23.03.1942
Efri deild: 21. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 340 í B-deild Alþingistíðinda. (727)

47. mál, stýrimannaskólinn í Reykjavík

*Frsm. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Herra forseti! Meiri hl. sjútvn. flytur þetta frv. samkv. beiðni atvmrh. Efni frv. er hér nokkurn veginn skýrt markað í grg. þess. Það felur í sér aðallega þrjár breyt. frá gildandi l. Það er skotið hér inn ýmsum námsgreinum, sem reynslan hefur sýnt, að kenna þarf í skólanum, en eru ekki ákvæði um það í núgildandi l. Önnur breyt. er í því fólgin að draga nokkuð úr tungumálanámi í skólanum. Það er gert ráð fyrir því í núgildandi l. skólans, að þrjú útlend tungumál skuli vera kennd sem skyldunámsgreinar. En reynslan hefur sýnt, að það sé fullmikið á farmenn lagt með því á þeim tíma, sem þeir hafa til náms í skólanum, og á þess vegna að draga úr þessu námi. Þriðja breyt., sem frv. felur í sér, er að fjölga föstum kennurum við skólann. Nú eru 2 fastir kennarar við skólann, og hefur svo verið frá fyrstu tíð. En annar kennarinn er aldraður maður, og má búast við, að hann verði innan skamms að láta af störfum. Og nú er verið að undirbúa mann, sem gæti tekið við skólastjórastöðunni. Þessi maður er erlendis að undirbúa sig. Hins vegar er gert ráð fyrir, að hann komi strax að skólanum með þetta fyrir augum, svo að í því efni, að hann komi að skólanum, er engin breyt. frá því, sem verið hefur. Frá fyrstu tíð hafa verið kennarar við skólann, en þriðji kennarinn hefur verið stundakennari. Nú eru í skólanum 70 –80 nemendur, og það sýnir sig, að það er of lítið að hafa 2 kennara í siglingafræði við skólann.

Sjútvn. ætlar að gera brtt. við frv. við 2. umr., ekki efnisbreyt., heldur um að orða frv. nokkuð á annan veg, og er n. sammála um þær brtt.