30.11.1942
Neðri deild: 7. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1034 í B-deild Alþingistíðinda. (1755)

16. mál, fiskveiðasjóður Íslands

Skúli Guðmundsson:

Ég sé enga ástæðu til þess að fara að deila um þetta mál, a.m.k. ekki á þessu stigi málsins.

Hu. flm. sagði, að ríkissjóður hefði ekki lagt fiskveiðasjóði til annað fé en þessa umræddu einu millj. kr. Þetta er ekki rétt. Fiskveiðasjóði voru afhentar eignir Skuldaskilasjóðs vélbátaeigenda, og nam sú fjárhæð 850 þús. kr. Þetta fé er raunverulega frá ríkinu, því að ríkissjóður stofnaði skuldaskilasjóð, en afhenti fiskveiðasjóði síðar eignir hans.

Þá er ég einnig ósammála hv. flm. um það, að fiskaeiðasjóður geti ekki veitt nægilega hagkvæm lán, nema hann starfi með eigin fé einungis. Vextir af bankavaxtabréfum eru nú svo lágir, að það ætti að vera auðvelt fyrir sjóðinn að lána út með góðum kjörum, þótt helmingur rekstrarfjár hans væri lánsfé. Ég tel það ekki kleift fyrir ríkissjóð að koma upp nægilega stórum sjóði, nema fjárins sé að einhverju leyti aflað með lánum, en hinsvegar tel ég eðlilegt, að ríkissjóður leggi fram nokkurt fé, sem ekki þurfi að endurgreiða, til þess að sjóðurinn geti lánað út með lægri vöxtum. Þessi skoðun vildi ég að kæmi fram.