11.08.1942
Efri deild: 4. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 54 í B-deild Alþingistíðinda. (100)

7. mál, dómnefnd í verðlagsmálum

Haraldur Guðmundsson:

Hv. þm. Barð. beindi þeirri fyrirspurn til mín, hvort ég mundi fallast á, að húsaleigul. yrðu afnumin. Án þess að blanda því í þessar umr. nú, get ég svarað fyrir mitt leyti, að ég tel ekki ástandið þannig nú, að slíkt sé gerlegt. Rökræður vildi ég geyma að taka upp, þangað til rætt er um annað mál, til að tefja ekki tímann.

Eitt atriði í ræðu hæstv. viðskmrh. verð ég að leiðrétta. Hann sagði á seinasta fundi, að það hefði verið sameiginleg stefna Alþfl. og Sjálfstfl. á haustþinginu, ég ætla 1941, að afstýra hækkun á grunnkaupi eftir framsóknarleiðinni. Þetta er alveg rangt hjá ráðh. Alþýðuflokkurinn hefur aldrei ætlað sér og enn síður bundizt samtökum við annan flokk að afstýra hækkun á kaupi. Á þingi flokksins 1940 var einmitt yfirlýsing samþ. um þetta efni á þá leið, að með tilliti til aukinna tekna þjóðarinnar í heild væri ekki næg vísitöluhækkun, heldur þyrfti grunnkaupshækkun að koma til. Hitt er annað mál, að þegar umr. fóru fram í þinginu, var það yfirlýst af ráðh. Alþfl., að félögin væru bundin með samningum allt fram á haustið 1942, ætla ég. Af þeirri ástæðu var ekki búizt við kröfum frá þeim um hækkun á kaupi, þ. e. a. s., ef efndir yrðu á þeim loforðum, sem þáverandi stj. gaf um að halda vísitölunni óbreyttri eins og hún var í október þá um haustið, því að það var sá grundvöllur, sem þessi mál voru rædd á.

Enda þótt hv. þm. Str. sé ekki viðstaddur, get ég ekki leitt hjá mér að mótmæla því, að núverandi ástand, sem hann málaði með dökkum litum, sé ávöxturinn af núverandi fjármálakerfi, sem núverandi stuðningsflokkar stj. hafi skapað. Allir hljóta að sjá og viðurkenna, að þær reglur í fjármálum og vinnumálum, sem við búum við, eru einmitt þær reglur og stefna, sem upp var tekin, þegar þjóðstj. rofnaði í janúarmánuði s. l., þegar brbl. um gerðardóm voru sett og þeir samningar, sem í sambandi við það voru gerðir um rýmkun umráða yfir stríðsgróða. Þetta var stefnan, sem upp var tekin, þegar samvinnan um þjóðstj. rofnaði, og eftir sat hv. þm. Str. sem forsrh. ásamt tveimur ráðh. úr Sjálfstfl. Og það er ávöxturinn af þessari stefnu og fjármálakerfi, sem hv. þm. Str. átti mestan þátt í að skapa, sem nú er að koma í ljós, en engan veginn árangurinn af starfi núverandi ríkisstj. Því að eins og réttilega var tekið fram, þegar gerðardómsl. voru samin á þingi, var það sýnt, að þau l. voru markleysa ein. Það má kannske segja, að það beri vott um góða greind hjá hv. þm. Str., að hann taldi hyggilegra að taka ekki þátt í ríkisstj. lengur, eftir að hann sá, hvert stefndi með það „fjármálakerfi“, sem hann átti drýgstan þátt í að skapa.

Annað atriði í ræðu hv. þm. vil ég aðeins drepa á til þess að festa í minni hv. dm. Hv. þm. Str. sagði, að eitt aðalráðið til að komast úr núverandi öngþveiti væri að ná samningum milli verkamanna og bænda um ákveðið hlutfall milli verðlags og kaupgjalds. Ég verða að segja, að ég harma það, að þessi hv. þm. skyldi ekki koma fyrr auga á þessi í mínum augum augljósu sannindi. Ég er hv. þm. að miklu leyti sammála um, að þetta sé rétt. En þessi hv. þm. hefur ætlað sér með lagaboði án nokkurs samráðs við verkalýðssamtökin að binda kaupgjald þannig að banna allar hækkanir. Það er gleðilegt, að nú talar hann um að ná samkomulagi milli þeirra aðila, sem mest eiga undir, um eitthvert hlutfall milli afurðaverðs og kaupgjalds. Ég minnist þess, að árið 1939 var gerður um þetta fastur samningur og lögbundinn, nefnilega í gengisl., að þær breyt., sem yrðu á kaupgjaldi verkamanna samkv. vísitöluútreikningi, skyldu einnig ná til útsöluverðs á landbúnaðarafurðum. Ég vil ekki fullyrða, að þetta hlutfall þá hafi verið rétt. En ég fullyrði, að hugsunin að baki þessa ákvæðis var eðlileg og rétt. Og hvatamaður þess og sá, sem mestu réð um, að þetta var fellt burt, var hv. þm. Str. Og þótt segja mætti margt fleira um þetta, læt ég þessar aths. nægja, með því líka, að hv. þm. er ekki mættur á fundinum.