07.09.1942
Neðri deild: 22. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 284 í B-deild Alþingistíðinda. (400)

80. mál, stjórnarskipunarlög

Forsrh. (Ólafur Thors) :

Ég tel mér ekki fært á þessu stigi máls að gera athugasemdir við ræður hv. þm. Borgf. og hv. 1. þm. Skagf. og sé ekki heldur ástæðu til að deila við hv. 4. þm. Reykv.hv. 1. landsk. En ég vil skýra hv. 1. landsk. frá því, að þegar er þessu máli er lokið, mun ríkisstj. láta leggja fyrir þingið þáltill. um, að aukið verði í stjórnarskrárnefnd, þannig að hún verði skipuð alls átta mönnum, fulltrúum allra þingflokka, tveim frá hverjum.

Hv. 1. þm. S.-M. sagði, að ríkisstj. og ekki sízt ég persónulega hefði farið með fullyrðingar um, að lýðveldi yrði stofnað á þessu þingi, og án þess að ég hefði haft samráð um það við aðra flokka. Ég sagði í ræðu, sem þm. munu eiga kost á að lesa, að lagt mundi verða fyrir þingið frv. í samræmi við það, sem samþ. var um málið á síðasta þingi, — ekkert umfram það, að ríkisstjórnin mundi eiga þátt í undirbúningi þess, sem Alþ. vildi gera í málinu, — í samræmi við þál. frá 17. maí 1941. Þegar ég síðar í blaðaviðtali lýsti afstöðu minni, var mér kunnugt um, að fulltrúar Framsfl. í stjórnarskrárn., þeir hv. þm. S.-Þ. og hv. þm. Str., eða a. m. k. hinn fyrrnefndi, formaður flokksins, höfðu sömu afstöðu og ég um framkvæmd málsins á þessu þingi, og hafði ég ástæðu til að halda, að þar með væri vilji Framsfl. í málinu ljós orðinn. Áður en nokkru var lýst yfir af minni hendi, hafði fullkomin eftirgrennslan farið fram um þann flokksvilja. Nú heldur hv. 1. þm. S.-M. þeirri fjarstæðu fram, að Sjálfstfl. hafi hreyft þessu máli til þess að dreifa óánægju, sem upp hafi verið komin vegna kjördæmaskipunarmálsins. En það mál var réttlætismál og þurfti engra afsalna við. En þessi getsök þnl. sýnir vilja til að blanda því saman við þetta mál, sjálfstæðismálið, sem ætti að vera yfir allt slíkt hafið.

Ástæðurnar fyrir því, að ekki er hægt að afgreiða sjálfstæðismálið, eru öllum þm. kunnar, þó að ekki sé hægt að gera þær hér að umtalsefni. Mér þykir vænt um yfirlýsingu þess hv. fulltrúa Framsfl., sem síðast talaði, um vilja sinn, hafinn yfir flokkadeilur. Og það hefur aldrei verið og mun aldrei verða vilji Sjálfstfl. að gera þetta að flokksmáli.

Hv. 1. þm. S.-M. vildi slá því föstu í fyrsta lagi, að á þessu þingi hefði ekki verið stofnað lýðveldi og í öðru lagi gætu aðgerðir, sem fólgnar eru í þessu frv., aldrei orðið grundvöllur að stofnun lýðveldisins. Þetta er fullkominn misskilningur. Einmitt á grundvelli þessa frv. mun verða stofnað lýðveldi á Íslandi. Í frv. felst ekkert nema það, að Alþ. getur, eftir að frv. er orðið að l., með einni þingsamþykkt stofnað 1ýðveldið, bæði sett forseta og rofið sambandið við Danmörku að fullu, getur gert það án þingirofs og kosninga, svo sem lýst hefur verið fyrir hv. þd. Í haust getum við þá stigið hið endanlega spor og stofnað lýðveldið, ef ástæður aðrar banna ekki. Og það og ekkert meira hefði verið hægt að gera, þó að við hefðum nú samþ. stjórnarskrárfrv. um það. Ef Íslendingar telja sig hafa ástæður til að stofna lýðveldi sitt í haust að dómi Alþ., verður það gert.