsgróðamannanna. Þá er í frv. þessu gert ráð fyrir, að ekki megi hækka farmgjöld án samþykkis gerðardómsins, og loks er í heimildinni ákveðið, að verðlag á nauðsynjavörum megi ekki hækka. Allmikið af þessum heimildum var til í eldri l., og það, að taka þetta upp í þessi l., virðist ekki vera gert til annars en að sýnast. Hvers vegna er stj. að fá sér ýtarlegar heimildir um áramót með bráðabirgðal. til þess að gera það, sem hún hafði vanrækt að gera áður, en hafði þó heimild til að framkvæma? Með þessum bráðabirgðal., sem ætlazt er til, að verði staðfest, er 5 mönnum gefið úrskurðarvald um það, að banna alla breyt. á kaupi. Nú er það svo, að stjórnin gaf um áramót út skrá yfir vörur; sem bannað var, með sérstakri auglýsingu, að hækka verð á. Þetta gerðist rétt áður en bæjarstjórnarkosningarnar fóru fram úti um land, og skráin var látin halda sér óbreytt á meðan verið var að kjósa í kaupstöðunum, en þegar búið var að kjósa, þá breyttist þessi skrá. Ég man t.d., að mjólkin var seld á 72 aur. ltr. á Siglufirði fyrir áramót, en eftir bæjarstjórnarkosn. leyfði gerðard. að hækka mjólkina upp í 82 aur. pr. ltr. Þetta var þó ein af þeim vörutegundum, sem búið var að banna hækkun á með sérstakri augl. fyrir áramót. Það er kunnugt, að leyft var að hækka kjöt hér í Rvík um 10 aur. kg frá því, sem það var fyrir áramótin, og auk þess hafa kjötkaupmenn fundið upp það snjallræði að leggja 30 aura gjald á hverja heimsendingu. Nú veit ég um það, að erlendar vörur úti um landið hækkuðu í verði vegna þessarar auglýsingar stj., og hefur hún því með þessari auglýsingu á ýmsan hátt orðið til þess að hækka vöruverðið fyrr en annars hefði orðið, í stað þess að lækka það. En þetta er að vísu ekki nema eðlilegt, eins og sambandi og stj. þeirra tveggja flokka, sem nú fara með völdin, er háttað, því að öðrum megin stendur stj. verzlunarvaldsins, l:aupmannavaldið, en S.Í.S. hinum megin, neytendurnir eiga nú engan fulltrúa í ríkisstj., og er því ekki að neinu leyti séð fyrir þeirra hagsmunum eða velferð. Nú skal ég játa það viðvíkjandi verðlagsákvæðum þessa frv., að ef þau væru framkvæmd út í yztu æsar af kjarki og dugnaði, þá gætu þau ef til vill komið að einhverjum notum.

En eins og stj. hefur framkvæmt slælega þær heimildir, sem hún hefur haft til þessa til þess að hafa hemil á verðlagi í landinu, þá er ekki hægt að gera sér háar vonir um árangur, þó að stj. fengi nýjar heimildir í þá átt, að hún mundi nota þær á nokkurn hátt betur en hún hefur notað hinar gömlu heimildir, sem hún áður hafði.

Ég sé ekki, að hæstv. viðskmrh. sé hér nærstaddur, svo að hann megi heyra mál mitt, en ef svo skyldi vera, vildi ég bera fram þá fyrirspurn til hans, hvort nokkurn tíma hefði verið reiknuð út eða búin til sérstök vísitala fyrir verzlunarkostnað. Mér skilst, að ef hafa ætti eftirlit með verðlagi í landinu, svo að gagni kæmi, þá þyrfti að gera sér ljóst, hvað verzlunarkostn. hefði vaxið mikið. Nú hefur verzlunarkostnaður alls ekki fylgzt með kaupgjaldinu, því að kaupgjald er ekki nema nokkur hluti af dreifingarkostnaði, allmikið af kostnaðinum er húsaleiga, rafmagn og fleira, sem ekkert hefur hækkað. Það væri þess vegna engin ástæða til þess, að verðlagsvísitalan fyrir álagninguna fylgdist með kaupgjaldsvísitölunni. Ég veit ekki, hvað gerzt hefur síðustu mánuðina, en fram að áramótum varð ekki annað séð en að ekki væri farið eftir neinum slíkum reglum. Verzlunum hefur verið heimiluð álagning að því er virðist án tillits til þess, hvað þær gætu með því fengið háar tekjur, en hundraðsálagning er vitanlega alveg óréttlát, ef það er ætlunin að halda niðri verðlagi í landinu. Væri til þess ætlazt, þarf að fylgja þeirri reglu, sem fylgt hefur verið um launastéttirnar, að verzlanirnar fái aukinn kostn. að tiltölu við aukna dýrtíð í landinu, en ekki hundraðsálagningu, hvað mikið sem vörurnar kunna að hækka í verði. Ég skýrði frá því í gær, að ég hefði látið gera á þessu dálitla tilraun með 9 algengar vörutegundir, og sú tilraun hefur sýnt það, að álagningin á þessar vörutegundir, í jan. 1941, miðað við júní 1939, hefur hækkað um 51%. Á sama tíma hækkaði kaup ekki nema um 42%. M.ö.o. dýrtíðaruppbót verzlana hefur á þeim tíma verið 9 stigum hærri heldur en kaupgjaldið, þrátt fyrir það, þó að verzlunarkostnaður allur hafi ekki aukizt í samræmi við dýrtíðina. Því að það veit hæstv. viðskmrh., að er ekki, þegar tekið er tillit til þess, að allmikill hluti verzlunarkostnaðar er húsaleiga, rafmagn og fleira, sem ekki hefur hækkað eins mikið og kaupgjaldið.

Það má vera, að þetta hafi breytzt eitthvað síðustu mánuði, ég vildi gjarnan fá það upplýst hjá hæstv. viðskmrh. Sérstaklega vil ég fá hann til þess að viðurkenna þá reglu, að tekjur þeirra eigi að fylgja eftir dýrtíðarvísitölunni af þeim ástæðum, sem ég hef drepið á.

Ég skal svo víkja nokkuð að framkvæmd þessara l. í öðrum atriðum en ég hef þegar gert. Ég hef drepið á það, að ástæðan til þess, að þessi bráðabirgðal. voru gefin út, var sú, að 6 félög hér í Rvík höfðu sagt upp samningum. Ég hef einnig getið þess, að útlit var fyrir, að sum félögin mundu ná samningum, og sum voru þegar búin að semja, en ríkisvaldið hindraði það beinlínis, að samningar gætu tekizt. En þessi aðferð, að binda samninga á milli verkamanna og atvinnurekenda, mun ekki vera til annars staðar, nema ef vera skyldi í ríki Adolfs Hitlers.

Ég vil nú stuttlega gera grein fyrir kjörum þessara manna, sem hafa sérstaklega orðið fyrir barðinu á gerðardómnum. Prentarar (vélsetjarar) hafa í grunnkaup kr. 115.20 á viku, en aðrir setjarar og prentarar kr. 97.05, vinnutími þeirra er 48 klst. á viku og sumarfrí 12 dagar, veikindafrí 12 dagar. Bókbindarar hafa kr. 93 30 á viku og sama vinnutíma og prentarar, sumarfrí og veikindafrí hið sama. Járnsmiðir hafa unnið upp á tímakaup, 8 st. vinnu á dag, grunnkaup kr. 1.93 á tímann, samtals 92.64 fyrir 6 daga vinnuviku. Nú ber þess að gæta, að ekki er hægt að bera þetta saman við vikukaup prentara og bókbindara, vegna þess að þeim er borgað fyrir 6 daga vinnuviku, eins þó að aukahelgidagar séu í vikunni og þeir þá eigi frí frá störfum. Klæðskerasveinar hafa í vikukaup kr. 90.00, 60 st. vinnu á viku, sumarfri 8 daga og veikindafrí 12 daga. Námstími í öllum þessum iðngreinum mun vera svipaður, eða 4 ár. Klæðskerasveinar náðu fljótt samningum við átvinnurekendur um 10% grunnkaupshækkun og einnig um 51 st. vinnuviku í stað 60 áður. Fulltrúar frá atvinnurekendum járniðnaðarins vildu fljótlega semja við járniðnaðarmenn, en gerðardómurinn kom í veg fyrir það. Þó fór svo að lokum, eftir að gerðardómsl. voru sett, að járniðnaðarmenn gerðu samning við atvinnurekendur. Þeir fengu grunnkaupshækkun, sem þeir telja sjálfir að hafi numið um 16%, en gerðard. breytti því í grunnkaupshækkun, sem járniðnaðarmenn telja að sé um 12%, þegar tekið er tillit til þeirrar breyt., sem gerð var, að vinnutímanum var breytt úr tímav. í vikuv. En þegar þeir vísu menn í gerðardómnum fara að dæma, þá dæma þeir af klæðskerasveinum, sem voru lægst launaðir, þá kauphækkun, sem þeir höfðu fengið með samningum við atvinnurekendur, og þeir lengja vinnutímana úr 51 st. upp í 54 st. á viku. — Hins vegar gekk gerðardómurinn inn á það, að láta járniðnaðarmenn halda mestum hluta af þeirri grunnkaupshækkun, sem þeir voru búnir að semja um. M.ö.o., þeir fengu að halda samningi sínum, sem var allmiklu betri heldur en hjá klæðskerasveinum. Nú fer fjarri því, að ég sé að telja eftir þær kjarabætur, sem járniðnaðarmenn fengu, en ég vil með því, sem ég hef dregið fram, sýna það, hve miklu misrétti gerðardómurinn beitir í þessu tilfelli. Hann lætur járniðnaðarmenn halda samningum sínum að mestu, en dæmir af klæðskerasveinum flestar þær kjarabætur, sem þeir voru búnir að fá með samningi, þótt þeir hefðu áður mun lakari kjör. Ég vil nú spyrja hæstv. stj.: Er þetta það, sem hún kallar að færa kjör manna í landinu til lagfæringar og samræmingar, eða er það eitthvað annað, sem hér vakir fyrir þessum gerðard., eitthvað, sem er ekki tekið fram í l., eins og t.d. það, að það geti komið að því, að hið opinbera þurfi frekar að fá járniðnaðarmenn til þess að vinna heldur en klæðskera? Ráðh. hefðu sjálfsagt komist af með fötin, sem þeir ganga í, þó að klæðskeraverkfallið hefði staðið eitthvað lengur. En togararnir, sem sumir ráðh. eiga eitthvað í, þeir þurftu að komast út, svo að þeir gætu haldið áfram að moka inn stríðsgróðanum. Er þetta það, sem valdið hefur hinum mismunandi sjónarmiðum gerðardómsins? Annars hafa afskipti þessa dóms ekki orðið allmikil af kjörum annarra félaga, og sum félög eða atvinnurekendur hafa beinlínis skotið sér undan því að leggja samninga undir gerðardóminn. Mér er t.d. kunnugt um eitt félag, sem hafði í grunnkaup 1.10 á klst., er hækkaði kaupið upp í 1.30 á klst. frá áramótum, en þessi samningur hefur aldrei komið fyrir gerðardóminn. Af öðrum framkvæmdum þessu viðvíkjandi má nefna það, að vegamálastjóri er búinn að hækka grunnkaup í vegavinnu í Borgarf. úr 1.10 upp í 1.30, en á sama tíma hefur gerðardómurinn verið að burðast við að níðast á elztu fagfélögum, þar sem mest vinna menn, sem eru orðnir grónir í iðninni og vilja ekki fara í neina aðra vinnu.

Eitt dæmi vil ég nefna um afskipti gerðardómsins.

Nýlega hefur gerðardómurinn afnumið með úrskurði samning um grunnkaupshækkun félagsins Iðju á Akureyri.

Við iðnaðinn á Akureyri vinnur fólk, sem hefur haft sérstaklega lág launakjör undanfarin ár. Sáttasemjari ríkisins gekk í það um áramót, að þetta félag og atvinnurekendur gerðu með sér nýjan — samning, með nokkuð auknum fríðindum, og um hækkun á grunnkaupi, sem nam 5%. Þessi grunnkaupshækkun, sem sáttasemjari ríkisins var búinn að beita sér fyrir, var af þessu fólki tekin með gerðardómnum, og skyldi maður þó ætla, að sáttasemjari ríkisins væri betur fær um að dæma um þarfir verkafólksins og getu atvinnuveganna heldur en gerðardómsmennirnir. Nú var þarna ekki um neina almenna kaupdeilu að ræða, síður en svo. Alls höfðu 7 félög með 500 meðlimum farið fram á grunnkaupshækkanir, en í Alþýðusambandinu eru um 18 þús. meðlimir, svo að l. eru ekki sett til þess að koma í veg fyrir það, sem stj. hefur kallað yfirvofandi almennar grunnkaupshækkanir. Lögin eru sett til þess að koma í veg fyrir samninga, sem í mörgum tilfellum var búið að gera á milli atvinnurekenda og verkamanna, og til þess að koma í veg fyrir samkomulag á milli þessara aðila um leiðréttingu á kaupi og kjörum. Það eru þessi dæmi, sem hvergi þekkjast annars staðar á Norðurlöndum.

Nú gefur framkvæmd l., eins og hún hefur verið, tilefni til að beina þeirri fyrirspurn til ríkisstjórnarinnar, hvort hún hafi látið fara fram nokkra rannsókn á grunnkaupi verklýðsfélaganna í landinu, hvort henni sé fullkunnugt um, að grunnkaup verkafólks í landinu sé almennt svo hátt, að ástæða sé til að banna hækkun þess. Mér er nær að halda, að ríkisstjórnin viti ekkert um þetta, og mun halda það, þar til annað kemur í ljós. Hún hefur sett þessi lög, án þess að nokkur vitneskja hafi legið fyrir um það, hvort verkalýðurinn gæti lifað af því kaupi, sem honum er skammtað.

Ég hef lítillega látið athuga þetta mál. Sú athugun hefur leitt í ljós, að í 10 verklýðsfélögum, með um samtals 900 meðlimi, er grunnkaupið á klst. kr. 1.10 og lægra. Þessi félög eru öll, ef svo mætti segja, á útkjálkum landsins. Þar er ekki mikil eftirspurn eftir vinnukrafti, engin Bretavinna eða annað slíkt og þeim, sem við þetta eiga að búa, er nauðsynlegt að flytja burt til þeirra staða, þar sem atvinna er meiri og betur borguð, ef þeir eiga að fá kjör sín bætt. — Er það kannske tilgangur ríkisstjórnarinnar beinlínis að neyða fólk til þess að flytja úr dreifbýlinu og til hinna þéttbyggðari svæða? En ég hef haldið, að ekki væri ástæða til þess að sjá ofsjónum yfir tekjum þeirra manna, sem eiga við slitrótta vinnu að búa og fá kr. 1.10 í grunnkaup, jafnvel þótt grunnkaupið væri 1.20 pr. klst. En þessar athuganir sýna enn fremur, að 9 verklýðsfélög með 1200 meðlimi eiga við þau kjör að búa, að grunnkaupið er kr. 1.20 og lægra. Þessi félög eru líka á útkjálkum landsins. M.ö.o. rúmlega 2000 skipulagsbundinna verkamanna í landinu eru með kr. 1.20 í grunnkaup og þaðan af lægra.

Ef þetta fólk því á þess nokkurn kost, þá flytur það úr dreifbýlinu og til þeirra staða, þar sem betri kjör eru fáanleg. Það er ein afleiðing þessarar löggjafar.

Annars er það svo, að þessi lög eru að sumu leyti óframkvæmanleg eða þá þau eru ranglát, ef hægt er að framkvæma þau, og skal ég nú finna þeim orðum mínum stað. — Í l. er bannað að hækka grunnkaup frá því, sem það var árið1941. Það er bannað að hækka allt kaupgjald, ekki einungis hjá öllu félagsbundnu fólki, heldur og einnig hjá öllum vinnuhjúum, vinnukonum, vinnumönnum og kaupafólki. Nú vita það allir, að menn ráða ekki til sín t.d. vinnukonu nema brýn þörf sé. Allir reyna eftir megni að spara við sig allt fólkshald. En fáist nú ekki vinnukona fyrir sama kaup og s.l. ár, verða lögin brotin á hverju einasta heimili í landinu, sem ræður til sín vinnukonu. — Sama máli gegnir um kaupafólk í sveit. Ég veit, að búnaðarmálastjóri staðfestir það með mér, að bændur mundu borga kaupamanni t.d. 110 kr. meira á mánuði en í fyrra heldur en að geta ekki aflað heyja handa búpeningi sínum. Það er því auðséð, að þessi lög, ef samþ. verða, verða brotin meira en nokkur lög áður í þessu landi. Þau verða ekki aðeins brotin í einstökum tilfellum, heldur í hverju einasta heimili í landinu, sem þarf að taka fólk.

Það er alkunna, að þessi lög eru nú þegar brotin í mjög stórum stíl hér í Reykjavík. Ef maður t.d. þarf að láta reisa hús, verður hann að borga smíðunum svo og svo marga tíma í eftirvinnu, sem þeir ekki vinna. Ég veit um opinberar stofnanir, sem hafa orðið að fara svipað að.

Það er vitanlegt, að þeir, sem urðu fyrir barðinu á gerðardómsl., hafa yfirgefið iðngreinar sínar.

T.d. eru 15 járnsmíðasveinar farnir síðan á áramótum. Fengu þeir þó kjör sín að mestu bætt eins og þeir óskuðu eftir. Hvað þá um hinar iðngreinarnar, sem engar kjarabætur fengu?

Árangur laganna er því sá, að alls staðar þar, sem eftirspurn er eftir vinnukrafti, verða lögin brotin, og það er helzt á þeim stöðum, þar sem grunnkaup er þolanlegt.

Úti um land, þar sem grunnkaupið er lágt, en engin eftirspurn eftir vinnuafli, verða lögin til þess að níðast á lægst launuðu verkamónnunum í landinu. Ég verð að segja það, að það er hart til þess að vita, á tímum milljónagróða, að hafa svo óréttláta og skammsýna ríkisstjórn, að hún setur lög til þess að níðast á lítilmagnanum. Það ríkti önnur skoðun í fyrra á svona lögum, a.m.k. hjá öðrum ráðherra Sjálfstæðisflokksins. Hæstv. atvinnumálaráðherra lét þess þá getið, að hann væri eindregið fylgjandi dýrtíðarfrumvarpinu, eins og það lá þá fyrir, og með leyfi hæstv. forseta vil ég leyfa mér að vitna hér í þau ummæli hans. Ráðherrann sagði:

„Ég er eindreginn stuðningsmaður þess, að sú tilraun sé gerð, sem frv. fjallar um. Ég áskil mér að sjálfsögðu rétt til þess að reyna að koma fram breytingum og mun snúast gegn því, ef nauðsynlegustu lagfæringar fást ekki, því að slík löggjöf gagnar aldrei vel, ef þeir gallar fylgja, sem skapa henni fjandskap verulegs hluta þjóðarinnar“

Síðan þetta var sagt, eru liðnir 9 mánuðir. Áður en liðnir voru meira en rúmir 6 mánuðir, var þessi sami ráðherra fús að vera með í að setja löggjöf, sem skapaði fjandskap verulegs hluta þjóðarinnar. Ég hefði í nefndinni flutt þau rök, sem ég hef hér flutt, ef ég hefði ekki strax heyrt á meðnm. mínum, að þeir töldu það skyldu sína að afgreiða málið óbreytt. — En þessi lög, ef samþ. verða, eru á annan bóginn óframkvæmanleg, en að hinu leytinu ranglát og bitna á þeim, er sízt mega við því.

Til viðbótar við framkvæmdaleysi ríkisstjórnarinnar í dýrtíðarmálunum vil ég segja það, að henni var heimilað að leggja úflutningsgjald á sjávarafurðir. — Það var á það bent í umræðunum um brezku samningana, að smábátaútvegurinn mundi ekki þola það, en hins vegar mundu togararnir þola það vel. Ég hef dálítið athugað verð á útfluttum fiski, sem seldur var á frjálsum markaði í Englandi, eða frá júní- des. 1940 og ísfisksölurnar 1941. Þessi athugun hefur leitt í ljós, að verðið hefur verið allmiklu hærra 1941 en 1940. — Í júní–des. 1940 eru flutt út 40 000 tonn af ísuðum fiski. Sé dregið frá söluverðinu 10% vegna kostnaðar og 300 kr. á tonn reiknaðar sem flutningsgjald, en það er sú tala, sem gjaldeyris- og innflutningsnefnd reiknar með, þá verður verðið á fiskinum 0.83 kr. pr. kíló. Sé reiknað á sama hátt verð útflutts fiskjar 1941, þó að flutningsgjöldin hækkuðu upp í kr. 400 á smálest, kemur í ljós, að meðalverðið hefur verið 1.26 kr. pr., kíló.

Aðgætandi er í þessu sambandi, að nokkur hluti fiskjarins árið 1941 hefur verið fluttur út hausaður, svo. að nærri mun láta, að 1940 hafi verðið verið kr. 0.83 og 1941 hafi það verið 0.95 –1.00 pr. kg. — Ef ríkisstjórnin hefði því notað hér þær heimildir, sem hún hafði til tekjuauka, og lagt útflutningsgjald á ísfisksölurpar, má gera ráð fyrir, að hún hefði haft a.m.k. 10–11 milljónir króna til þess að vinna með á móti dýrtíðinni.

Allt þetta hefur ríkisstjórnin látið undir höfuð leggjast. En sé athugað allt skraf atvmrh. um, að dýrtíðin væri þjóðarógæfa, látandi svo allar heimildir ónotaðar, verð ég að segja, að það er þjóðarógæfa að hafa svona ríkisstjórn. Þegar hún svo fer að gera eitthvað, ræðst hún ekki á dýrtíðina, heldur á kaupgjald launastéttanna í landinu. Þá kemur hún með lög, sem eru hvort tveggja í senn, óframkvæmanleg og ranglát.

Ég hef því af þeim ástæðum, sem ég hef nú hér greint, lagt til, að þetta frv. verði fellt. Og ég held, að ef þm. fengjust til þess fyrir flokksofríki að athuga málið og ef sú athugun vær í gerð óhlutdrægt, ef menn létu vera að taka tillit til þess, sem þegar er búið að samþykkja, heldur tækju málið upp eins og það liggur fyrir, og eins og reynslan hefur sýnt, að framkvæmd þess er orðin á þeim mánuðum sem brbl. hafa verið í gildi, þá gæti ekki hjá því farið, að meiri hl. hv. þm. kæmist að þeirri niðurstöðu, að það ætti að fella þetta frv.