11.08.1942
Sameinað þing: 4. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 31 í D-deild Alþingistíðinda. (885)

6. mál, erlendar fóðurvörur

Flm. (Páll Zóphóníasson) :

Herra forseti. — Ég þarf ekki að hafa langa framsögu. Þetta mál dróst um daginn inn í umr. um annað mál, og var það þá rætt nokkuð og helztu atriði málsins auk þess fram tekin í grg. Ég vil benda á þá staðreynd, að það er færra fólk en venjulega við heyskap. Það hafa þegar verið gerðar ráðstafanir til, að bændur hefðu aðstöðu til að geta fengið síldarmjöl við skaplegu verði, en það kemur ekki að notum, nema annar kolvetnisríkur fóðurbætir sé gefinn með því. Það er því brýn nauðsyn á innfluttum fóðurbæti og því meira, sem ætla má, að meira verði notað af síldarmjöli og fóðurbæti en venjulega. Enn fremur vil ég benda á, að það skiptir miklu, að bændur viti nógu snemma, hvers fóðurbætis þeir mega vænta, svo að þeir geti tekið tillit til þess, þegar þeir setja búfé á hey sin að haustinu. Það ríður á, að þegar verði gerðar ráðstafanir til þess, að eitthvað af þeim tæpum 8000 tonnum, sem fest hafa verið kaup á í Ameríku, fáist flutt inn sem fyrst. Till. miðar að því, að ríkisstj. hlutist til um, að fóðurbætir gangi fyrir öðrum vörum, svo að framleiðslan þurfi ekki að dragast saman. Ég vænti, að till. verði vel tekið, og vona, að bændur geti í tíma fengið að vita, hvern fóðurbæti þeir fá, og það verði helzt áður en snjór lokar leiðum, því að oft hefur reynzt fullerfitt í ótíð að draga að sér fóðurbæti.