18.12.1942
Neðri deild: 21. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 851 í B-deild Alþingistíðinda. (1163)

74. mál, skattgreiðsla h/f Eimskipafélags Íslands

Ingólfur Jónsson:

Ég þarf ekki að hafa mörg orð um þetta frv. Það er vitanlegt, að Eimskipafélag Íslands hefur notið skattfrelsis á undanförnum árum, og frv. svipað þessu hefur verið flutt og samþ. annað hvert ár. Með þessu frv. er farið fram á, að Eimskipafélag Íslands njóti sömu fríðinda og það hefur notið að undanförnu, og vil ég mæla með því, að því verði veitt þau einnig nú.

Ýmsir telja ástæðu til að taka Eimskipafélag Íslands til rækilegrar athugunar og að ríkið hafi meiri hlutdeild um stjórn þess en verið hefur. Ýmsir tala um fjárgróða í því félagi, alveg eina og það sé þjóðarháski ef sjóðseignir þess vaxa. Þetta félag hefur stundum grætt peninga, en stundum tapað vegna þess, að flutningsgjöld hafa ekki verið sett eins há og nauðsyn hefur krafizt. Þess ber að geta, að þótt félagið hafi grætt, hefur aldrei verið borgað til hluthafa meira en 4% í arð. Ég held, að þótt Eimskipafélagi Íslands tækist að safna í sjóði, þá gæti verið not fyrir þá að styrjöldinni lokinni til þess að auka skipakostinn, sem er allt of litill og farinn að ganga úr sér.

Ég vænti því, að hv. þd. samþ. þetta frv. eins ag það kemur frá fjhn.