16.02.1942
Sameinað þing: 1. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 7 í B-deild Alþingistíðinda. (4)

Minning Matthíasar Ólafssonar

Minning Matthíasar Ólafssonar. Aldursforseti (JakM):

Frá því er síðasta þingi sleit, hefur látizt einn fyrrverandi alþingismaður, Matthías Ólafsson, fyrrum þingmaður Vestur-Ísfirðinga. Hann andaðist í sjúkrahúsi hér í bænurn 8. þ.m., á 85. aldursári. Áður en þingstörf hefjast, vil ég minnast þessa manns nokkrum orðum.

Matthías Ólafsson fæddist í Haukadal í Dýrafirði 25. júní 1857, sonur hjónanna Ólafs Jónssonar bónda þar og Ingibjargar Jónsdóttur bónda í Stapadal Bjarnasonar. Hann ólst upp með foreldrum sínum og stundaði á unglingsárum sjómennsku og ýmis sveitastörf. Þegar Möðruvallaskóli var stofnaður fyrir 62 árum, réðst hann þangað til náms og útskrifaðist þaðan að 2 árum liðnum, 1881. Næstu tvo vetur fékkst hann við kennslu í Þingeyrarhreppi, var síðan verzlunarmaður á árunum 1883–1892, en stundaði jafnframt kennslustörf 1885–1889 við barnaskóla, er hann og fjórir menn aðrir reistu á eiginn kostnað í Haukadal. Árið 1892 setti hann sjálfur á stofn verzlun í Haukadal, en seldi hana 5 árum síðar, 1897, Gram á Þingeyri, veitti henni þó forstöðu um næstu 11 ára bil. Þá keypti hann verzlunina aftur og rak hana til ársins 1914, en á því ári fluttist hann til Reykjavíkur og gerðist ráðunautur og erindreki Fiskifélags Íslands. Því starfi gegndi hann til 1920. en þá tók hann um missiris skeið að sér forstöðu matvælaskömmtunarskrifstofu, er ríkið hafði sett á stofn, eða til þess tíma, er sú stofnun hætti störfum. Þá tók hann við gjaldkerastarfi í landsverzlun og síðar, 1928, þegar sú verzlun var lögð niður, sams konar starfi í Olíuverzlun Íslands. Af því starfi lét hann ekki fyrr en áttræður, 1937.

Meðan Matthías Ólafsson dvaldist vestra, átti hann mikinn þátt í flestum framfaramálum sýslu sinnar, bæði í verklegum efnum og öðru því, er til menningar horfði, og gegndi þar mörgum trúnaðarstörfum. Hann var þingmaður Vestur-Ísfirðinga 1912–1919 og sat því á 9 þingum alls, átti lengi sæti í hreppsnefnd og sýslunefnd auk ýmissa annarra starfa, er á hann hlóðust. Hann átti þátt í vélbátaútgerð í Haukadal, gekkst fyrir stofnun Sparisjóðs Vestur-Ísfirðinga um aldamótin og stofnun brunabótafélags í Þingeyrarhreppi árið 1904. Þegar suður kom og hann var orðinn ráðunautur Fiskifélags Íslands, gerðist hann um hríð umboðsmaður þess í útlöndum, dvaldist tvo vetur í Vesturheimi til þess að kynna sér þar markaðshorfur sjávarafurða og verkunaraðferðir, og síðar ferðaðist hann til Suðurlanda í sömu erindum. Af öðrum störfum hans í almenningsþágu má nefna, að hann var þingkjörinn yfirskoðunarmaður landsreikninganna um nokkurra ára skeið.

Matthías Ólafsson var fjörmaður, glöggskyggn og áhugasamur, hugkvæmur um verklegar framkvæmdir og fús til nýbreytni, ef honum þótti vænleg til framfara, en þó gætinn og vildi jafnan kunna fótum sínum forráð. Liðtækur var hann til allra starfa á þingi, enda hafði hann aflað sér góðrar þekkingar á landsmálum, einkum þó um allt, er laut að útgerðar- og verzlunarmálum. Hann var og lipurmenni og manna vinsælastur.

Ég vil biðja háttvirta þingmenn að votta minningu þessa merka manns virðingu sína með því að rísa úr sætum.

[ Þingmenn risu úr sætum sínum.]

Með því að allmargir þingmenn voru enn ókomnir til þings, frestaði aldursforseti fundi. og kvaðst mundu boða framhald fundarins með dagskrá.

Miðvikudaginn 18. febr., kl. 11/2 miðdegis, var fundinum fram haldið. Af þeim 9 þingmönnum, sem ókomnir voru til þings við þingsetningu, voru nú komnir: Einar Árnason, 2. þm. Eyf., Ingvar Pálmason, 2. þm. S.-M., Ísleifur Högnason 4. landsk. þm., og Páll Hermannsson, 2. þm. N.-M.