18.01.1943
Efri deild: 35. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 927 í B-deild Alþingistíðinda. (1478)

12. mál, orlof

Eiríkur Einarsson:

Mér heyrist menn vera á eitt sáttir um það, að sanngjarnt sé að styrkja á einhvern hátt sveitafólkið til kynnisferða. En það er hið formlega fyrirkomulag, hvort eigi að fella ákvæði um það inn í þessi l., ef frv. verður samþ., eða afgreiða það á einhvern annan hátt, sem aftur á móti veldur ágreiningi, og mér finnst í raun og veru, að það hafi fallið nokkuð mörg orð um þetta og ágreiningurinn vera óþarflega mikill. Því að ef viljinn fyrir því er svo einlægur sem ræður manna hér bera vitni um, þá finnst mer, ef tortryggni er ekki því meiri, að það mætti jafna þetta allt.

Mér hefði fundizt réttara, að þetta mál yrði afgreitt og ákveðið með sérstakri lagasetningu heldur en með því að fella það inn í þetta frv. um orlof, ekki sízt vegna þess, að mér finnst stiklað á helzt til stóru með því orðalagi, sem brtt. hv. þm. Str. felur í sér. Þar er bara nefnt, að það eigi að styrkja fólk til kynnisferða, og svo tiltekið um framlag til þess. Ef ætti að fara að styrkja sveitafólk á annað borð til kynnisferða, finnst mér erfitt að ganga fram hjá því, að styrki þessum, sem þyrfti þá að vera verulegur, yrðu settar einhverjar merkjalínur um það, hvernig þetta fé ætti að nota. Eiga þessar kynnisferðir einungis að vera til þess að létta sér upp, og á þá að veita þetta fé þannig í viðurkenningarskyni við þá, sem alltaf strita, eða á að skilja þetta í viðtækari merkingu? Ég álít, ef þessi lagasetning á að geta orðið að verulegum notum, þá þurfi að hafa þessi ákvæði skýrari og hafa þetta víðtækara. Ég álít, að þetta ætti að geta orðið til kynnisferða bæði hérlendis og erlendis. Því að það er margur framgjarn og efnilegur ungur maður og mörg slík ung stúlka, sem heima eiga í sveitunum, húsbændaefni, sem finna oft til sársauka vegna þess, að þau eiga aldrei kost þess að fara utan, þó ekki sé nema stuttan tíma meðal nálægra þjóða, til þess að kynna sér ýmislegt, sem lýtur að starfsgrein þeirra.

Ég veit það, og það er ekki ætlazt til þess, að með brtt. við þetta frv. sé hægt að koma þessu að. En ég álít, að það ætti að setja sérstaka löggjöf um þetta. Hins vegar verð ég að játa, að ég er hlynntur þessu málsatriði í heild. Og til þess að sýna, að ég sé það, en ég tel réttlátara að flytja um þetta frv. að sérstakri löggjöf, hefur mér dottið í hug, hvort ekki gæti orðið samkomulag um það í hv. d. að vinda því svo til, að samþ. yrði við þetta frv. um þetta atriði ákvæði til bráðabirgða, sem ég hef skrifað, og ég vil afhenda hæstv. forseta sem skrifl. brtt. við brtt. á þskj. 193, frá hv. þm. Str. Brtt. mína afhendi ég hæstv. forseta og bið hann að leita afbrigða fyrir henni.