10.03.1942
Efri deild: 13. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 37 í B-deild Alþingistíðinda. (71)

3. mál, útsvör

Páll Zóphóníasson:

Ég tel þörf á að endurskoða útsvarslöggjöfina í heild sérstaklega í þeim tilgangi, að henni verið breytt þannig, að niðurjöfnunarn. gefist ekki kostur á að starfa hver með sínum hætti, eins og nú er, heldur fái ramma til að starfa eftir og starfa innan.

Um þessa till. er það að segja, að ég held, að hún sé á misskilningi reist. Mér skildist á 11. flm., að hann teldi, að Siglufjörður hefði misst miklar tekjur vegna þess, að útsvarsálagning er oft lægri í heimilissveit manna en á Siglufirði, þar sem þeir reka atvinnu. En í 12. gr. útsvarsl. frá 1936 eru ákvæði, sem fyrirbyggja þetta. Sá hluti útsvars, sem fellur í hlut atvinnusveitar, er hækkaður upp í það, sem hann hefði orðið þar á lagður. Ef t.d. er lagt 3000 kr. útsvar á mann í heimilissveit og atvinnusveit á að fá 1/3, og útsvarsskali þar sé helmingi hærri en í heimilissveitinni, þá hækkar hluti atvinnusveitar í 2000 og heildarútsvarið í 4000. Atvinnusveit fær því ætíð sinn hluta réttan, miðað við útsvarsstiga hennar. En þegar Siglufjarðarbær kvartar um að missa af útsvörum manna, sem heima eiga annars staðar, en reka þar atvinnu, þá kemur það af tvennu. Annars vegar af því, að bærinn vanrækir að fara eftir 11. gr. útsvarsl. og tilkynna viðkomandi sveitar- og bæjarstjórn, á hverja þeir telja sig eiga kröfur, og hins vegar af því, að þeir krefjast ekki skiptingar, heldur berja höfðinu við steininn og leggja útsvör á menn, sem þeir hafa ekki rétt til að leggja á.

Þá eru líka til þar, eins og hér í Reykjavík, menn, sem telja sig eiga heimili annars staðar, en eiga raunverulega heima á Siglufirði. Á slíka menn ber að leggja á Siglufirði, og þar ber þeim að greiða útsvar, og eru þegar komnir margir dómar, er sýna, að það er hægt.

Annars hygg ég, að Siglufjarðarbær hafi í aðalatriðum vanrækt að krefjast skiptingar á útsvörum. Ísafjörður og Reykjavík hafa verið þar bezt á verði og flestar kröfur komið frá þeim um skiptingu á útsvörum til ríkisskattanefndar.