02.09.1942
Sameinað þing: 12. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 146 í D-deild Alþingistíðinda. (1189)

18. mál, undanþága frá greiðslu á benzínskatti

Flm. (Eiríkur Einarsson) :

Varðandi ummæli hv. 1. þm. N.-M. um, að ekki sé stafur í till., sem sýni, um hvað mikla fjárhæð sé að ræða, og því sé glæfralegt að láta hana ganga áfram, vil ég segja það, að hér er ekki um að ræða milljónir, enda alls ekki um að ræða aukin fjárframlög, eins og t. d. fjárframlög vegna erfiðra samgangna, heldur er verið að létta af álögum, sem voru á lagðar, þegar illa gekk um tekjuöflun. Þetta er allt annars eðlis en t. d. styrkur til bátaferða eða því um líkt, sem ég er alls ekki að telja eftir, því að hér er um að ræða gamlar álögur, sem nú mætti létta af. Margar brtt. liggja fyrir, og ég leiði minn hest hjá því, en tek það fram, að það er ólíku saman að jafna, hvað snertir næsta dagskrármálið. Það er um það að ákveða, að mig minnir 200 þús. kr. gjald úr ríkissjóði handa þeim, sem eiga lengri leið en 80 km til hafnar. Sú till. er hálfgert handahófsverk, þar sem þeir eiga að njóta styrks, sem eru 80 km í burtu, en hinir ekki, sem eru 79 km í burtu. Hins vegar getur verið um langar og erfiðar vegalengdir að ræða, þó að þær séu innan við þessa 80 km vegalengd. Það er mikil sanngirni, sem liggur í því að létta af þessum skatti, og má í því sambandi minnast á samgöngur á sjó, sem eru styrktar af ríkissjóði. Ég verð að segja það, að eftir þeirri höfuðstefnu, sem farið hefur verið eftir um það að hjálpa mönnum til þess að ná sem jafnastri aðstöðu um aðdrætti og annað slíkt, þá segir sig sjálft, að það er ekki sanngjarnt, að þeir, sem eiga við mikla örðugleika að etja við aðdrætti, borgi þennan skatt til jafns við hina, sem eiga þar um miklu betri aðstöðu.

Ég vona, að hv. þm. sjái, hvað hér er um mikið sanngirnismál að ræða.