19.05.1942
Neðri deild: 61. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 183 í C-deild Alþingistíðinda. (573)

115. mál, barnakennarar og laun þeirra

*Gísli Sveinsson:

Herra forseti! Það kann vel að vera, að ekki tjói að tala mikið um þetta mál hér, því að það er eins og komið sé við einhver kaun, ef talað er um jöfnuð milli stétta, því að sumir hv. þm. telja, að ein stétt sé réttmeiri m aðrar, þess vegna skuli uppfylla hennar óskir. en láta aðrar liggja í láginni. En þó að ég, eins og ég sagði í fyrri ræðu minni, játi, að barnakennarar séu alls góðs maklegir undir eðlilegum kringumstæðum, og sjálfsagt sé að taka fullt tillit til þeirra óska og krafna, sem fram koma, eins og annarra stétta, bjóst ég við, að hv. frsm. mundi láta sér það nægja, eins og hann hagaði orðum sínum í fyrri ræðu sinni. En það virðist hafa komið fram, að honum sé þetta meira keppikefli fyrir stéttina en ætla mætti af orðum hans, að aðrar stéttir gætu komizt til jafns við í huga hans. Og ég vil endurtaka það, sem ég sagði áðan, að aðrar stéttir hafa ekki komizt inn í löggjöf áður undir þessum kringumstæðum. Það hefur ekki tekizt að fá endurskoðun á launalöggjöfinni, og það veit hv. frsm., 2. þm. Árn., eins vel og ég, að það hefur mæti, ef ekki opinberri, þá leynilegri og gagngerðri andstöðu hjá öllum flokkum að taka þetta mál upp á almennum grundvelli, sem ég hef verið mjög fýsandi.

Hv. þm. talaði um. að það væri ekki neitt einstakt að fara að setja lög um kjarabætur, það vari jafnvel eðlilegt og að sumu leyti sjálfsagt, ef um fullt frelsi væri að ræða í þeim efnum og allar stéttir yrðu fyrir slíku. En það er ekki rétt, sem hann sagði, að aðrir hefðu orðið þess aðnjótandi á sama hátt. Hann talaði í fyrsta lagi um héraðsdómara, sýslumenn og lögreglustjóra, að þeir hefðu á s.l. ári fengið kjarabætur. Um þetta gegnir sama máli og það, sem alþ. og fjvn. hafa fallizt á viðvíkjandi ýmsum starfsgreinum, að það er gert að launalögum óbreyttum. Þetta var líka áður en l. um gerðardóm voru sett, svo að þetta var vel gerlegt. En sú uppbót, sem þeir fengu, var svo lítilfjörleg í sjálfu sér. að ef sett hefðu verið l. um það, þá kom það ekki til nokkurra mála að hlíta við það. Í þessu hefur því ekki annað verið gert en það, sem gert hefur verið á Alþ. að undanförnu, að stílað hefur verið til ríkisstj. að reyna að bæta kjör þessarar stéttar á einn eða annan hátt. Það sama hefur verið gert við barnakennara á ýmsa lund, og ég hef stutt það, eins og hv. þm. veit, og í menntmn. hefur verið samkomulag um það að stíla til stj. umleitanir um slíkt.

Hv. þm. talaði um, að læknar og prestar fái uppbætur, en það mun ekki vera rétt. Það hafa legið fyrir frá þessum stéttum árkoranir og óskir til ríkisstj. um kjarabætur, en því hefur ekki verið sinnt. Nú hefur þetta að vísu legið fyrir fjvn., og getur verið, að hún stigi skref, sem hún teldi leyfilegt að gera í þessu og ekki kæmi í bága við hina nýju löggjöf. En hér er, eins og ég sagði áðan, allt öðru máli að gegna, og með þessu hefur hv. menntmn. mælt áður, og þess vegna er það í fullu samræmi við það, sem gert hefur verið, að þessu máli verði vísað til hæstv. ríkisstj. til slíkrar meðferðar.

Ekki er svo að skilja, að ég sé á móti því, að brtt verði kjör barnakennara, en ég tel, að þau eigi ekki að setja slík l. um þá stétt út af fyrir sig, frekar en aðrar stéttir, sem starfa hjá hinu opinbera. Ég tel því, að það þurfi ekki mikið að kveða á um það, að hér sé verið með andróður gegn kjarabótum til handa kennarastéttinni, og ég held, að slík ummæli hljóti að hafa verið óviljandi mismæli hjá hv. frsm. En eins og ég hef jafnan tekið fram, þá ann ég barnakennurunum alls góðs og tel, að þeir eigi að fá kjör sín bætt, en að það eigi að fara eftir líkum reglum og hjá öðrum stéttum þjóðfélagsins.