15.12.1942
Neðri deild: 15. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 863 í B-deild Alþingistíðinda. (1250)

52. mál, lendingarbætur í Bakkagerði í Borgarfirði

Flm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. — Ég þarf ekki að hafa langa framsöguræðu að þessu máli. Það er samhljóða að efni og frv., sem samþ. var fyrir Skála á Langanesi á síðasta þingi. Það er farið fram á það, að ríkið leggi fram fé og' ábyrgst, til þess að hægt verði á þessum stað að gera lendingarbætur, svo að hægara verði að stunda þaðan útræði en nú, með því að fjölga mundi dögum, er á sjó gæfi. Hafnlaust er þarna með öllu, en menn lifa mikið á sjávarútvegi. Vitamálastjóri hefur gert áætlun um kostnað við þessa hafnargerð, og eru upphæðirnar í frv. öllu ríflegri en sú áætlun var, enda hefur bæði efni og vinna stigið mjög síðan hún var gerfi. Þó kann vel að vera, að þær tölur, sem nefndar eru, séu vel ríflegar, ef ekki hækkar mikið hér eftir.

Þegar ég fór þá leið að flytja um þetta sérstakt frv., byggðist það á því, að þetta verk er gert í svo fátækum og fámennum hreppi, að hann hefur ekki ráð á að leggja féð fram í einu á móti, og verkið þarf þess vegna að gerast í mörgum áföngum, því að það er aðeins hægt að gera verkið fljótt með lántökum, en ég hygg, að undir miklum lántökum standi hreppurinn ekki, hann verður að leggja fé fram sjálfur móti ríkinu. Þess vegna er sú leið farin að taka verkið í áföngum og nota lántökuheimildina ekki nema að litlu leyti.

Frv. þetta er frábrugðið l. um lendingarbætur á Skálum á Langanesi að því leyti, að gert er ráð fyrir, að gjöld í lendingarbótasjóð sé hægt að innheimta, þegar byrjað er á verkinu, þótt það sé ekki komið langt, í staðinn fyrir það, sem alsiða er, að innheimta ekki gjöld fyrr en verkið er svo til búið, en þetta stendur í sambandi við það, að hugsað er, að verkið sé unnið á mörgum árum.

Ég vona svo, að sjútvn. taki þessu máli með velvilja og það verði samþ. á þessu þingi.