04.12.1942
Neðri deild: 9. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 59 í B-deild Alþingistíðinda. (182)

2. mál, Stjórnarskrá

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. — Þó að ég viti, að frv. þetta hefur fylgi 37 þm. af 52, kann ég ekki við annað en láta það koma fram hér í hv. d., að ég er frv. ekki samþykkur. Ég tel, að fram komi í því nokkuð af þeirri hneigð, sem talsvert hefur borið á að undanförnu og fer í þá átt að hrifsa undir Alþ. æ meira af því valdi, sem kjósendum ber. Það er verið að breyta stjskr. til þess að svipta kjósendur sínu valdi. Þetta er sami hugsunarhátturinn og sá, sem fram kom í því, er þm. samþ. að kjósa sjálfir sjálfa sig til þings. Sama máli gegnir um það, þegar farið er að afgreiða upp undir helming fjárveitinga úr ríkissjóði, án þess að þingsamþ. sé fyrir, aðeins eftir ósk einhverra klíkna, sem aldrei stíga fæti í þingsalinn. Með þessu eru stigin spor rakleitt í einræðisátt. Af þeirri ástæðu er ég andvigur þessu frv. En svo er líka önnur ástæða: Ég tel, að þetta geti orðið til að hindra það, að við getum tekið sjálfstæðið í okkar hendur, áður en þjóðaratkvæði hefur farið fram, og geti því orðið erfiðara fyrir Alþ. að gera ráðstafanir, sem nauðsynlegt kann að vera að gera með fárra klukkustunda fyrirvara. Þetta tvennt vildi ég, að kæmi fram. Ég hef til þessa setið hjá við atkvgr. um frv., en mun að þessari umr. lokinni greiða atkv. á móti því.