30.04.1942
Neðri deild: 45. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 175 í C-deild Alþingistíðinda. (545)

114. mál, eignarnám húseignarinnar Austurstræti 5 í Reykjavík

Viðskmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti! Þannig stendur á þessu frv. um eignarnámsheimild, að Búnaðarbanki Íslands þarf að leitast fyrir um það að fá hentugan stað fyrir aðsetur sitt til frambúðar. Hann býr við leiguhúsnæði, sem hann heldur til ársloka 1947. En það hefur þegar verið gert ljóst, að húsnæðið fær bankinn ekki undir neinum kringumstæðum að hafa lengur. Og þótt það hefði fengizt, yrði það orðið með öllu ófullnægjandi og það löngu fyrir árslok 1947. Stjórn bankans hefur verið að líta kringum sig eftir lóð undir hús hans. Það er talið mjög mikilsvert, að bankar séu á þeim stað bæjarins, sem viðskiptalifið er mest. Þess vegna hefur Búnaðarbankinn haft mikinn hug á Austurstræti 5. Þau mál fóru þannig, að háskólinn, en ekki bankinn, keypti þessa lóð í því skyni að reisa þar kvikmyndahús. Nú hefur háskólinn ekki talið sér henta að reisa slíkt hús þar, heldur aflað sér möguleika til þess annars staðar, og er þá ljóst, að hann muni ekki þurfa að nota lóðina. Síðan hafa farið fram viðtöl milli landbrh. (HermJ) og bankastjórnar annars vegar, en forráðamanna háskólans hins vegar um það, hvort ekki sé hægt að fá þessa lóð keypta af háskólanum, en enn hefur ekki fengizt um það niðurstaða. Á því er m.a. sá agnúi, að veittur hefur verið forkaupsréttur á lóðinni, og er ekki fyllilega ljóst, nema hann geti orðið því algerlega til fyrirstöðu, að frjálsir samningar takist. Því þótti okkur rétt, að ríkisstjórnin fengi eignarnámsheimildina. Satt að segja höfðum við gert okkur von um, að samningar tækjust um tilfærslu eignarinnar milli þessara opinberu stofnana, ekki sízt þar sem báðar heyra nú til sama ráðuneytis og undir yfirstjórn eins ráðherra, en vonin rakst á mikla örðugleika. Vera má, að menn líti á það misjöfnum augum, og væri rétt, að allshn., er um málið mun fjalla, kynnti sér málavexti betur en ég get skýrt þá í stuttri framsögu. Ég vil óska þess, að málið komist án verulegra tafa til n. og hún reyni að afgreiða það aftur til deildarinnar sem fyrst.