27.08.1942
Efri deild: 16. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 194 í B-deild Alþingistíðinda. (299)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Jónas Jónsson:

Við framsóknarmenn höfum lítið rætt um þetta mál í hv. d. hér á Alþ. Það mundi þó þykja nokkuð óviðkunnanlegt, að við létum það fara út úr d. án þess að ræða það áður lítils háttar og benda á atriði í forsögu þess, er mun að nokkru leyti skýra það, hvað hér er að gerast og hvað mun á eftir koma.

Fyrst vil ég þá bregða ljósi yfir það, hversu einkennilegt þetta mál er. Hæstv. fjmrh. hefur sagt um frv. þetta, eftir því, sem mér er hermt, að það sé stílað gegn Framsfl. og honum til eyðileggingar og að það væri ekki mikið, þó að það þyrfti jafnvel þrennar kosningar til þess að geta hnekkt valdi flokksins, og hann rökstuddi það með því að staðhæfa, að Framsfl. væri versti flokkurinn í landinu, er starfað hefði síðan á Sturlungaöld. — Nú ætla ég ekki að fara út í það, er á þeirri öld gerðist, þó að benda mætti á ljósa punkta frá þeim tíma, og í þessum samanburði hæstv. fjmrh. er vafasamt, að hann skilji það rétt í andlegu lífi þjóðarinnar á Sturlungaöld, er hann ætlar að svívirða Framsfl. með, því að þá hefur frægð Íslands komizt hæst á andlegum sviðum. Þessi orð um Framsfl. eru þó töluð af greindum og reyndum manni, svo að það væri ástæða til að halda, að þau væru í alvöru töluð. En það, sem eiginlega felst í játningu hæstv. fjmrh., að breyta stjskr. til þess að ná sér niðri á einstökum flokki, er alveg eins dæmi, og því hygg ég réttara, að þessi orð hæstv. fjmrh. hafi verið sögð í bræði og að hann hafi lítt gert sér grein fyrir, hvað hann var í raun og veru að segja.

Í stuttu máli: Þar, sem fólk er pólitískt þroskað, er stjskr. gerð af mikilli vandvirkni og framsýni og unnið að henni í mörg ár, til þess að hún verði sem bezt úr garði gerð, og þess þá framar öllu gætt, að ekki sé níðzt á neinum flokki manna í landinu. En svo er nú þessum málum komið hjá okkur, að það er í annað skiptið, sem verið er að höggva í sama knérunn hjá okkur og verið að draga stjskr. landsins niður í forina.

Ég álít, um leið og þessi stjskrbreyt. er samþykkt, að rétt sé, að hv. þm. geri sér ljóst, hvaða afbrot hér er verið að fremja í dag.

Það var á þingi 1931, sem Héðinn Valdimarsson byrjaði þann ófrið og feiknstafi, er hæstv. fjmrh., Jakob Möller, hefur haldið áfram með sínu ógætilega orðbragði. Héðinn Valdimarsson vildi ekki kjósa n., er stjskr. breytti, heldur vildi hann bandalag í leyni um það atriðið. Hann vildi með leynisamningi við Sjálfstfl. svíkjast að þjóðinni. Og Alþfl. og Sjálfstfl. gerðu þennan leynisamning með sér, og í því efni var sökin algerlega á herðum Alþfl. Hann rauf stjórnarsamvinnuna á sviksamlegan og ódrengilegan hátt með því að lokka Sjálfstfl. í von um hag. Tryggvi Þórhallsson rauf þá þingið, eins og kunnugt er, sem kom öllum mjög á óvart, en enginn efast nú lengur um, að það hafi verið gert á löglegan hátt. Þó gerðu sjálfstæðismenn þá svo mikinn aðsúg að honum og voru með svo mikil skrílslæti fyrir framan hús hans og hræddu konu hans og börn, að vart höfðu aðrar eins æsingar átt sér stað í bænum. En það verður að segja, að Alþfl. sýndi þroska, á meðan á þessu stóð. En skrílslætin voru svo mikil í kringum Tryggva Þórhallsson, að hann lét lífið skömmu síðar. En þrátt fyrir þessar bardagaaðferðir, sem hinir höfðu, sigraði hann samt, þó að djarft væri teflt. En niðurstaðan var sú eftir nokkur átök, að partur úr Framsfl. sveik undir forustu Ásgeirs Ásgeirssonar. En kosningar sýndu, að þjóðin misvirti tiltektir Héðins Valdimarssonar og skrílsvikuna í Reykjavík. (Forseti: Finnst ekki hv. þm. vera komið nóg af skrílstali í þessari hv. d.?) Ef forseti hefði verið sjálfur í Rvík þá dagana, er þetta stóð yfir, og séð lætin með sínum eigin augum, hefði honum ekki fundizt ég segja of mikið um þau. Þeir borgarar í landinu, er ráðsettir voru og þroskaðir, litu á þetta sem skammarlegt tiltæki. Kosningar voru því Sjálfstfl. og Alþfl. til niðurlægingar, en þeim vildi það til happs, að einn maður, Ásgeir Ásgeirsson, trúði á málstað óvinanna, og hann safnaði valdagjörnum „spekúlöntum“ úr Framsfl. yfir til hinna. Þessi maður varð árið eftir forsrh. með tilstyrk þess flokks, er ráðizt hafði í kjördæmamálið. — Það er bezt að segja það eins og það er, að frá komu uppbótarþm. var brotinn sá skjólveggur, er skapaði traust í ísl. stjórnmálum, þegar sambandið milli þm. og kjósenda breyttist og kjósendur vissu ekki, hvaða þm. þeir höfðu. Það var Jón Jónsson í Stóradal, er þá kúgaði Sjálfstfl. til þess að gera það, er hann vissi, að var rangt, að láta Sjálfstfl. leika þann loddaraleik að koma inn uppbótarþm., en þá var það, sem Jón Þorláksson neitaði að hafa á hendi forustuna, og hann sagði það hér í hv. d., að hann vildi ekki þingsvik. Ástæðan hjá Jóni Jónssyni í Stóradal var sú, að hann var í félagi við sundurlausan sprengiflokk og heimtaði, að hann gæti fengið 4–5 þm. Framkoma þessara manna var aum, er þannig léku sér með stjskr. landsins, og þeir fengu sinn dóm, sem hv. þm. Seyðf. mun einnig dæmast fyrir, þó að hann fari nú út. Hann Jón Jónsson í Stóradal uppskar enga frægð af þessu, og Þórarinn á Hjaltabakka komst heldur aldrei á þing eftir þetta, sem var honum miklu nýtari maður.

Þannig lauk þá þessari fyrstu viðureign, sem varð til þess að skapa þá lausung og þann glundroða, er nú stendur yfir í stjórnmálum okkar. Þessi breyt. á kosningal. þá átti að vera til þess að gera Framsfl. dauðan og ómerkan flokk, en í kosningunum 1934 kom hann með mjög álitlegan þingflokk, og menn, er höfðu yfirgefið hann í skyndi, féllu allir saman, einn slapp þó inn, en féll nokkru síðar. Þannig var dómur þjóðarinnar.

En út af þessu eina orði hæstv. núv. fjmrh. um, að það væri nauðsynlegt að eyðileggja Framsfl., þá er bezt að segja það eins og það er, að það voru svipaðar fyrirbænir og þegar hin stjskr. var samþ. Þetta varð þó honum ekki til eyðileggingar, heldur myndaði hann eftir allt saman stj. árið 1934, sem stóð óbreytt að mönnum frá honum í 8 ár, og hefur aldrei í þingsögu Íslands staðið eins lengi nokkur stj. eins og þessi, sem reis af þeim rústum, sem átti að leggja Framsfl. í. Ég býst við, að á þessum augnablikum hafi þessir tveir flokkar vonazt eftir, að Framsfl. mundi ganga verr áfram, en þegar kom að kosningunum 1937, hélt flokkurinn enn þá áfram að vaxa, en Alþfl. fór stórar hrakfarir, Og sá maður, sem stóð að þessu glapræði, leynisamningunum 1931, fékk það áfall, að hann beið þess aldrei bætur, er nú farinn út úr þinginu, þrátt fyrir það, að hann hefur í raun og veru mjög góða hæfileika til slíkra starfa og góða menntun og dugnað, en yfirsást, því að það er ekki hægt fyrir neinn að leika sér með stjórnarlög landsins. Það er eins og því fylgi einhver réttlát hefnd, ef á að fara með stjórnarlög landsins eins og einhvern ómerkilegan hlut, sem þurfi ekki að sýna neina umhyggju. Alþfl. fékk árið 1937 ráðningu fyrir gamlar og nýjar syndir, og síðan hefur hann stöðugt verið að trosna. Ég býst við, að það sé rétt, sem einn utanþingsmaður þessa flokks sagði við mig eftir bæjarstjórnarkosningarnar í vetur: „Ég skil vel, að þið framsóknarmenn hafið aldrei verið með Ásgeiri Ásgeirssyni í ykkar flokki, því að ef við losum flokkinn ekki við hann, drepur hann flokkinn.“ — Mér þótti það þá ekki líklegt, en mér datt þá ekki í hug, að nokkrum dögum síðar mundi þessi maður, sem með þessum hætti eitt sinn vann það fyrir augnabliksvöld að gangast fyrir að skaðskemma stjórnarskrá okkar, stíga nýtt óheillaspor, gerast forustumaður þess að skapa allan þennan glundroða, ekki sýnu betri en þann fyrri.

Ég kem þá að stjórnarskránni, sem þessir 3 flokkar standa að. Hún er eðlilegt áframhald af fyrri aðförum hv. þm. V.-Ísf. í þessu efni. Það er bezt að segja það eins og það er, að þeir bjuggu þessa stjórnarskrá til svo vitlausa, að þeir töldu óhugsandi, að Sjálfstfl. mundi ganga að henni. Þeir treystu ranglega á dómgreind hæstv. atvmrh. og flokks hans, bjuggust við, að flokkurinn mundi ekki gleypa við þessu. Þeir ætluðu að leika leikinn þannig að koma með stjórnarskrá, sem væri þannig úr garði gerð, að Sjálfstfl. gæti ekki tekið við henni, en hefði nokkra skömm af að vera á móti henni. Jafnframt stóð Alþfl. í ströngu við kommúnista og vildi vinna þeim sem mest tjón, en það hefur orðið þannig, að eini flokkurinn, sem sýnist hafa gagn af þessu brölti, eru kommúnistar, en hinir meiri og minni skaða, sérstaklega þó Alþfl. En það er ekki svo sérlega hættulegt, þó að einn eða tveir flokkar hafi skaða af að gera rangt, — það má segja, að það sé aðeins réttlátt. En það sorglega er það að þessar aðfarir allar eru þjóðinni til bölvunar. Sjálfstfl. var búinn að taka upp ásamt Framsfl. baráttu gegn dýrtíðinni. Hann hafði orðið fyrir allmikilli gagnrýni, en það var óhugsandi annað um svo stóran flokk en að hann mundi halda þeirri baráttu til streitu, fyrst hann hafði hafið hana. En hitt var auðvitað óhugsandi, að halda henni til streitu með því að hefja á þessu stigi þann ófrið við Framsfl., sem hæstv. fjmrh. hefur lýst í sinni áður umtöluðu ræðu. Ég ætta ekki að fara nema stuttlega út í, hvernig útreikningur Alþfl. bilaði, því að Alþfl. ætlaði upphaflega aðeins að geta ráðizt á Sjálfstfl. í kosningunum fyrir að hafa ekki viljað ganga að þeirri stjórnarskrá, sem hann bar fram og ætlaðist ekki til, að næði fram að ganga, og svo að rjúfa þá samvinnu, sem hafin hafði verið milli Sjálfstfl. og Framsfl. um þau stóru mál, en höfðu svo sjálfir aðeins skaða og niðurlægingu af. En ég vil taka það fram um Sjálfstfl., af því að hann hefur oft verið dæmdur hart, stundum ranglega, að ástæðan til þess, að hann gekk inn í þetta, þó að margir þar hlytu að sjá, að okkar fjármálalíf hlyti þar með að hrynja sundur, var sú, að þessi flokkur hefur eins og konservatívir flokkar þann óvana að eiga ekki sjálfur blöð sín. Sjálfstfl á ekki Vísi og Morgunblaðið, og um þetta leyti urðu eigendaskipti við Morgunblaðið, þannig að ábyrgðarlausari menn en áður fengu þar undirtökin, og eftir því sem séð verður, tóku blaðaeigendur Sjálfstfl. ráðin af þingflokknum. Stj. og þingflokkur gerðu samkomulag um gerðardóminn, en þegar blöðin snerust á móti þessu, var flokknum vandi búinn. Blöðin sigruðu, og það samkomulag, sem gert hafði verið um gerðardóminn, var rofið, og blaðaeigendurnir draga með sér aðra flokksmenn Sjálfstfl. meira og minna nauðuga. Síðan bjóðast þeir til að fara í bandalag við kommúnista, og upp úr því kemur svo stjórnarsamvinnan, sem ég mun nú nokkuð minnast á, bandalag, sem er svo gífurlega ótraust sem mest má vera, því að þar koma fram þeir ólíkustu flokkar. Í fyrsta lagi er það Alþfl., sem kom þessu öllu af stað, útbjó þessa gildru til þess að vinna Sjálfstfl. tjón, og viðhorf hans til Sjálfstfl. er þess vegna allt annað en vera þarf milli flokka, sem styðja eina og sömu stj. og verða því að vinna saman, ekki sízt á hættutímanum. Milli flokkanna er full keppni, og blöð Sjálfstfl. hafa ekki mulið undir Alþfl., því að meðan samstjórnin stóð, var Vísir stöðugt að ráðast — og það mjög ómaklega — á formann Alþfl., svo að óhætt er að segja, að eins og stóð á, þegar stj. var mynduð, var engin heil brú milli þessara flokka um samstarf í þjóðmálum. Um kommúnistana er svo það að segja, að ekki var heldur um að ræða neina heila brú milli þeirra og þessara tveggja flokka, og það því síður sem vitað var, að kommúnistar stóðu á allt öðrum grundvelli, byltingargrundvelli, og stefndu að því að leysa upp það þjóðskipulag, sem þeir telja rangt. Það er því ómögulegt að hugsa sér verri grundvöll undir stj. en þann, sem núv. stj. hefur. En ef undan er tekin ein framkvæmd hjá þessari hæstv. stj., sem er ákaflega óheppileg, nefnilega bílaverzlunin, sýnist mér út af fyrir sig ekki hægt að segja, að stj. hafi getað gert miklu betur en hún gerði, vegna þess að hún er alveg í lausu lofti. Hún kom til valda á máli, sem enginn ætlaðist til, að yrði slíkt mál, en svo þegar kom til dýrtíðarmálanna, komu vitanlega veikleikarnir í ljós hjá henni. Þar gat hún vitanlega ekkert gert, réð ekki við neitt, því að þar var hver höndin upp á móti annarri. Þeir, sem höfðu staðið að gerðardóminum, vildu hamla á móti dýrtíðinni, en fengu engu ráðið fyrir þeim, sem vildu láta eyðilegginguna verða sem mesta og fullkomnasta.

Sú breyt., sem Alþfl. ætlaðist ekki til, að gengi fram, Sjálfstfl. vildi ekki, en varð að tala, en kommúnistar einir vildu, var fólgin í þessari hugsun hæstv. fjmrh., að níðast á Framsfl. Það var vitað, að Framsfl. hafði farið stöðugt vaxandi í flestum hlutum landsins, þar á meðal tvímenningskjördæmunum, og þá átti að hafa þá aðferð, að minni hl. í tvímenningskjördæmunum hefði sama rétt og meiri hl. Því var haldið fram, m. a. af þeim frambjóðanda Sjálfstfl., sem ég fylgdist með, að svona fyrirkomulag væri m. a. í Svíþjóð. Ég hafði þá ekki við höndina bækur til að ganga úr skugga um þetta, en þegar ég kom suður, lét ég rannsaka þetta, og þá kom í ljós, að þetta var vitleysa frá rótum, því að það eru ekki til tvímenningskjördæmi í nokkru landi, svo að vitað sé, ekki heldur í Svíþjóð. Við framsóknarmenn höfum fært gild rök, sem hafa ekki verið hrakin, fyrir því, hvað þetta þýðir. Þetta er að snúa við dýpsta eðli parlamentarísmans, sem hefur vaxið upp í Englandi síðustu ár. Það, sem hann er byggður á, er það, að borgararnir á tilteknum svæðum velja sér fulltrúa til nokkurra ára eftir að hafa heyrt ræður þeirra og rök. Það er álitið, að því megi treysta, að það, sem flestir vilja, sé það bezta. Ef maður, sem hefur unnið kjördæmi, fullnægir ekki vilja kjósendanna, kemst hann í minni hluta, og þeir fara til annars, sem þeir treysta betur. En þessi fleygur hv. þm. V.-Ísf. gengur út á að eyðileggja þetta. Þar er byrjað á einræði minni hl., þar er verið að brjóta niður dómgreind fólksins, gengið á móti þeirri reglu, að meirihlutaviljinn sé réttur. Ef við tökum dómstólana eins og hæstarétt, þá er gengið út frá því, að það, sem tveir vilja, sé rétt, þó að sá þriðji sé á öðru máli. En eftir þessari nýju reglu, sem á að koma hér á, er þetta ekki. Hér á að koma á þeirri reglu meðal kjósenda eins og ef vilji minni hl. í hæstarétti ætti að vera tekinn til jafns við vilja meiri hl. Þetta hefur aldrei verið reynt, af því að það er ómenguð vitleysa, sem skynsamir menn hafa aldrei látið sér til hugar koma og Alþfl. hefði ekki heldur dottið í hug, ef hann hefði ekki hugsað það sem leik, en þessi leikur er nú að verða að veruleika í dag.

Þessi var þá undirstaða þessarar stjórnarskrár og hennar undirbúningur allur, að ofan á hrófatildrið með landskjörið, ofan á það hrófatildur, sem Jón Þorláksson kallaði þingsvik, kemur þessi ófögnuður, sem ég hef nú lýst. Ef maður lítur yfir þessar stjórnarskrárbreytingar báðar, sést fullkomlega, að hv. flm. hefur ekki dottið í hug nokkur ábyrgð gagnvart þjóðinni. Ef svo hefði verið, þá hefðu þeir farið þá leið að skipa mþn., sem ef til vill hefði starfað í fleiri ár, til þess að athuga og undirbúa sem bezt þessi mál öll, en í staðinn fyrir það eru látnir fara fram leynisamningar milli flokkanna um það, hvernig eigi að koma þessu fram, leynisamningar milli andstæðra flokka, sem geta ekki sameinazt um neitt annað en þá vitlausustu stjskr., sem vitað er til, að sé í nokkru landi, þar sem hvítt fólk býr.

Ég vil þá benda á, hver afleiðingin er til að byrja með af þessu stjórnarfari. Hún er sú, að í staðinn fyrir þessa stj., sem stóð að gerðardóminum, studd af tveimur sterkustu flokkunum, sem höfðu gert milli sín samkomulag fyrir opnum tjöldum, sem allir sjá nú, að líf þjóðarinnar lá við, stjórn, sem hafði nægan þingstyrk og nægt fylgi kjósenda á bak við sig til að starfa, ef hún hefði fengið að hafa vinnufrið, — í staðinn fyrir hana kemur stj., sem hefur engan málefnalegan stuðning fyrir utan einn flokk, en hinir flokkarnir, sem hjálpa henni í þessu eina máli, óska henni alls ills, og nú er manni sagt, að um leið og lokaatkv. hafa fallið um þessa stjskr., um leið og lokið er við þetta nývirki, sem hér er á ferðinni, rísi einhver á fætur úr Alþfl. og segi við stj.: „Við þökkum fyrir samvinnuna undanfarið, og nú höfum við ekkert við ykkur nema fjandskap og óskum ykkur ills og ævinlegs ófarnaðar.“ — Hvort kommúnistar segja það sama; skal ég ekki segja, en tel það þó líklegast, en vil þó taka fram, að það er ekki sama ábyrgð á þeim vegna þess sérstaka eðlis, sem þeir hafa, og líka úr því að þeir eru ekki upphafsmenn að þessari stjskr., þó að þeir hafi líka staðið að framgangi hennar. Hvað blasir svo við, eftir að þessir flokkar hafa lokið við þetta prýðilega verk og eftir að búið er að ákveða kosningar í stórhríðunum í haust eða vetur? Allt logar í ófriði og sundrung, hver höndin upp á móti annarri. Þessir þrír flokkar hafa sagt upp sínu samkomulagi og eru þar að auki að sjálfsögðu í megnustu andstöðu við Framsfl., því að allt þetta er til þess gert að níðast á honum. Ef Framsfl. tekur sig svo til, þegar Alþfl. hefur sagt upp hlýðni og hollustu, og ber fram vantraust á stj., þá er búið að fella stj. Það er fullkomlega réttmætt af Framsfl. að fella stj., sem meira og minna viljug og meira og minna nauðug er að gera hermdarverk. Ábyrgðin er ekki á Framsfl., þó að hann komi með vantraust, heldur á Sjálfstfl. og Alþfl., sem hafa sameiginlega staðið að þessum óhappaverkum, en kemur svo illa saman og hafa svo lítið sameiginlegt, eftir því sem Alþfl. segir. Þá eru fjórir flokkar í þinginu, allir hver á móti öðrum, allt logar í ófriði. Það, sem mér sýnist vel geta komið út úr því, er það, að á sama tíma sem menn vona eða vonuðu a. m. k. áður, að þjóðin væri að þoka frelsismálum sínum lengra áfram, þá felldi Alþfl. stj. um leið og lokið er við þetta hervirki, og ríkisstjóri yrði að skipa stj. til þess að fleyta landinu fram yfir næstu kosningar. Mér finnst þessi útkoma hér um bil benda á, hvað mikil fyrirhyggja hafi verið um þessa stjskrbreyt., þegar þeir flokkar, sem að henni standa, eru ekki fyrr búnir að ganga frá þessu upplausnarverki en flokkarnir, sem bera höfuðábyrgðina á þessu, eru komnir í fullan fjandskap, hvor við annan, ósammála um allt nema að nafa fullan fjandskap sín á milli.

Nú má segja, að ekki sé hundrað í hættunni, þó að stj. falli. Það hafa fallið stjórnir og munu falla stjórnir, en það er þessi blær, sem er á starfinu, þessi algerði upplausnarblær, sem er á starfi þessara þriggja flokka, sem ekki geta komið sér saman um þjóðmálin, geta ekki komið sér saman um neitt nema að búa til stjórnarskrá á bak við þjóðina. Hverju spáir þetta? Við skulum segja, að stj. fari frá og ríkisstjóri skipi aðra stj., sem sitji fram undir jól. Hver segir, að þá verði hægt að mynda stj. upp úr þessum ósköpum? Við erum hér í tvíherteknu landi. Allt í kringum okkur eru stórhættur, og yfir okkur vofir sá mesti hernaður, sem Ísland hefur þekkt. Hættumerki kveða hér við á nóttu sem degi, og við getum hvenær sem er búizt við ægilegum loftárásum á þennan bæ og þetta hús, sem er milli hafnarinnar og flugvallarins, þetta hús, sem við erum nú staddir í og þar sem stjórnarskráin verður endanlega samþ., þegar skynsamlegast væri að flytja fólkið burt úr bænum eins og annars staðar er gert, en í staðinn fyrir það streymir fólkið stjórnlaust á þennan hættulegasta stað landsins, án þess að nokkurt húsnæði geti rúmað það, án þess að nokkur skynsemi sé í því eða nokkur framtíðarvon. Þetta er ein afleiðingin af þessu samstarfi núverandi stjórnarflokka síðustu mánuðina. Reykjavík hefur vaxið of mikið fyrir sig og landið, og ósýnt, hvernig fram úr því megi ráða, þegar fram líða stundir.

Ég skal ekki spá, hvernig tekst að eyðileggja Framsfl., þann versta flokk, sem hæstv. fjmrh. segir, að hafi verið hér síðustu 6–7 aldirnar. Ég held, að ekki einu sinni fjmrh. muni hafa búizt við, að Framsfl. mundi upprætast, jafnvel ekki í stórhríðum í vetur. Mestar líkur eru til, að hér á landi verði tvenns konar aðrar „grúppur“, nefnilega „konservatív“ flokkur og verkamannaflokkur, kannske byltingakenndur fyrst um sinn, með ósmekklegt samband við eitt af hinum stríðandi stórveldum. Þess vegna er ekki hægt að búast við öðru en því, að svo fremi Íslendingar haldi frelsi sínu, verði svo ástatt hér, að mitt á milli þessara tveggja verði einn flokkur, sem sé Framsfl. Það verður ekki hægt að stjórna landinu nema hann sé með. Allt er tóm óstjórn nú, ekki af því að í ríkisstj. séu ekki eins vitibornir menn og í ríkisstjórnum almennt, heldur bagar hana óheilindi og sundrung. Það var ekki nóg, að ríkisstj. lofaði að gera sitt besta, hún gerði ekkert, því að þann sama dag sem hún hefði gert eitthvað, var hún búin að tapa stuðningi flokkanna, sem hún var flækt við út af stjórnarskránni. Ég get fullyrt það, enda kemur það í ljós, að við framsóknarmenn munum ráða jafnmiklu og við höfum ráðið, þó að gæsaþm. verði teflt fram. Við munum beita fullri alvöru. Það kemur líka í ljós, að Alþfl., sem ætlaði að eyðileggja Framsfl., mun sjálfur verða eyðilagður. Það er spaugilegt, að Alþfl. gaf út sitt eigið blað, en lokaði prentsmiðjunum til að þjarma að okkur. Hann ætlaði að vinna stóran sigur, en eyðileggur sjálfan sig. En við munum halda áfram að koma fram eins og menn í hverri raun, og af þessu leiðir, að ómögulegt verður að gera neitt, nema hafa okkur með. Þó að tekin verði af okkur 2–3 kjördæmi með einhverjum gæsasteikarkúnstum, herðum við bara ólina og höldum áfram ótrauðir. Ég vil segja það hér, og ég vil, að það fréttist til Sveins Sveinssonar, sem hefur hjálpað Alþfl. og kommúnistum, að það verður ekkert samstarf fyrr en Sjálfstfl. hefur blöð, sem hann á, svo að ekki komi loddarar utan frá og kasti flokknum í fangið á mönnuni, sem eru að eyðileggja hann. Að ekkert skuli vera gert til umbóta, stafar ekki af því, að vanti krafta, heldur af sundrung.

Ég held því ekki fram, að Framsfl. eigi til eilífðar að vera stjórnarflokkur á Íslandi það hefur farið vel um okkur í þessari skemmtilegu opposition — , en svo getur farið, að almenningur óski eftir einhverju öðru en þessari gæsastjórnarskrá, og þá er ekki hægt að komast hjá því að tala við okkur, af því að við byggjum á þeim krafti, sem hefur haldið uppi lífinu hér í 1000 ár, og öðrum venjum en þeir þm. V.-Ísf. og Héðinn Valdimarsson hafa innleitt. Þó að annar flokkur kunni að vera mannfleiri, verður það nauðsyn og gifta þjóðarinnar að fá okkur til samstarfs, og orð hæstv. fjmrh. munu verða höfð í minni um langan aldur sem eitt hið andstyggilegasta, sem sagt hefur verið í stjórnmálum Íslands lengi.