20.03.1942
Efri deild: 20. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 20 í B-deild Alþingistíðinda. (38)

8. mál, vegabréf innanlands

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Ég vil þakka n. fyrir, að hún hefur tekið málinu með skilningi, og mun ég taka tillit til leiðbeininga hennar. Það er rétt, að erfitt hefur reynzt að fá hæfar ljósmyndir í tæka tíð, en ekki er gert ráð fyrir, að þessi heimild verði notuð nema hér og í Hafnarfirði.

Ég tók þetta fram við 1. umr., en síðan hafa erfiðleikarnir vaxið, og hefur það ekki allt komið í ljós í umr. hér á Alþingi.

En það er eitt atriði, sem menn hnjóta um og reka augun í, að ekki er skylt að bera vegabréf undir 12 ára að aldri, og hafa menn bent á það, að nauðsyn væri engu að síður fyrir hendi fyrir unglinga innan 12 ára að bera vegabréf. Ég hef hins vegar bent á, að ef til árása kynni að koma hér, yrðu börnin flutt úr bænum og svo, að börnin eru að öllum jafnaði meira heima við en fólk, sem stundar atvinnu sína úti um bæ, og lögreglu- og hjálparsveitir. Við þetta er aldurstakmarkið miðað. Hins vegar er svo ekki heldur líklegt, að unglingar innan 12 ára hafi hirðusemi á því að gæta vegabréfa sinna, en mundu týna þeim. Ekki er heldur krafizt, að eldra fólk beri vegabréf, og eru fyrir því sömu ástæður, þ.e.a.s. álitið er, að það sé meira heima við og hafi þess vegna minni þörf fyrir þau. Þær ástæður, sem ég færði fyrir þessu frv., eru vafalaust fyrir hendi nú og hafa heldur aukizt. Herstjórnin álítur landið vera í mikilli hættu, án þess að hún geti gefið neinar nánari upplýsingar, og viti ekkert um það frekar en aðrir.