07.05.1942
Neðri deild: 53. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 152 í C-deild Alþingistíðinda. (442)

24. mál, dragnótaveiði í landhelgi

*Stefán Stefánsson:

Herra forseti ! Þar sem hv. flm. er fjarverandi, vil ég segja nokkur orð. Sjútvn. hefur. legið á þessu máli í 8 vikur, og það er sýnilegt, hve tilgangurinn er. Það er þó ekki hreinlega lagt til, að frv. verði drepið, heldur á að eyðileggja það með rökst. dagskrá. — Ég vil óska eftir því við n., að hún breyti orðalagi dagskrárinnar í „ríkisstjórnin skal“. Ég er á móti dagskránni, en hefði getað fellt mig við hana, ef í henni hefði falizt bein fyrirskipun til ríkisstj. Forsendur dagskrárinnar eru þær, að fyrir liggi almenn mótmæli útvegsmanna. Hver eru þau? Þau eru frá nokkrum trillubátaeigendum á Akureyri, í Ólafsfirði og í Hrísey, en þess er ekki getið, hve fjölmenn sú stétt er. Í Eyjafirði eru 10 bátaeigendur. Mér er kunnugt um, að það eru í mesta lagi 6 bátar í Hrísey. En það liggja fyrir áskoranir frá á þriðja hundrað sjómanna í öfuga átt. Ég vil fullyrða, að a.m.k. 90% af útvegsmönnum og sjómönnum á Akureyri krefjast þess, að frv. verði samþ. Hvorum hlutanum á Alþ. að fylgja: 90% eða 10% ?

Ummæli Árna Friðrikssonar eru eingöngu miðuð við friðun á skarkola, en það liggur allfjarri þessu frv. Það er örugg trygging fyrir því, að smábátar geta stundað þær línuveiðar, sem útvegsmenn vilja. Við 1. umr. las ég upp úr bréfi frá útvegsmönnum á Akureyri. Hv. þm. Ísaf. fékk það lánað, en hefur ekki mótmælt neinu, sem þar stendur, hvorki við 2. umr. né nú. Óskar hv. þm. þess, að smábátaeigendur á Norðurlandi selji báta sína og fari í Bretavinnu? Annars skýtur skökku við, að hann mótmæli Bretavinnunni, því að málgagn hans flokks otar mönnum í Bretavinnu og andmælir takmörkun á henni.