15.12.1942
Neðri deild: 15. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1133 í B-deild Alþingistíðinda. (1993)

51. mál, virkjun Fljótaár

Flm. (Áki Jakobsson):

Herra forseti. — Löng framsöguræða í þessu máli er í raun og veru alveg óþörf. Eins og hv. þm. er kunnugt, var þetta mál flutt á sumarþinginu í þáltill.- formi í Sþ. af öllum núverandi flm. þess og Einari Árnasyni, sem ekki situr þing nú. Málið varð ekki afgr. þá, og í byrjun þessa þings sendi ég bréf til hv. fjvn., þar sem ég fór þess á leit, að þessi till. yrði tekin upp sem brtt. við fjárl., en við nánari athugun komumst við að þeirri niðurstöðu, að rétt mundi vera að koma með þessa ábyrgðarheimild í sérstöku lagaformi, einkum þar sem farið er fram á svo háa upphæð, 6 millj. kr. ábyrgð. Það gildir sama um Siglufjörð og aðra kaupstaði, að þeir hafa getað treyst því að fá ríkisábyrgð fyrir láni, þegar þeir hafa lagt í virkjun fallvatna. Allir bæir hafa fengið þetta og hafa gengið út frá því sem sjálfsögðu, enda hefur ekki komið fyrir að þessir bæir hafi ekki getað staðið undir þessum lánum sjálfir.

Auðvitað tekur ríkissjóður á sig nokkra áhættu með þessu, einkum þegar verðlag er orðið eins hátt og það er nú, en ég held, að það sé hægt að gera ráð fyrir, að Siglufjörður geti staðið undir þessari rafveitu, ef hún fer ekki fram úr áætlun, vegna þess að aðstaða til þess að láta hana bera sig er sérstaklega góð. Öll önnur bæjarfélög hafa þriggja — fjögurra mánaða dauðan tíma á hverju ári, þ.e. sumartímann, þegar ljósanotkun er engin, hitanotkun engin, og það er aðeins rafmagn til suðu, sem notað er. En á Siglufirði notast orkan á þessu tímabili með verksmiðjuiðnaðinum. Verksmiðjureksturinn er þessa 3–4 mánuði, og það er ekki eingöngu, að sá tími verði ekki dauður, heldur verður líklega hæst notkun þá. Þannig eru möguleikar til þess að bera háan stofnkostnað meiri á Siglufirði en hjá öðrum bæjarfélögum. Ég vildi láta þessa getið, vegna þess að það kom fram í grg., sem fylgdi þessari till. í sumar. Þetta er sérstaða, sem líka leiddi til þess, að bæjarstjórn Siglufjarðar var bjartsýnni á að leggja í virkjun, eins og verðlagi er nú komið, en önnur bæjafélög hafa ástæðu til að vera. Að öðru leyti vísa ég til grg., sem fylgir frv., og til grg., sem fylgdi þáltill. okkar í sumar.