07.09.1942
Efri deild: 25. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 356 í B-deild Alþingistíðinda. (461)

80. mál, stjórnarskipunarlög

Bernharð Stefánsson:

Ég sagði nú ekki, að ég væri með nýja kenningu í þessu máli. Annars skal ég taka það fram, að ég er ekki lögfróður maður, og les ég ekki allt, sem hv. 5. þm. Reykv. hefur skrifað um þau efni. En það breytir ekki því, að hann kemur nú með nýja kenningu í þessu máli, og samkv. þessari kenningu hans virðist engin ástæða til að gera sérstakar ráðstafanir til að fá lýðveldisstjskr. fyrr samþ. en ella, því að allir sjá, að hér er lýðveldisfyrirkomulag, og ef við getum haldið því svo lengi sem við viljum, þá sé ég ekki, að við getum ekki farið venjulega leið.

Annars virðist það hefði verið ómögulegt eftir hans kenningu að stofna hér lýðveldi, ef ekki þetta óvenjulega viðhorf hefði skapazt, a. m. k. ef konungur hefði neitað að samþ. stjskr.

Hann talaði um það, að ekki væru sambærileg þau dæmi, er ég tók, því að þar hefði grundvöllurinn allur breytzt, Ég vil minna hann á, að Ríkisdagurinn þýzki hélt áfram fyrst í stað, eftir að lýðveldið var stofnað, og að þingið í Frakklandi setti keisarann af, og í báðum löndunum giltu að öðru leyti sömu lög áfram.

Ég átti ekki við né ræddi neitt um, að eins ætti að ganga til hjá okkur og í þessum löndum, heldur benti á þessi dæmi til að sýna fram á fjarstæðurnar í nál. Ég gæti bent honum á þriðja landið, þar sem engin breyting var gerð önnur en sú, að konungur, sem var útlendur, hætti að vera konungur þjóðarinnar, en það hélt þó áfram að vera konungsríki. Þetta er Noregur. Ef þingið hefði heldur viljað lýsa yfir lýðveldi en að kveðja til sín annan konung, þá hefði það gert það þá strax.

Ég ætlaði mér ekki að fara að deila um málið við 2. umr., en gat þó ekki látið hjá líða að benda á veilur og vitleysur í nál. og illgirni og getsakir í garð Framsfl.