04.09.1942
Neðri deild: 21. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 90 í D-deild Alþingistíðinda. (1036)

77. mál, húsnæðismál í kauptúnum

Flm. (Gunnar Thoroddsen) :

Herra forseti. Það eru tvenn l., sem miða að því að stuðla að byggingum og aðstoða verkamenn og aðra efnaminni borgara til þess að koma sér upp húsum, l. um verkamannabústaði nr. 3 frá 1935 og l. um byggingarsamvinnufélög nr. 71 frá 1938. Hin síðar töldu voru fyrst sett 1932 og síðan endurskoðuð 6 árum síðar. Þau l. veita viss hlunnindi byggingarsamvinnufélögum, sem stofnuð eru, og eru aðalhlunnindin þau, að ríkisstjórninni er heimilt að ábyrgjast lán, sem þessi félög taka til húsbygginga. Þessi l. hafa komið að töluverðu gagni. Hér í Reykjavík hafa verið stofnuð samkvæmt þeim tvö byggingarsamvinnufélög, sem hafa reist allmörg hús, og á Akureyri hefur verið stofnað eitt slíkt félag, en mér vitanlega hafa þau ekki verið stofnuð víðar á landinu. Þessi l. ná bæði til kaupstaða og kauptúna, en sú hefur orðið raunin á, að ekkert kauptún landsins hefur notað sér þessi l.

Hin l., um verkamannabústaði, voru sett 1931, en voru síðan endurskoðuð og þeim breytt 1935, og þau enn í gildi. Þessi l. veita meiri hlunnindi heldur en l. um byggingarsamvinnufélög. Þau hlunnindi eru fyrst og fremst fólgin í því, að ríkissjóði er skylt að ábyrgjast lán, sem byggingarsjóður verkamanna tekur til slíkra bygginga. Í öðru lagi leggja ríkissjóður og bæjarsjóðir vissar fjárhæðir í þessa sjóði, ríkissjóður á að leggja fram 2 kr. á hvern íbúa og bæjarsjóður sömu upphæð. Í þriðja lagi var svo ákveðið, að tekjur tóbakseinkasölunnar skyldu renna til þessara sjóða. Þessi löggjöf hefur komið að miklu gagni. Þeir kaupstaðir, sem hagnýtt hafa sér þessa löggjöf, eru fyrst og fremst Rvík, Þar sem reist hafa verið allmörg hús samkv. þessum l. Og enn fremur mun það vera á Akureyri, Ísafirði, Siglufirði og í Hafnarfirði, sem slík byggingarfélög verkamanna hafa verið stofnuð og hús byggð á þessum stoðum með styrk af þessum l. Ég ætla enn fremur, að slík félög séu í uppsiglingu á tveimur stöðum, í Vestmannaeyjum og á Akranesi. En ekkert kauptún hefur enn hagnýtt sér þessi l. frekar en l. um byggingarsamvinnufélög. Mér er sagt, að félög séu stofnuð í a. m. k. tveimur stærstu kauptúnum landsins, en byggingar hjá þeim eftir þessum l. hafa ekki komið til framkvæmda.

Það er mörgum hv. þdm. kunnugt, að í mörgum kauptímum eru mestu vandræði með húsnæði, þar eru húsakynni léleg og auk þess skortur á húsnæði. Fólk neyðist þar til að búa í lélegum húsakynnum, og það er einnig hindrað í að stofna heimili vegna húsnæðisleysis. Ástæðurnar til þessa eru margar, sums staðar lélegur efnahagur. En ein ástæðan, sem til þessa liggur og okkur flm. er kunn, er það, að hreppsnefndir og íbúar almennt álíta, að þessi l. nái eingöngu til kaupstaðanna. Og það eru enn fleiri ástæður, og þá fyrst og fremst, að ég hygg, sú, að þessi löggjöf er fyrst og fremst miðuð við stærri kaupstaði, en getur ekki að öllu leyti átt við um fámenn kauptún. Það verður augljóst, að þar sem Rvík., miðað við 10 þús. íbúa, fær 80 þús. kr. á ári í þessu skyni frá ríkissjóði og aðrar 80 þús. kr. frá bæjarsjóði eða 160 þús. kr. samtals, þá fá kauptún með 200 íbúum aðeins 100 kr. á ári í þennan sjóð frá ríkissjóði og 400 kr. á móti úr sveitarsjóði. Og þá sjá allir, hvað það hrekkur skammt til stuðnings framkvæmda á nýbyggingum. Af þessum ástæðum höfum við flm. þáltill., hv. þm. N.-Ísf. (SB) og ég, séð ástæðu til þess að bera þetta mál fram hér í hv. Nd. og farið fram á, að hv. þd. samþ. að fela ríkisstj. að láta fara fram undirbúning í þessu efni, sem við hugsum okkur framkvæmdan með það fyrir augum, að ríkisstj. geti komið að niðurstöðu um það, hverjar breyt. séu nauðsynlegar á þessari löggjöf til þess, að kauptúnin og ekki sízt fámennari kauptúnin, geti hagnýtt sér þessa löggjöf. Þessari rannsókn mætti vitaskuld haga á þann hátt, að ríkisstj. leitaði álits og umsagnar hjá hreppsnefndum kauptúna og öðrum, sem um þessi húsnæðismál fjalla, og vitanlega í samráði við stjórnir byggingarfélaga verkamanna.

Ég vænti þess, að hv. þdm. greiði þessari þáltill. atkv. og ríkisstj. athugi þetta mál hið fyrsta, þannig að einhver frekari grundvöllur lægi fyrir athöfnum Alþ. í þessum málum hið allra fyrsta heldur en er á þessu þingi.