01.03.1943
Neðri deild: 68. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1014 í B-deild Alþingistíðinda. (1716)

133. mál, útvarpsrekstur ríkisins

Frsm. (Gunnar Thoroddsen):

Þetta frv. er komið frá hv. Ed. Allshn. þessarar hv. d. hefur athugað það og mælir með, að það sé samþ. Síðan l. um útvarpsrekstur ríkisins voru sett árið 1930, hafa orðið nokkrar breytingar á skipun útvarpsráðs. Ráðið var upphaflega skipað 5 mönnum eftir tilnefningu ýmissa aðila. Þessu var breytt árið 1934, þannig að ráðið skyldi skipað 7 mönnum, og skyldu 3 kosnir af Alþ., 3 af útvarpsnotandum og 1 skipaður af ráðh. Árið 1939 var útvarpsráðsmönnum aftur fækkað í 5, er kosnir skyldu hlutfallskosningu á Alþ. til þriggja ára í senn. Með þessu frv. er nú lagt til, að sú breyting verði gerð, að ráðið verði ekki kosið til þriggja ára í senn, heldur verði það jafnan kosið á fyrsta þingi eftir hverjar almennar alþingiskosningar. Ætlazt er til með l. um kosningu útvarpsráðs, að ráðið sé skipað af flokkunum á Alþ., en þar sam styrkleikahlutföll flokka breytast að jafnaði nokkuð með hverjum alþingiskosningum, er eðlilegt, að skipun ráðsins taki þá tilsvarandi breytingum eftir kosningar. Þetta er eina breytingin, sem farið er fram á með frv.