05.02.1943
Neðri deild: 50. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 891 í B-deild Alþingistíðinda. (1351)

78. mál, þingsköp Alþingis

Frsm. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Frv. þetta, sem hér liggur fyrir, fer fram á, að bætt verði við einni nefnd, heilbrigðis- og félagsmálanefnd. Frv. þetta er komið frá Ed., en þar var það flutt af fjórum þm. eftir beiðni landlæknis. Hann taldi, að fyrir næstu þingum mundu liggja allmörg mál um þessi efni, og áleit nauðsynlegt, að þau yrðu athuguð af sérstakri nefnd. Flestum þessum málum hefur áður verið vísað til allshn., en það mun nú full þörf sérstakrar n. til þess að fjalla um þessi mál, enda hefur allshn. nú undanfarið stundum haft of mörg mál til athugunar. — Allshn. hefur athugað þetta frv. og mælir með, að það verði samþ. óbreytt.