12.08.1942
Neðri deild: 5. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 387 í B-deild Alþingistíðinda. (564)

24. mál, raforkusjóður

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti.— Mig furðar stórlega á, að hv. þm. V.-Sk. skuli rísa hér upp til þess að bera fram annan eins „sannleika“ og hann hefur boðað hv. d., þann sannleika, að Sjálfstfl. hafi verið þrándur í götu þess, að heilbrigð þróun í rafmagnsmálum þjóðanna gæti átt sér stað. Ég ætla ekki að eyða orðum að annarri eins fjarstæðu og þeirri, að þetta frv. eigi að sýna iðrun ákveðins hluta Sjálfstfl. eða nokkurs hluta hans eftir kosningarnar. Allir hv. þdm. vita, að undanfarin ár hafa rafmagnsmálin verið ofarlega á baugi í þinginu, ekki sízt hjá Sjálfstfl. Sannast það ekki sízt á því, að sá, sem fyrst hreyfði málinu á Alþ., var þáverandi formaður Sjálfstfl., Jón Þorláksson, sem setti þá málið fram skýrt og djarflega, eins og hans var von og vísa. Ég er undrandi yfir, að jafnskýrum manni og hv. þm. V.-Sk. skuli hafa skotizt yfir það, að þegar verið var að koma af stað mestu rafvirkjun hér á landi, Sogsvirkjuninni, þá var það Sjálfstfl., sem barðist fyrir því gegn mótspyrnu Framsfl., og það hefur alltaf verið áhugamál Sjálfstfl. að koma rafmagninu sem víðast frá Soginu, og hefur nú verið hafinn undirbúningur undir það af núv. ríkisstj.

Mér þykir mjög miður, að hv. þm. V.-Sk. skuli hafa hlaupið svona út undan sér í þessu máli, því að það var skýrt tekið fram af hv. 1. flm., að það væri vilji okkar að fá sem nánasta samvinnu allra um þetta mál, enda hefur líka verið góð samvinna um bað á undanförnum þingum milli framsóknarmanna og sjálfstæðismanna, sem sannast á því, að hv. þm. Borgf. hefur flutt ásamt nokkrum framsóknarmönnum frv., sem í nál. er talin undirstaða þessa frv. Þrátt fyrir þetta leyfir hv. þm. V.-Sk. sér að koma með brigzlyrði til Sjálfstfl. og saka hann um óheilindi. Ég sé ekki ástæðu til að fara lengra út í að svara slíku, því að það er svo langt frá, að nokkur rök megi færa fram fyrir slíkri fullyrðingu. Ég vil aðeins taka undir það, sem hv. 1. flm. sagði, að málið er flutt af fullri alvöru og bak við þær og aðrar till., sem miða til mestra átaka í þessum málum, stendur Sjálfstfl. óskiptur.

Ég segi ekki, að í þessu frv. sé ekki margt, sem betur mætti fara, og flm. munu taka með þökkum hverri viturlegri brtt., sem fram kann að koma frá góðgjörnum og sannsýnum mönnum, og vonum við, að um málið megi verða sem bezt samvinna.

Um einstakar gr. eða frv. í heild sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða, því að hv. 1. flm. hefur gert það röggsamlega, en vil aðeins undirstrika orð hans um nauðsyn þess, að framvegis megi verða stigin í þessum málum fleiri og stærri spor en verið hefur hingað til, svo að sem allra flestir, hvar sem er á landinu, megi verða aðnjótandi þeirra miklu þæginda, sem rafmagnið þefur í för með sér.

Hv. þm. V.-Sk. talaði einnig um, að Sjálfstfl. hefði verið á móti því, að fé væri lagt til hliðar, eins og talað er um í grg. þessa frv. Ég ætla, að aðrir hv. þm. hér séu betur færir um að svara þessu, en mér er þó kunnugt um, að andstaða Sjálfstfl. gegn framkvæmdasjóðstill. byggðist engan veginn á því, að flokkurinn væri því mótfallinn, að fé væri lagt til hliðar. Hygg ég, að gleggst hafi verið bent á það af hv. þm. A.-Húnv., að flokkurinn teldi ástæðulaust að stofna sérstakan sjóð fyrir utan ríkissjóðinn, féð gæti eins vel geymzt í sjálfum ríkissjóðnum. Ég skal persónulega ekki leggja dóm á þetta, en þetta sýnir, hversu fjarri lagi sú staðhæfing hv. þm. V.-Sk. er, að Sjálfstfl. sé á móti því að leggja fé til hliðar til framkvæmda síðar. Það, sem við leggjum til í grg., er því engan veginn í ósamræmi við þær till. eða þá stefnu, sem Sjálfstfl. eða þm. hans fylgdu á síðasta þingi.

Ég vil að lokum láta í ljós sömu ósk og hv. 1. flm. frv., að þrátt fyrir að nokkuð hjáróma rödd hafi heyrzt um þetta mál í upphafi, megi svo fara, að allir hv. þdm. vilji eiga þátt í því með þessum hætti eða einhverjum öðrum skyldum, að rafmagnsmál sveitanna og smærri sjávarþorpa komist í viðunandi horf.