12.03.1942
Neðri deild: 18. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 155 í C-deild Alþingistíðinda. (455)

35. mál, raforkusjóður

Flm. (Pétur Ottesen):

Við flm. þessa frv. höfum staðið að flutningi frv. um þetta efni á undanförnum þingum. Þau frv., sem við höfum flutt um þetta, voru í öndverðu nokkuð ósamhljóða, þannig að ekki voru farnar sömu leiðir í þeim öllum, en í meðferð Nd. á þessu máli á 2 undanförnum þingum hefur það komizt í nokkuð fast form, að því er framgang þessara till. snertir.

Við höfum í þessu frv. að hálfu leyti tekið upp það frv., sem samþ. var í Nd. á síðasta aðalþ. um þetta efni, aðeins í 3 atriðum vikið nokkuð frá því. Í fyrsta lagi er það, að hér er gert ráð fyrir nokkru hærra framlagi úr ríkissjóði heldur en var í því frv., sem sé, að í staðinn fyrir 100 þús. kr. framlag árlega á næstu 10 árum, þá sé þessi upphæð nú færð upp í 300 þús. kr. Auk þess höfum við hækkað heimild ríkisstj. til lántöku handa raforkusjóði úr 5 millj. kr., eins og hún var í frv., sem samþ. var hér síðast, upp í 8 millj. kr. Til þess að mæta andstöðu, sem risið hefur upp gegn því ákvæði frv., sem afgreitt er hér síðast, um, að fyrstu 3 árin skyldu rafstöðvar, sem þegar eru komnar upp, inna af hendi skattgreiðslur til þessara nýju stöðva, þá skulu þær nú samkv. þessu frv. vera skattfrjálsar. Nú höfum við, til samkomulags við þá menn, sem andmæltu þessu ákvæði, fallizt á að lengja þennan tíma úr 3 árum upp í 5 ár, og vænti ég, að það geti orðið liður í því að koma á sáttum um afgreiðslu þessa máls.

Að öðru leyti er þetta frv., sem við nú flytjum, alveg eins og frv. um sama efni, sem afgreitt var á síðasta vetrarþingi.

Um málið í heild þykir mér ekki ástæða til að fara mörgum orðum nú. Það hefur verið gerð svo skýr og ljós grein .fyrir því á undanförnum þingum, að hafizt sé handa um að greiða götu þeirra manna, sem erfiða aðstöðu hafa til þess að hagnýta rafmagnið. Og yfirleitt eru allir sammála um, að þessi nauðsyn sé fyrir hendi, og þá alveg eins hitt, að nauðsynlegt sé, að menn taki höndum saman um að greiða fyrir þessu máli.

Ég skal í þessu sambandi geta þess, að það er skoðun okkar flm., eins og líka hefur komið fram á undanförnum þingum , að þó að ýmsar af þeim aflstöðvum, sem nú er í ráði að reisa, búi við svo góð skilyrði, að hægt sé að koma þeim upp og leiða frá þeim rafmagn án verulegs tilkostnaðar, þá sé hitt líka vitað, að á þeim stöðum, þar sem erfiðleikarnir eru meiri, ættu þessi fyrirtæki að eiga aðgang að lánsstofnunum, sem gætu boðið upp á lán með sæmilegum kjörum. Vegna þess, hve kostnaðarsamt það er að leiða rafmagn út um dreifbýlið, er okkur flm. frv. ljóst, að þótt hægt sé að bjóða upp á lán með sæmilegum kjörum, muni það í slíkum tilfellum ekki hrökkva til, heldur þurfi að koma meira til fyrir atbeina þess opinbera, sem sé, að styrkir verði jafnframt veittir til slíkra framkvæmda frá því opinbera. Við höfum þó ekki tekið upp í frv. nein ákvæði

í þessa átt. En hins vegar vildum við láta koma skýrt fram, að ef rafmagnið á að verða til almenningsnota hér á landi, þá eru engar líkur til, að því verði komið í framkvæmd með öðrum hætti en þeim, að löggjöf um þetta efni verði tvíþætt. Annars vegar, að fyrirtækin eigi aðgang að lánum með hagkvæmum kjörum, og hins vegar, að nokkrir styrkir verði veittir til þessara framkvæmda.

Það leiðir af sjálfu sér, að í þessu máli þarf að gera svipað átak og um símalagningar hér á landi og að nokkru leyti líkt og um vegalagningar, þannig að ríkissjóður verður að vera allstór þátttakandi í því, til þess að því verði hrundið áfram.

Við skulum líka gera okkur ljósa grein fyrir því, að almenn hagnýting rafmagns er og hlýtur að verða ákaflega mikilvægur og nauðsynlegur þáttur í því að stuðla að því, að haldið verði uppi jafnvægi í okkar þjóðfélagi. Straumurinn hefur að undanförnu legið þannig, að fólkinu hefur fækkað í sveitunum og dreifbýlinu, en fjölgað í þéttbýlinu og kaupstöðunum. Það má efalaust segja, að það sé ótryggari þróun, að þetta gengur svona til. En það leiðir af sjálfu sér, að þar sem t.d. eru betri skilyrði til að hagnýta þetta mikilsverða afl til „praktískra“ nota og þæginda, og ef þéttbýlið eitt í landinu getur notfært sér þessi þægindi, þá mun það verða mjög á kostnað dreifbýlisins, því að fólkið keppist að sjálfsögðu um að komast til þeirra staða, sem þau þægindi eru fyrir hendi, en hverfur þaðan, sem litlar eða engar vonir standa til, að það geti notið þeirra. Þess vegna er það líka frá þessu sjónarmiði sem það er ákaflega nauðsynlegt að dómi okkar flm., að allt verði gert, sem hægt er, til að greiða götu þess, að rafmagnið geti orðið til almenningsnota hér á landi.

Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta frv., en vænti, að það njóti góðs skilnings, eins og það hefur gert hér í þessari hv. d. á undanförnum þingum, og að um afgreiðslu þess geti tekizt góð samtök. Ég vil svo leggja til, að þessu máli verði, að lokinni þessari umr., vísað til fjhn. Þar hefur það verið að undanförnu, og samkæmt eðli sínu á það þar að vera.