29.04.1942
Neðri deild: 44. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 282 í B-deild Alþingistíðinda. (546)

2. mál, dómnefnd í kaupgjalds- og verðlagsmálum

“Haraldur Guðmundsson:

Ég skal nú ekki seinka mjög umr. En það eru nokkur atriði, sem ég tel, að ekki sé rétt að láta ósvarað.

Hæstv. fjmrh. taldi, að ástæðan til þess, að hann væri nú farinn, eins og hann orðaði það, að framfylgja heimildarákvæðum dýrtíðarl. fram seinasta þingi, væri sú, að grundvöllurinn undir þeim hefði breytzt, því að með setningu gerðardómsl. væri girt fyrir allar kauphækkanir. Um þetta vil ég bara segja það, að hæstv. ráðh. er ljóst, og það er viðurkennt af flokksbræðrum hans hér á Alþ.,l. hafa ekki orðið til þess að koma í veg fyrir að kaup hækkaði. Eftirspurnin eftir vinnu hefur verið mjög mikil, og kaup hefur þess vegna verið hækkað mjög víða, þótt það hafi verið gert í blóra við lögin.

Hæstv. ráðh. sagði, að ekki hefði orðið mögulegt að lækka dýrtíðina, ef þær grunnkaupshækkanir, sem farið var fram á um síðustu áramót, hefðu gengið fram. En eins og ég hef tekið fram áður og hæstv. ráðh. veit, þá er ástæðan til þess, að dýrtíðinni hefur um skeið verið haldið niðri, sú, að varið hefur verið til þess fé úr dýrtíðarsjóði. Hins vegar er það flestum kunnugt, að grunnkaupshækkanir hafa átt sér stað, þótt þær séu ólöglegar, og það meira að segja, án þess að andvirði þeirra vara, sem framleiddar hafa verið með hærri framleiðslukostnaði, hafi hækkað. En þetta sýnir, að sá gróði, sem tekinn hefur verið á þessum vörum, var svo mikill, að hann þoldi þetta, án þess að vörurnar hækkuðu í verði.

Þá spurði hæstv. ráðh., hvers vegna ráðh. Alþfl. hefði ekki lagt fram till. sínar í dýrtíðarmálunum fyrr en um miðjan des. s.l. Hæstv. ráðh. spyr ekki af því, að hann viti ekki ástæðuna. Hann veit, að till. lagði hann fram snemma á s.l. sumri, en að þær gengu ekki fram, var vegna mótstöðu ráðh. Sjálfstfl., eins og líka hefur verið lýst yfir í blöðum hans.

Þá sagði hæstv. ráðh., að vöxtur dýrtíðarinnar fyrsta stríðsárið kæmi stj. ekki við, vegna þess að þá hafi hún ekki haft nein l. að styðjast við til þess að hafa hemil á dýrtíðinni. Það voru til l. um eftirlit með verðlagi, sem hægt var að beita. Að vísu voru þá ekki til l., sem heimiluðu að ákveða flutningsgjöld né til að halda niðri verðlagi með uppbótum. En strax um haustið 1940, þegar séð varð, að stríðsgróði mundi skapast í landinu, voru bornar fram till. af Alþfl. um að nota hann til að greiða uppbætur á landbúnaðarafurðir. Það var farið fram á þetta, áður en ríkisstj. setti brbl. um svipað efni, en því var ekki sinnt. Það, sem ríkisstj. þá átti að gera, var að kalla saman aukaþing, strax og séð varð, að stríðsgróðinn fór að eiga sér stað. En í stað þess að gera þetta strax þá, dregur hún það fram á vor. Og eftir að hafa afgreitt dýrtíðarl., hefur hún, allt fram á síðustu vikur, látið ógert að framkvæma þau.

Hæstv. ráðh. vildi halda því fram, að ég hefði ekki skýrt rétt frá þeim fregnum, sem ég fór með, um skatta í Bandaríkjunum. Ég las greinina orðrétta, eins og hún er í Vísi: „Í þessum tillögum er m.a. gert ráð fyrir, að enginn Bandaríkjaþegn hafi meiri arð af atvinnu sinni en 25 þús. dollara árstekjur, þegar skattur hefur verið greiddur.“ Ég skal ekki um það fullyrða, hvort orðið þegn á hér við einstakling eða fyrirtæki, en jafnvel þó að um einstakling sé að ræða, þá er þar miklu lengra gengið í þessu efni en gert hefur verið hjá okkur.

Þá vil ég segja nokkur orð út af því, sem hæstv. viðskmrh. sagði, en það skal verða stutt, því, að það hefur verið komið inn á það í umr. um skattamálin. Hann heldur því fram, að með till. Alþfl. áður hafi ekki verið gengið lengra en að ná 25% af tekjum útgerðarfyrirtækja. Þetta er rétt, svo langt sem það nær. Þessar till. voru lagðar fram á árinu 1940, áður en vitað var, að stríðsgróði yrði, og þegar allir sjóðir útgerðarfyrirtækjanna voru tómir. En í grg. fyrir þessum sömu till. var þess getið, að sjálfsagt væri að setja ákveðið hámark, sem mest mætti leggja í sjóði. Einnig var lagt til, að fara mátti þá leið að láta skatta hækka, ef tillög í þessa sjóði næðu einhverri ákveðinni upphæð. En eftir áramótin, þegar lagðar voru fyrir þingið till. frá n. þeirri, sem fjallaði um þessi mál, þá voru engar slíkar till. bornar fram af Alþfl., vegna þess að sýnt var, að gróðinn varð miklu meiri en nokkurn gat órað fyrir.

Hæstv. ráðh. segir, að ákvæðið um, að ekki megi leggja útsvar á tekjur yfir 200 þús. kr., sé sett til þess að tryggja það, að stórgróðinn sé jafnt skattlagður hvar sem er á landinu. En hann veit það, hæstv. ráðh., að það eru ekki fyrirtæki, sem hafa tekjur yfir 200 þús. kr., nema á fáum stöðum á landinu. Og það er óeðlilegur krókur til þess að ná þessu marki, sem annars er eðlilegt að ýmsu leyti í sjálfu sér, að taka þetta til sveitarfélaganna gegnum skattálagningu. Í langflestum bæjarfélögum, þar sem um slíkan stórgróða er að ræða hjá einhverju fyrirtæki, er útsvarið á því meginhlutinn af tekjum þeirra bæjarfélaga.

Það er rétt, að við Alþfl.-menn fengum skattalagafrv. til umsagnar, og ég tók fram, að ég væri ekki því viðbúinn strax að taka ákvörðun um flutning á frv., af því að ég þyrfti að athuga, hvernig skattstiginn nýi kæmi til með að verka. Ég þurfti að gera samanburð á ákvæðum frv. í hví efni við gildandi skattstiga. Ég gerði svo þessa athugun, og sú athugun leiddi í ljós, að með því að fella niður frádráttinn á útsvörum og tekjum s.l. árs, eins og hér er lagt til í frv., þá eru a.m.k. í gróðaári, þegar stríðsgróðaskatturinn er verulegur, ríkissjóði og því opinbera tryggðar meiri tekjur heldur en eftir núgildandi fyrirkomulagi. Og það er ástæðan til þess, að ég er með breyt. á skattal. nú. Enda sagði ég það, þegar ég hafði athugað frv., að ég væri með frv.

Hæstv. ráðh. sagði, að kaupgjald væri aðalþátturinn í verðmynduninni. Engum hefur dottið í hug að neita því. Grunnkaupshækkanir geta orðið til þess að hækka verðlagið í landinu, og á venjulegum tímum gera þær það. En því meiri, sem gróðinn er yfirleitt í landinu, því minni áhrif hefur kaupgjaldið á verðlagið, vegna þess að þá er sá hluti af tekjunum, sem fer til þess að greiða kaup, svo lítill, miðað við það, sem safnast sem gróði, en því minni, sem gróðinn er, því meiri áhrif hefur kaupið á verðlagið. Og það hefur sýnt sig, það sem af er, að jafnvel veruleg kauphækkun hefur orðið tiltölulega mjög áhrifalítil um að orka á vísitöluna til hækkunar, vegna þess að önnur atriði, sem skapa verðlagið, eru svo miklu ráðandi þar um, eins og sést bezt á því, að verðlagsvísitalan hefur nú komizt upp í 83 stig, meðan grunnkaupshækkanir hafa svo sem engar orðið í landinu. því að sú kauphækkun viðkomandi landbúnaðinum, sem hæstv. ráðh. talaði um, varð ekki fyrr en á síðasta sumri. Árið 1940 varð grunnkaupshækkun svo að segja engin. Það var sumarið 1941 og sérstaklega nú í vetur, sem kauphækkun sú kemur til greina, sem fer verulega að orka á verðlag landbúnaðarafurða.

Þá sagði hæstv. viðskmrh., að ég hefði sagt, að hann væri að afla sér kjörfylgis með því að hækka verðlag á afurðum bænda. Það, sem ég sagði í þessu efni, var svar við því, sem hann hélt fram, að Alþfl., með því að vera á móti þessu gerðardómsfrv., væri að leita sér atkvæða. Hæstv. ráðh. gerir ráð fyrir, að kjósendahræðsla og kjósendadekur eigi sér stað innan flokkanna, nema hann lætur svo sem hans flokkur sé saklaus af þessu. Ég fullyrði nú ekki neitt um það, hvort hæstv. ráðh. miðar till. sínar við kjörfylgi, en nær er þó að gera ráð fyrir, að hann og flokkur hans hafi þá stefnu heldur en að ætla Alþfl. slíkt. Því að sýna má fram á það, að framsóknarmenn hafa haldið fram, að fyrir skörungsskap þeirra hafi verðið á þessum afurðum hækkað svo og svo mikið.

Ég hef aldrei talað um stríðsgróða bænda. Ég hef sagt, að það væri sjálfsagt, og þeirrar skoðunar er ég enn, að það ættu að liggja fyrir útreikningar hliðstæðir við útreikning verðlagsvísitölunnar um framleiðslukostnað bænda. Og ég álít, að hækkun á verði landbúnaðarafurða eigi að vera gerð í samræmi við þann útreikning. Hvort hækkun á verði mjólkur og mjólkurofurða er meiri en mundi verða eftir slíkum útreikningi, skal ég ekki fullyrða. En ég veit, að hækkun á kjötverði er meiri en sem nemur hækkuðum framleiðslukostnaði. En þetta er ekki höfuðágreiningsefnið viðkomandi verðlagi landbúnaðarafurðanna og ráðstöfunum þeim viðkomandi í sambandi við verðlagið, heldur það, hvort í staðinn fyrir að láta verðbólguna aukast vegna verðs á landbúnaðarafurðum eigi ekki heldur að taka stríðsgróðann til þess að halda verðinu á þeim niðri og greiða þar með uppbót á verðinu.

Um gróða K. E. A. hef ég engu við það að bæta, sem ég hef sagt áður. Það liggur fyrir skjalfest, að þrátt fyrir verðlagsákvæðin hafa þeir þar greitt 10% af ágóðaskyldum vörum til félagsmanna sinna sem ágóða. Og það er ekki til neins að bera á móti því, og ég veit, að jafnskýrum manni sem hæstv. viðskmrh. er það fullljóst, að það er ákaflega mikið aðstreymi fólks í verzlunarstéttina nú, sem einungis skapast af því, að þar er yfirleitt hægt að græða fé, nú sem stendur. En ég mun alls ekki halda fram, að gróðinn hefði ekki orðið enn þá meiri, ef “verðlagseftirlitið hefði ekki verið til. En það er líka mikill munur á því, hvort ekkert er haft áhrif á verðið og hinu, hvort það er gert svo röggsamlega, að það komi að verulegu liði.