25.01.1943
Neðri deild: 41. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 940 í B-deild Alþingistíðinda. (1509)

12. mál, orlof

Stefán Jóh. Stefánsson:

Ég skal ekki teygja þessar umr. mikið. Mér finnst þó hlýða, eftir ræðu hv. þm. V.-Húnv., að minnast aðeins á frv. og þær aths., sem hann hafði fram að bera, sem allar í höfuðatriðum hnigu gegn hugmynd þeirri, sem í frv. felst. Mér skildist hv. þm. V.-Húnv. leggja á það mikla áherzlu, að óþarfi væri að festa með löggjöf rétt vinnandi fólks til orlofs, Það mundi fást með samtökum og samningum eftir því, sem eðlilegt væri um það að semja. Ég skal að vísu játa, að opinberir starfsmenn og skrifstofufólk yfirleitt hefur fyrir löngu fengið samningsbundinn rétt til orlofs, sem má kalla, að sé orðin föst venja hér á landi eins og víða annars staðar. Verkamenn, sem erfiðisvinnu stunda og eru ófaglærðir, hafa fæstir fengið slík réttindi fyrr en á allra síðasta tíma. Hins vegar hafa faglærðir menn fengið fyrr orlof samkvæmt samningum. Prentarar, járnsmiðir og fleiri stéttir hafa fengið þau fyrir löngu.

Nú get ég ekki séð, ef það í sjálfu sér er sanngjarnt og eðlilegt, að allar vinnandi stéttir fái slík orlof, að óeðlilegt sé, að sett sé um það löggjöf. Það er einmitt leiðin, bæði hér og annars staðar, að þegar víss stefna er búin að ryðja sér til rúms með samningum og samtökum, sem beitt hafa sér fyrir umbótum, þá kemur oft löggjafarvaldið á eftir og lögfestir það, sem orðið er í þeim efnum og veitir réttinn fyllri og lætur hann ná til fleiri en öðlazt hafa hann með samningum. Því að það er alltaf svo, að eftir samningaleiðum öðlast ekki nema þeir samninga, sem tiltölulega sterk og þróttmikil samtök hafa. Hinir, sem hafa ófullkomnari félagssamtök um sín mál, verða að bíða síðari tíma, þó að þörf þeirra sé jafnbrýn á umbótum og hinna, sem samningana hafa fengið vegna sinna samtaka. Eðli allrar löggjafar, sem til umbóta horfir, er sú að jafna aðstöðumun þjóðfélagsþegnanna, veita þeim rétt, sem minni máttar eru, til jafns við þá, sem vegna aðstöðu sinnar hafa getað öðlazt réttinn eftir samtökum í samræmi við eigin mátt. Mér finnst því, að hugmyndin, sem liggur til grundvallar þessu frv., sé ekki ámælisverð, heldur miklu frekar lofsverð og eðlileg. Og þar er ég á öndverðum meið við hv. þm. V.-Húnv. Ef ætti að færa út kenningu þá, sem hann flutti, mætti segja, að ekkert þyrfti að hlynna að samvinnufélagsskap bænda, þeir ættu að ná sínum takmörkum í samvinnufélagsskapnum með samtökum sínum án sérstakrar löggjafar. Að vísu starfaði sá félagsskapur bænda í mörg ár án sérstakrar löggjafar. En síðar var leitað til löggjafans til þess að fá fastari reglur settar um samvinnufélagsskap bænda. Og fyrir rúmum 20 árum voru sett l. hér á Alþ. um samvinnufélög, sem tryggðu rétt þessa þjóðnytjafélagsskapar betur en áður var. Ef sama stefna hefði verið uppi á baugi gagnvart þeirri lagasetningu þá eins og hv. þm. V.-Húnv. gerðist nú hér talsmaður fyrir gagnvart því frv., sem hér liggur fyrir, hefði mátt segja, að ekki væri nauðsynlegt að setja l. um samvinnufélög, því að bændur sjálfir og félagssamtök þeirra gætu komið þeim málum í gott horf án löggjafar. En ég tel, að slíkar undirtektir hefðu þó ekki verið sanngjarnar, og hvorki eðlilegt né sanngjarnt það, sem hv. þm. V.-Húnv. flytur hér gegn þessu frv.

Sami hv. þm. spurði að því, hvað verkamenn mundu helzt kjósa í atvinnumálum, ef þeir væru að spurðir, og sagði, að þá mundu þeir kjósa fasta og stöðuga atvinnu. Þetta er rétt. Sú ósk, sem bærist innst í brjósti hvers verkamanns, er, að þeir hafi stöðuga atvinnu og svo vel borgaða, að þeir geti séð fyrir sér og sínum. En jafnvel þó að atvinna verkamanna sé næg og kaup sæmilegt, svo að hægt sé fyrir þá að draga fram lífið, þá er í því efni að athuga, að maðurinn lifir ekki á einu saman brauði. Og ef á að hlynna að menningu allra stétta þjóðfélagsins. þá þarf þjóðfélagið að styðja að því með skynsamlegri löggjöf að gefa mönnum færi á því að njóta lífsins betur, fá andlega menningu og uppeldi, ef svo mætti að orði komast. Og þáttur í því starfi er hóflegt frí frá störfum á þeim tíma, sem hlutaðeigandi menn geta bezt notað sér til upplyftingar og ánægju yfirleitt.

Það má að vísu segja, að íslenzkur verkalýður hafi að mestu leyti sótt rétt sinn sjálfur til vinnuveitenda og hafi yfirleitt ekki óskað eftir aðstoð þess opinbera í samningaumleitunum. Hins vegar gerir íslenzkur verkalýður og samtök íslenzkrar alþýðu kröfu um, að verkalýðsstéttin sé virt alveg á sama hátt og aðrar stéttir þjóðfélagsins, þannig að þeim sé með löggjöf, ei ekki er annars kostur, gefinn kostur á að njóta þess, sem lífið kynni að geta boðið öðrum stéttum þeim til upplyftingar og eðlilegrar hvíldar og aukinnar ánægju. Og sízt ætti það að vera eftir talið hér á hæstv. Alþ. Það er þó gullvæg regla að hjálpa sér sjálfur.

Hæstv. atvmrh. sagði í dag, að aðrar stéttir en bændur fengju vissulega hjálp. Nú er það upplýst, að um 20 milljónir króna voru greiddar úr ríkissjóði árið 1942 á afurðir bænda. Ég er ekki að telja þetta eftir, en hitt tel ég eftir, að fulltrúar þessarar stéttar skuli telja eftir fé til annarra stétta. Þetta vildi ég segja almennt um frv.

Viðvíkjandi þeim atriðum, sem hv. þm. V.- Húnv. minntist á, er því til að svara, að þetta frv. er sniðið eftir löggjöf á Norðurlöndum, og merkin, sem hv. þm. gagnrýndi, hafa reynzt vel og eins hér, þar sem þau hafa verið notuð.

Sami hv. þm. sagði réttilega, að mþn, hefði verið skipuð í þetta mál, og hefði meiri hl. hennar mælt með frv., en Alþ. hefði ekki átt þess kost að sjá álit minni hl., sem var hrm. Eggert Claessen. En ég get upplýst það, að milli hans og meiri hl. var aðeins um stigmun, en engan eðlismun að ræða. Minni. hl. vildi einnig láta lögfesta orlofsrétt manna, en vildi aðeins hafa orlofsféð lægra. Allir hinir fulltrúarnir í n. voru sammála um að mæla með þessari löggjöf, eins og frv. gefur til kynna, og ég álit fá frv. betur undirbúin en þetta. Og þótt ekki hafi ríkt full eining í n. um hundraðsgjaldið, þá var það deila um stigmun, en ekki eðlismun, eins og ég sagði áðan. Ég vildi aðeins láta þetta koma fram vegna ummæla hv. þm. V.-Húnv. Nú mun frv. þetta fara til n., og mun síðar fást tækifæri til að ræða það nánar.