20.08.1942
Sameinað þing: 6. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 59 í D-deild Alþingistíðinda. (956)

8. mál, úthlutun bifreiða

Flm. (Helgi Jónasson) :

Herra forseti. — Eins og öllum er kunnugt, var lítið flutt inn af bifreiðum árin 1939 og 1940, því að þá var mikill skortur á erlendum gjaldeyri. Var því mikill skortur á bifreiðum hér á landi, þar sem ekki var hægt að bæta í skörðin jafnframt því er eldri bifreiðir slitnuðu. Svo eftir að stríðið skall á, fluttist nokkru meira af bifreiðum til landsins, og var þó strax auðsætt, að eftirspurnin mundi verða meiri en hægt væri að fullnægja, og var því skipuð tveggja manna n. til þess að hafa bifreiðaúthlutun á hendi ásamt forstjóra bifreiðaeinkasölunnar. Þessir menn sömdu till. um það, hverjir skyldu fá bifreiðir þær, sem til landsins fluttust, sem voru aðallega vörubifreiðir, og var till. þeirra oftast fylgt. En þegar fór að koma fram á árið 1942, varð talsverð breyting á þessu, og reyndist það svo, að endanlegt úthlutunarvald var hjá hæstv. ríkisstj., aðallega fjmrn. Fór nú svo, að þeir, sem vildu fá bifreiðir, tóku að sækja fast á fjmrn. En þetta teljum við flm. illa farið, því að við vitum, að fjmrh. er önnum kafinn við önnur störf og getur illa sinnt þessu starfi, enda teljum við það miður vel við eigandi, að hann sé að fást við þetta. Þess vegna förum við fram á, að Alþ. kjósi þriggja manna n., er hafi fullnaðarvald til að ákveða, hverjir skuli fá bifreiðir þær, sem einkasalan flytur inn, og þar á meðal þær, sem nú eru komnar í höfn og munu vera vörubifreiðir flestar.

Það er vitað, að undanfarið hefur verið mikið brask með bíla. Þeir, sem fengið hafa nýja bíla, hafa selt gamla bíla, er þeir áttu áður, við okurverði, en þeir, sem keyptu, hafa orðið að sætta sig við þetta, af því að þeir gátu ekki fengið nýja bíla. Til þess að koma í veg fyrir þetta, leggjum við til, að bifreiðaeinkasalan fái þessar bifreiðir til kaups eftir réttu mati og geti síðan selt þær við hæfilegu verði.

Eins og kunnugt er, hefur orðið mikil óánægja með úthlutunina að undanförnu, og vil ég ekki kasta skuldinni á hæstv. fjmrh. einan. En slík úthlutun er mjög vandasöm, og viljum við losa hann við þennan vanda.

Ég sé, að fram er komin brtt. á þskj. 88 frá hv. 2. þm. Reykv. (EOl). Hann vill, að Sþ. kjósi 2 menn í þessa n., en þriðji maðurinn sé skipaður af ríkisstj. eftir till. bifreiðastjóra í Rvík, og get ég fyrir mitt leyti vel fallizt á þetta.