19.05.1942
Neðri deild: 61. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 181 í C-deild Alþingistíðinda. (571)

115. mál, barnakennarar og laun þeirra

*Frsm. (Bjarni Bjarnason):

Það er nú ekki hægt að segja það, að málinu hafi verið flýtt svo mjög, frekar mætti segja, að á því hafi verið seinagangur, og ég vildi, að það hefði gengið greiðara en verið hefur.

Það kann að vera, að hægt sé að sýna fram á það, að hér sé verið með ólöglegt mál og það sé vafamál, hvort l. um gerðardóm heimili þetta. En ég hef tekið fram, að í minni gr. þessara l. Er gert ráð fyrir því, að breyt. til samræmis og lagfæringar, ef sérstaklega stendur á, geti komið til „reina. Enda vil ég segja, að þetta séu smámunir, sem hér er um að ræða, þó að því verði ekki neitað, að hér er um að ræða kjarabætur fyrir vissa menn.

Ég held, að hv. þm. V.-Sk. hafi ekki farið hér alveg með rétt mál. þegar hann hélt því fram. að engar stéttir hefðu nú á síðustu árum fengið kjarabætur. Ég held ég megi fullyrða, að héraðsdómarar hafi fengið kjarabætur á síðasta ári. og það allverulegar, og það ætti honum að vera kunnugt um sjálfum. Einnig má ég segja það, að héraðslæknar hafi fengið kjarabætur á þessu ári. Og ég fullyrði enn fremur, að prestar hafa einnig sótt mikið á í þessa sömu átt, eins og eðlilegt er. Ég vil einnig geta þess, að á s.l. ári fengu farkennarar nokkrar kjarabætur, líka án þess að fara með það inn í þingið. En þessum atriðum mun ekki hafa verið auðvelt að koma í framkvæmd án þess að breyta þeim lögum, sem frv. getur um. Þetta eru atriði, sem koma í bága við það sjónannið, að ekki hafi verið bætt kjör manna um langt skeið og það sé lagaleg og siðferðileg skylda að halda við það, sem ákveðið hefur verið með launl., þá stenzt það ekki heldur frá almennu sjónarmiði. því að það hefur orðið gerbreyt. á kjörum manna í öllum stéttum þjóðfélagsins á margvíslegan hátt fram yfir það, sem verðlagsuppbætur eru. Og án þess ég nefni hér fleiri dæmi, þá mun hver einasti þm. geta sannfærzt um þetta, ef hann liti í kringum sig og kynnti sér, hvernig kjör manna breyttust á s.l. ári. Hitt er annað mál, að ég get trúað, að einstakar stéttir búi við fast ákveðin lagaákvæði. þannig að kjör þeirra breytist ekki umfram það, sem verðlagsuppbótin gerir. og sumir telja, að kjör þeirra séu verri nú en fyrir stríð.

Hv. þm. hélt því fram, að barnakennarar væru áleitnastir allra manna að bæta kjör sin. Ég vil því segja það, að þó að svo væri, sem ég tel rangt hjá hv. þm., þá væri það ekki óeðlilegt. Það er ekki langt síðan þessi stétt var í mjög mikilli niðurlægingu í þessu þjóðfélagi, og það var tæplega til svo lélegur þegn, að hann þætti ekki nógu góður til að kenna börnum. En íslenzka barnakennarastéttin hefur hrundið þessu sjónarmiði af höndum sér. Með auknum. kröfum um menntun stéttarinnar og bættum kjörum hennar hefur mikið áunnizt síðustu árin, og sú stétt, sem reynt befur að ryðja sér braut úr vesaldómi í að fá álit og inna af hendi góða vinnu, kemur ekki öllum hagsmunamálum sínum í framkvæmd á 20 árum. Og hv. þm. geta verið vissir um, að það verður oftar en á þessu þingi, sem minnzt verður þessa stétt. ef þar verða nokkrir menn, sem hafa til að bera framsýni í uppeldis- og kennslumálum þjóðarinnar.

Það er óþarfi að vera að gera lítið úr því, að ekki sé til húsnæði fyrir kennara og skólastjórs. Annars vegar er skólanefndum gert að skyldu að sjá um, að kennari sé á hverjum stað, og hins vegar er hreppsnefndum eða bæjarfélögum skylt að hjálpa til að greiða fyrir útvegun húsnæðis.

Ef ekki rætist úr um húsnæðisskort, getur það vel endað með því, að ekki verði hægt að inna af hendi lögboðna fræðsluskyldu. Og hvað sem gert verður við þetta mál nú, þá mun það sýna sig, að þetta er rétt stefna, sem hér er tekin upp. Það er markmiðið, sem keppt verður að og næst fyrr eða síðar.

Ég býst ekki við. að ég taki aftur til máls. Ég hygg, að ég hafi gert nægilega grein fyrir afstöðu minni, og sé ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð. Ég skal þó að lokum geta þess. að það má vitanlega hugsa sér, að því verði haldið fram, að þetta sé ólöglegt og óþarft, og út frá því sjónarmiði eyða málinu. en ég vil þá vænta þess, að hv. d. verði ekki á þeirri skoðun hv. þm. V.- Sk., heldur samþ. hún till. meiri hl. menntmn. og láti málið ganga áfram.