23.02.1942
Neðri deild: 3. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 31 í C-deild Alþingistíðinda. (334)

4. mál, frestun bæjarstjórnarkosninganna í Reykjavík

*Fjmrh. (Jakob Möller):

Eins og hv. þdm. er kunnugt, þótti ekki verða komizt hjá að gefa út brbl. um frestun bæjarstjórnarkosninga í Reykjavík, er fram áttu að fara 25. jan. s.l., vegna óvenjulegra ástæðna, sem þá ríktu í opinberum málum hér í bæ.

Hv. dm. er kunnugt, að um áramótin kom til verkfalla hér í bænum, þ. á. m. prentaraverkfalls, svo að blaðaútgáfa stöðvaðist að mestu leyti. Aðeins eitt blað gat þá komið út óhindrað. Hin blöðin komu ekki út lengi vel, en þó fór svo að lokum, að út gátu komið smásneplar af þeim tvisvar eða þrisvar á viku eða sem svo. Ríkisstj. leit nú svo á, að sá stjórnarfarslegi grundvöllur, er almennar kosningar eiga að byggjast á, væri ekki fyrir hendi á þeim tíma, er bæjarstjórnarkosningarnar áttu fram að fara, og ákvað hún því að fresta þeim, þar til þessi mál væru aftur komin í sæmilegt horf. Nú hefur skipazt svo, að þetta er komið í venjulegt horf, og er þar með ákveðið, samkv. brbl., hvenær kosningarnar skuli fram fara. Verður ekki um það breytt, nema til komi nýjar ástæður, sem eru þann veg, að ekki þyki pólitísk skilyrði fyrir hendi til þess, að hægt sé að hafa kosningar.

Ég tel, að allir hv. þdm. muni hafa gert sér svo glögga grein fyrir þessu máli, að ekki sé þörf á að hafa um það fleiri orð. Legg ég svo til, að málinu verði að umr. lokinni vísað til 2. umr. og allshn.