23.02.1942
Neðri deild: 3. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 31 í C-deild Alþingistíðinda. (335)

4. mál, frestun bæjarstjórnarkosninganna í Reykjavík

*Haraldur Guðmundsson:

Ég mun greiða atkv. gegn þessu frv. um staðfesting á brbl. hæstv. ríkisstj., ekki vegna þess, að mér sé ekki ljóst, að það hefur engin áhrif á það hér eftir, hvenær kosningar fara fram í Reykjavík, hvort frv. verður samþ. eða ekki, heldur af hinu, að ég tel sjálfsagt að mótmæla sem kröftuglegast því gerði hæstv. ríkisstj. að gefa út þessi brbl. Ég mun því greiða atkv. gegn frv. og vænti þess, að sem flestir hv. þm. geri hið sama.

Eftir að þessi brbl. voru gefin út, flutti hæstv. fjmrh. ásamt hæstv. forsrh. svo kallaða greinargerð fyrir þeim í ríkisútvarpið. Var látið heita, að þeir ætluðu sér að skýra tilgang brbl. þessara. Greinargerð hæstv. fjmrh. var að vísu að mestu leyti flutt til þess að afsaka útgáfu gerðardómsl. En auk þess var það, sem hann sagði um frestun kosninga hér í Reykjavík, þann veg fram sett, að ég furðaði mig á. Það voru fullyrðingar, sem honum var sjálfum fullkunnugt um, að höfðu ekki við nein rök að styðjast. Hann réðst þar harkalega á einn stjórnmálaflokk, Alþfl., sem hafði enginn tök á að bera hönd fyrir höfuð sér. Þetta var ekki fyrsta misnotkun útvarpsins, sem hæstv. ríkisstj. gerði sig seka um, því að þegar brbl. um svo kallaðan gerðardóm í kaupgjalds- og verðlagsmálum höfðu verið gefin út, fluttu tveir hæstv. ráðh., forsrh. og atvmrh., svo kallaða greinargerð fyrir þeim í útvarpið. Þá var ekki búið að veita félmrh., Stefáni Jóh. Stefánssyni, lausn frá ráðherrastörfum, en samt gerðust þau fáheyrðu tíðindi, að þeir tóku ríkisútvarpið til sinna nota, en bönnuðu ráði. Alþfl. að gera grein fyrir afstöðu sinni. Og þetta var ekki látið nægja, heldur var svo enn notað tækifærið, er frestun bæjar stjórnarkosninganna hafði verið ákveðin, til að skapa tveim hæstv. ráðh. sömu flokka aðstöðu til að láta ljós sitt skína með ræðuhöldum í útvarpið. Þessi háttur, sem hæstv. ríkisstj. hefur tekið hér upp, að geru ríkisútvarpið að einkaáróðurstæki sínu, er algert einsdæmi.

Ég skal svo víkja að grg. hæstv. fjmrh. fyrir þessum brbl. Hann flutti í ræðu sinni einkennilega skáldsögu, er hann sagði, að Alþfl. hefði komið prentaraverkfallinu af stað. Hann hefði stillt svo til, að vinnustöðvun prentara hæfist um áramót, svo að ekkert blað nema Alþýðublaðið gæti komið út fram að bæjarstjórnarkosningum í Reykjavík, sem fram áttu að fara seint í janúarmánuði. Klókindin voru ekki lítil. Alþfl. lætur prentara segja upp samningum sínum þrem mánuðum fyrir nýjár, hann fær alla sjálfstæðismenn, alla framsóknarmenn, alla kommúnista í prentarafélaginu til að leika þennan leik með sér, en aumingja ráðh. Sjálfstfl. og Framsfl. eru ekki annað en sakleysið sjálft, á meðan þessu fer fram, og eiga sér einskis ills von, og þegar þessi brella Alþfl. er komu í kring, eiga þeir einskis annars úrkosta en svara henni með fyrrnefndum brbl. Þessi saga á engan sinn líka í íslenzkri skáldsagnagerð, nema ef vera skyldi sögu þá, er borgarstjórinn í Reykjavík samdi á siðasta hausti um það leyti, er aukaþingið var haldið, eri sú saga var á þá leið, að Alþfl. og Framsfl. hefðu ætlað að tæla sjálfstæðismenn í ríkisstj. til að binda kaupgjaldið með l., til þess að fyrrnefndir flokkar gætu sjálfir grætt á því. Þessir ráðh, sjálfstæðismanna höfðu setið með sveittan skallann í samningum við ráðh. Framsfl. og látið ánetjast, þar til ágætir flokksmenn þeirra í Hafnarfirði sáu við þessu og leiddu þá í allan sannleika um það. hvernig verið væri að leiða þá afvega. Saga sú um tildrög prentaraverkfallsins, sem ég gat um áðan, er sams konar og þessi, en fyrir henni er auðvitað enginn fótur, og hæstv. ráðh, veit það líka. Alþfl. átti engan þátt í því að koma þessu verkfalli af stað, og ég hygg, að verkfallið hafi verið samþ. með einróma atkv. allra þeirra, er á fundi voru, þegar það var ákveðið, án tillits til þess, hvort það voru sjálfstæðismenn, framsóknarmenn, kommúnistar eða Alþýðuflokksmenn.

Svo er annað atriði, sem útilokar gersamlega, að nokkrum heilvita manni geti dottið í hug að trúa orðum hæstv. ráðh., en það er ákvæði í samningi prentara og prentsmiðjueigenda í Reykjavík, sem undirritaður var snemma í janúar í fyrra. Þar er tekið fram, að þótt koma kunni til vinnustöðvunar, hvort sem um er að ræða verkfall eða verkbann, þá skuli Alþýðuprentsmiðjan hafa heimild til að vinna áfram að prentun Alþýðublaðsins. Var öllum prentsmiðjueigendum fullkunnugt um þessa gr., enda var þeim tilkynnt þetta. Til þess að taka af öll tvímæli, vil ég, með leyfi hæstv. forseta, lea hér upp 43. gr. í samningi prentara og prentsmiðjueigenda, sem gerður var í ársbyrjun 1941. Þar segir svo:

„Komi til verkfalls eða verkbanns af hálfu H.Í.P. eða F.Í.P., eru Alþýðuprentsmiðjan og Ríkisprentsmiðjan Gutenberg undanþegnar því að leggja niður vinnu gegn því, á meðan á vinnustöðvuninni stendur, að Alþýðuprentsmiðjan skuldbindur sig til að prenta aðeins það, sem Alþýðufl. og starfsemi hans krefur, eins og Ríkisprentsmiðjan skuldbindur sig til að prenta aðeins það, sem starfsemi ríkisins krefur, og báðar skuldbinda sig til að taka ekki aðra eða fleiri menn til vinnu en verið hafa fastir starfsmenn í minnst mánuð, áður en verkfallið eða verkbannið hófst.“

Þessu skilyrði hefur í öllu verið fullnægt, frá því er vinnustöðvun hófst. Það er því augljóst, að ekkert hefur verið gert í þessu máli af hálfu Alþýðuprentsmiðjunnar eða Alþfl. nema það, sem allir máttu vita, að gert yrði.

Þá var það rangt hjá hæstv. ráðh:, að vinnustöðvunin hafi verið svo alger, að engin blöð hafi getað komið út önnur en Alþýðublaðið, enda játaði hann það hér áðan. Strax, þegar kosningafrestunin hafði verið ákveðin, sem ráðh. Framsfl. eiga að hafa fallizt á fyrir þrábeiðni manna sinna, en þó sennilega fyrir eitthvað meira, þá brá svo við, að Vísir og Morgunblaðið fóru að koma út aftur, að vísu snepIar, eins og hæstv. ráðh. komst að orði, en þó þannig, að lítið vantaði á, að þau næðu bæði saman lesmáli Alþýðublaðsins. Enda er vitanlegt, að með þeim ítökum, sem sjálfstæðismenn eiga í prentarastéttinni, hefði verið leikur einn fyrir þá að halda úti blöðum sínum á stærð við Alþýðublaðið, og tel ég, að með því hefði réttum leikreglum verið framfylgt, því að ekki getur það talizt réttlátt, að blaðakostur andstæðinganna sé fjórfaldur eða sexfaldur á við blaðakost Alþýðuflokksins.

Enn er það atriði, að ákveðið hafði verið, að fram skyldu fara útvarpsumr. um bæjarstjórnarkosningarnar þrjú kvöld í röð, og skyldu allir flokkar, er lista höfðu í kjöri, taka þátt í þeim umr. og hafa jafna aðstöðu til að tala máli sínu. ekkert virtist nú auðveldara en fjölga þessum útvarpskvöldum með tilliti til þess, að blöð gátu ekki komið út með reglulegum hætti, og þegar þess er gætt, hve langt hæstv. ríkisstj. hafði áður gengið í því að misbeita útvarpinu og flytja landsmönnum einhliða áróðursfregnir, virtist það beinlínis skylda hennar að láta þessar umr. fara fram. Ef það er brot á lýðræðisreglum, að einn flokkur hafi meiri blaðakost en annar fyrir kosningar, þá er það óefað miklu alvarlegra brot á þeim reglum, ef ríkisútvarpið er látið flytja einhliða áróður varðandi kosningar til þeirra kjósenda um land allt, sem engan kost hafa átt á því ai kynna sér viðhorf málanna frá öðrum hliðum.

Þegar fyrrnefnd brbl. voru gefin út, var þar svo ákveðið, að kosningum skyldi frestað hér í Reykjavík aðeins. Hins vegar voru þær látnar fara fram með eðlilegum hætti í Hafnarfirði. Keflavík og á Akranesi eins og öðrum kaupstöðum og kauptímum landsins, þar sem kjósa skyldi. Nú var vitað, að þessir staðir allir höfðu eingöngu þann sama blaðakost og Reykvíkingar og blaðanna sömu not, hvorki meiri né minni. Blöðin koma daglega til þeirra og hafa væntanlega sömu áhrif á hugi kjósenda á þessum stöðum og í Reykjavík. En þar eru þessar kosningar látnar fara fram, þar er engin hætta á, að lýðræðisreglurnar séu brotnar eða „réttar leikreglur“, eins og hæstv. forsrh. stundum orðar það. Mér er óskiljanlegt, hvaða samræmi hæstv. ráðh. getur fundið í þessu. Enda er ég fullviss þess, að það er fyrirsláttur einn og annað ekki, að kosningafrestunin hér í Reykjavík hafi stafað af því, að ráðh. hafi talið það brot á rétti. lýðræðisreglum að láta kosningar fara fram. Frestunin stafar eingöngu af því, að Sjálfstfl. varð þess áþreifanlega var, að álit hans og fylgi hjá kjósendunum í bænum hafði beðið stórfelldan hnekki við það, að hann gerðist samsekur ráðh. Framsfl. um útgáfu brbl. um gerðardóm í kaupgjalds- og verðlagsmálum. Og hann óttaðist, að þetta mundi koma stórlega í ljós við kosningarnar. Hann hugsaði sem svo: Frestur er á illu beztur. Hver veit, nema þetta fyrnist, eitthvað gerist, áður en kosið verður, — ef við fáum bið, sem dregur hugi manna frá þessu máli. Við skulum láta vinnustöðvuninni ljúka fyrst og hugi manna róast. Svo koma önnur mál, sem taka hugi manna, en þetta eyðist. Flokkurinn vildi skjóta dómi kjósenda á frest, ekki til þess að málin yrðu betur skýrð, heldur í von um það, að hægt yrði, áður en til kosninga kæmi, að lauma öðrum málum framar í hugi manna og þar með draga eitthvað úr þeim hnekki, sem talið var, að flokkurinn hafi beðið við vinnustöðvunina. Ég get í sjálfu sér skilið afstöða þeirra. Þeir hafa látið undan ótta þeirra manna, sem gengu út um bæinn til að leita eftir hugum kjósendanna. Hitt á ég erfitt með að skilja, hvers vegna Framsfl. og ráðherrar hans sáu ástæðu til þess að verða við þrábeiðni samstarfsmanna sinna. Nema svo skyldi vera, að aðrar ástæður liggi til en þær, sem opinberar eru enn.

Þessi ótti sjálfstæðismanna við kosningar í Reykjavík hefur áreiðanlega ekki verið ástæðulaus. Það hafa úrslit bæjar- og sveitastjórnarkosninga víðs vegar mjög greinilega leitt í ljós. Einn sjálfstæðismaður orðaði það svo í mín eyru, og sama væri, hvers konar sprengilistar kæmu fram, það hefði alls staðar orðið sama reynslan, að sjálfstæðismenn hefðu hópum saman flykkzt á þessa sprengilista til þess að komast hjá því að kjósa sinn eigin flokk. Á Ísafirði, Akureyri og Keflavík sýndi það sig, að stór hluti notaði sér möguleikann til þess að greiða atkv. móti sínum eigin flokki, án þess beinlínis að kjósa sína gömlu andstæðinga, sem þeir höfðu átt í höggi við.

Þó er þess gott að minnast, að ýmislegt ánægjulegt hefur gerzt í sambandi við kosningar þessar fyrir hann og væntanlega líka fyrir samstarfsflokkinn. Því að í Húsavík, vöggu kaupfélagsstefnunnar hér á landi, voru á einum og sama lista við sveitarstjórnarkosningar Gudjohnsen og Kaupfélagsstjórinn, — sonarsonur gamla Gudjohnsens og eftirmaður Jakobs Hálfdánarsonar —, og sigruðu með stórum meiri hluta. Þetta er í kjördæmi hv. þm. S.Þ., sem tvímælalaust og án efa er sá andlegi leiðtogi og sameiginlegur pólitískur faðir þessara fjögurra ráðh., sem nú skipa ríkisstj. Svo að það fer sannarlega vel á því, að þessir tveir athurðir gerist á sama tíma sem SÍS og Kveldúlfur hafa meirihlutavaldið í bankaráði Landsbanka Íslands. Þó að ýmislegt hafi þjáð Sjálfstfl., þá rofar þó ekki óvíða í ljósari bletti gegnum skýjaþykknið, og mun báðum flokkum vera — það ánægja að líta til lofts. Ég get hugsað mér samvinnumennina í Suður-Þingeyjarsýslu himinlifandi yfir þessu.

Ég mun láta þessi orð mín nægja að sinni. Ég mun greiða atkv. gegn frv., ekki af því, að mér sé ekki ljóst, að það orkar engu um, hvenær kosningar fara fram í Reykjavík, heldur vegna hins, að brbl. voru gefin út að tilefnislausu og útgáfa þeirra var rökstudd með algerlega röngum röksemdum.