26.08.1942
Neðri deild: 15. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 228 í B-deild Alþingistíðinda. (332)

28. mál, kosningar til Alþingis

Sveinbjörn Högnason:

Út af umr. um þessar brtt. vil ég snúa mér að till. um meðmælendafjölda í tvímenningskjördæmunum og því, sem síðasti ræðumaður gaf í skyn, að hér ætti að torvelda framboð fáliðaðra flokka í kjördæmunum.

Nú er sú breyt. þar á orðin, sem hann hefur stutt að, að í staðinn fyrir menn koma nú listar. Það má að vísu gilda sama tala og var fyrir hvern frambjóðenda, en hún var 12–24 meðmælendur. En nú eru ákveðnir 4 frambjóðendur á hverjum lista, og virðist þá ekki nema samræmi í því, að hver hafi minnst 12 meðmælendur eða 48 fyrir allan listann og þá mest 96 fyrir listann.

Það er ætlazt til þess, að frambjóðendur í einmenningskjördæmunum hafi minnst 12 meðmælendur og mest 24, en að tveir frambjóðendur í tvímenningskjördæmunum hafi hvor um sig minnst 12 og mest 24 meðmælendur. Það er því ekki rétt, sem hér hefur verið haldið fram, að það sé verið að torvelda meðmælendasöfnun, heldur er verið að færa meðmælendafjöldann niður um 3/4, því að, það hefur verið svo, að það hafa ekki verið nema að sáralitlu leyti sömu menn, sem hafa mælt með fleiri en einum í tvímenningskjördæmunum. Ef sama „principið“ ætti að vera eins og áður hefur verið, ættu að vera minnst 48 og mest 96 meðmælendur, því að í staðinn fyrir, að áður er mælt með 1 manni, eru það nú 4 menn, sem eiga að safna meðmælendum, og ættu þeir því að vera minnst 48 og mest 96. Ef menn hugsa sér, að flokkarnir hafi ekki fullskipaðan lista, ætti að mega draga úr meðmælendafjöldanum, ef t. d. er ekki nema um l mann að ræða, en mér finnst ekki skynsamlegt, að 4 menn þurfi ekki fleiri meðmælendur en einn maður. Það er ekkert samræmi í því og ekkert vit í að hafa það svo.

Hv. 4. landsk. segir, að það borgi sig ekki, þótt einhver flokkur hagnist á því í bili, að gera breyt. á kosningal. Ég held, að þessum flokki farist sízt að tala um það, hvað sé hægt að græða á kosningatill., eftir það, sem á undan er gengið. Með kosningal. á ekki að taka tillit til annars en þess, að mönnum sé skapaður réttur til að neyta atkvæðisréttar síns og skilyrði til þess að sækja kosninguna, hvar sem þeir eru á landinu, og að séð sé um, að aðrir geti ekki breytt því, sem kjósandi vill.

Viðvíkjandi till. hv. þm. A.-Húnv., á þskj. 111, þar sem hann vill fella úr 100. gr. þessa setningu „eða það sannist fyrir kjörstjórn, að hann sé staddur á kjörstaðnum“, — að menn megi m. ö. o. kjósa, hvenær sem er, hjá undirkjörstjórn. Ég sé ekki annað en að með þessu sé kosning hafin strax og framboðsfrestur er útrunnin og hún standi í 30 daga. Hitt er rétt hjá hv. flm., að þessari reglu hefur ekki ætíð verið fylgt og að menn hafa kosið á undan hjá hreppstjóra, þótt þeir hafi verið á kjörstað. Þetta er ósamræmi, en það er sams konar og í 27. gr., þar sem stendur, með leyfi hæstv. forseta: „Hver einstakur frambjóðandi í kjördæmi, þar sem kosið er hlutbundnum kosningum, skal láta fylgja framboði sínu skriflega yfirlýsingu eigi færri en 12 og eigi fleiri en 24 kjósenda í því kjördæmi, þar sem hann býður sig fram, að þeir styðji kosningu hans.“ Það er vitanlegt, að þetta ákvæði kosningal. er þverbrotið. Mér er kunnugt um, að í Rangárvallasýslu var það brotið bæði af, Sjálfstfl. og Alþfl. Þetta var orðað svo, að þeir, sem gefa, þessa yfirlýsingu, mæli með því, að þessi maður sé í kjöri. Ég gæti líka gefið slíka yfirlýsingu. Ég gæti verið ánægður með, að þessir menn væru í kjöri fyrir Sjálfstfl. og jafnaðarmenn, því það er aðeins sagt, að þeir, sem skrifi undir þessa yfirlýsingu, mæli með því, að þessi maður sé í kjöri fyrir þennan flokk, ekkert um, að þeir ætli að styðja kosningu hans. Þetta eru ekki meðmæli. Vitanlega er hægt að fá alla til að mæla með því, að maðurinn sé í kjöri, og andstæðingar hans geta ekkert síður skrifað undir það en fylgismenn. Jafnvel er því fremur hægt að skrifa undir slíka yfirlýsingu, því lakari sem maðurinn er, því að það er auðvitað kappsmál fyrir andstæðingana, að sem lélegastur maður sé í kjöri. Það er líka víst, að menn taka þessi meðmæli ekki alvarlega, eins og sýndi sig með atkvæðatölu jafnaðarmanna. Þeir höfðu 17 menn sem meðmælendur, en annar frambjóðandinn fékk ekki nema 12, en hinn 15 atkvæði. Þetta er atriði út af fyrir sig, og ef verið er að breyta kosningal., þá er sjálfsagt að taka skýrt fram um það og setja sektarákvæði við því, að kosningal. sé ekki fylgt. Það er vitanlegt, að með því að safna meðmælendum á þennan hátt, er hægt að safna ótölulegum fjölda. Það er gefinn hlutur. Ég held, að í 27. gr. ætti að vera ákveðin formúla fyrir því, hvernig skuli orðað, þegar meðmælum er safnað. Þá er það skýrt, að þeir, sem skrifa undir, styðji kosningu þessa manns, og ég held, að þetta eigi að vera þannig, að ekki þurfi að fara í neinar grafgötur um það.

Ég vil í sambandi við þetta minnast á það, sem hv. 6. landsk. sagði um það, að ég hefði komið með till. um, að oddvitar kjörstjórna ættu að segja af sér strax, ef þeir væru í framboði. Það er ekki verið að segja, að þeir muni misnota sína aðstöðu, en það er auðvelt að misnota hana, t. d. þegar á að ákveða, hvaða framboð skuli tekin gild og hvenær þau eigi að vera komin fram, og eins er hægt að taka á móti framboði, eftir að framboðsfrestur er útrunninn. Þetta er hægt að gera á margan hátt með því að láta þá menn, sem eru í framboði, gefa úrskurði, og þeir menn, sem vilja hafa þá aðstöðu, þótt þeir séu í framboði, sýna bara, að þá langar til að fitla eitthvað við þessi mál þrátt fyrir það, og þá líklega heldur sjálfum sér í hag en óhag. Ef ég væri í framboði, mundi ég óska eftir að koma þar hvergi nærri, svo að engum gæti dottið í hug, að ég misnotaði aðstöðu mína. Það liggur í augum uppi, að ef maður fellir úrskurð í sjálfs sín sök, kemst hann aldrei undan því að vera grunaður um græsku, hversu heiðarlegur sem hann er. Þess vegna sé ég ekki ástæðu til að setja ákvæði, sem hafa í för með sér, að menn verði fyrir tortryggni. Það er nær að koma í veg fyrir slíkt með kosningalögunum.

Það, sem hv. 6. landsk. (GÞ) var að ræða um viðvíkjandi brtt. mínum og annarra og minni ræðu hér í gær, var náttúrlega alveg eftir hans lundarfari, eðli og menntun. Það er hægt með „juristeríi“ að gera sér það til gamans að ræða mál á þann hátt, sem hann gerir, en eins og kunnugt er, þá er slíkur málflutningur ekki tekinn alvarlega af mönnum, sem starfa að raunhæfum málum. Það getur verið, að lögfræðingar hafi gaman af því, en það hefur lítið að segja við raunhæfa lausn málanna. Þessi hv. þm. telur það ástæðulaust og illgirni eina að vilja taka út úr kosningal. það, sem skapar tortryggni. Það sé ekki nema ég, sem sé með tortryggni. Ég, þessi illgjarni maður. Það skyldi ekki vera, að ýmsir hafi orðið fyrir tortryggni af öðrum en mér, og ég veit, að jafnvel hann hefur orðið fyrir því og að það hefur orðið hlutskipti margra að vera tortryggðir, stundum að ástæðulausu, en stundum af ástæðu. Þess vegna ættu þeir, sem að þessum l. standa, að reyna að útrýma göllum, sem eru eða geta orðið til þess að vekja grunsemdir um, að hægt sé að misbeita því valdi, sem í kosningal. er ákveðið.

Hv. 6. landsk. talaði um það, að ekki væri skýrt ákveðið, hvort ætlazt væri til, að tveir kjörstjórar væru í sama hreppi og hvort hreppstjórar ættu að vera það áfram eða þeir ættu að missa vald sitt. Hreppstjórar hafa vitanlega ekki þetta vald nema samkv. þessum l. Þeir hafa þetta vald ekki sem hreppstjórar, heldur af því að þeim er veitt það með þessum l. Það er meiningin með l. að gera öllum kjósendum eins auðvelt og hægt er að neyta kosningarréttar síns, og þegar hann er að tala um, að kjósandi þurfi ekki fremur að kjósa hjá sínum hreppstjóra en hjá einhverjum öðrum hreppstjóra, þá er það „júristerí“. Hvað er kjósandi úr Rvík, sem staddur er á stað austanlands, þar sem hreppstjóri er langt í burtu, — tveggja tíma ferð —, hvað er hann bættari, þótt hann þurfi ekki að fara til þess hreppstjóra, en fara þess í stað til hreppstjóra, sem er lengra í burtu? Ég veit, að tveir kjósendur, sem áttu heima í Hafnarfirði og Rvík töpuðu kosningarrétti sínum vegna þess, hve langt var til næsta hreppstjóra og ekki hægt að koma seðlunum á réttum tíma.

Ég get verið hv. 6. landsk. sammála um það, að ef kosningar halda áfram í tvo daga, um hvergi telja upp fyrr en þeim er lokið, og heldur ekki í kaupstöðum, því að það er ekki rétt, enda tel ég ekki, að það liggi svo mikið á að telja, að neinn voði eða háski sé á ferðum í þeim efnum. Hv. 6. landsk. talaði um það viðvíkjandi brtt. okkar um það, að þegar kosningu væri lokið, skuli innsiglið ekki vera í höndum sama manns, sem geymir kjörgögnin, hver ætti að geyma innsiglið. Mér er alveg sama, hver það gerir, bara að það sé ekki í höndum sama manns og kjörgögnin. Því að hver getur hagnýtt sér innsiglið nema sá, sem geymir kjörgögnin? Ef þetta hvort tveggja er í höndum sama manns, er það víst, að ekki þarf nema einn mann til þess að notfæra sér það, annars eru það alltaf tveir, og það er þó meiri trygging að eiga eitthvað undir heiðarleik tveggja en eins, og sá sem innsiglið geymir, getur ekki hagnýtt sér það, á meðan kjörgögnin eru ekki í hans vörzlu. Og ég vil segja það, að þótt ég treysti hv. 6. landsk. í þessu efni fullkomlega, eins og hann treystir mér, treysti ég honum enn betur, ef annar góður maður er með honum — (Forsrh. grípur fram í), — en ég mundi ekki treysta honum betur, þótt hæstv. forsrh. væri með honum, því að hann mundi frekar leggja til illt en gott, og honum er ekki fremur trúandi fyrir innsigli kjörgagna en innsigli ríkisins. Ef hæstv. ráðh. þarf eitthvað að segja, skal ég með ánægju setjast niður á meðan. (Forsrh.: Það er bara fyrirspurn. Ég ætlaði bara að spyrja hv. þm., hvernig væri hægt að treysta einhverjum betur en fullkomlega.) Ég get sagt þessum hæstv. ráðh., að ég mundi aldrei treysta honum fullkomlega, eins og ég hef áður sagt, og ég vil líka segja honum það, að honum eða þeim, sem nærri honum standa, verður aldrei treyst fullkomlega, og vona ég, að þetta sé nægilegt fyrir hann. Ég held annars, að það sé ekki hyggilegt af hæstv. ráðh. að vera að leita sér trausts hjá mér, því að hann veit, að það er farið alls staðar og einnig hjá flokksmönnum hans, og þess vegna þorir hann ekki að láta afgreiða hér viss mál, eftir að hann er búinn að koma skemmdarverkunum fram hér á þingi og missa þannig traust þeirra, sem áður höfðu treyst honum.

Ég held ekki, að það hafi verið neitt sérstakt, sem fram hefur komið gagnvart brtt., sem fyrir liggja, annað en það, sem hv. 4. landsk. þm. var að ræða um viðvíkjandi tveim kjördögum. Hann taldi það mjög varhugavert að veita undirkjörstjórnum leyfi til þess að ákveða, að ekki skyldi vera nema einn kjördagur, vegna þess að það væri víða, sem flokkarnir hefðu ekki menn í kjörstjórnum. En ég get ekki skilið, að það sé miklum hagsmunum fyrir að fara hjá flokki, sem ekki á umboðsmann. Ef flokkarnir eru hræddir um hagsmuni sína, er hægt að ákveða, að þeim skuli skipaður umboðsmaður. Annars getur vel verið, að það þurfi að ákveða nánar um þetta, og vitanlega er þessu ekki stefnt gegn neinum flokki, heldur aðeins til þess, að ef kjörstjórnir og umboðsmenn eru sammála um, að ekki sé ástæða til að hafa kosningu lengur, sé ekki skylt að hafa tvo kjördaga.

Ég skal svo ekki að sinni fara meira út í þá hluti, sem hér hafa verið ræddir, og tel mig hafa drepið á flest. Ég tel fleiri breyt. ætti að gera á þessum kosningal. en hér hafa komið till. um, sérstaklega við 27. gr. og enn fremur við gr. um listakosningu, að hafa ekki nöfn á listunum eins og B, C, D, sem hljóma eins, sérstaklega í útvarp. Listarnir þurfa að vera skilgreindir þannig, að það þurfi ekki að misheyrast. Það virðist líka vera ástæðulaust, því að nógu langt er stafrófið og flokkarnir ekki orðnir svo margir enn, hvað sem kann að verða. Ég held, að það væri mjög skynsamlegt að gera þessa breyt.