17.03.1943
Neðri deild: 77. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1187 í B-deild Alþingistíðinda. (2066)

8. mál, vegalög

Gunnar Thoroddsen:

því miður get ég ekki látið þetta mál ganga úr d. svo, að ég ekki minnist örfáum orðum á afgr. samgmn. á því. áleðal þeirra, sem flytja till., er ég, og eru þær á þskj. 66. Samgmn. kusu undirn., sem átti að leita álits vegamálastjóra. Sú undirn. kallaði á mig eins og aðra þm. og tilkynnti, hvað vegamálastjóri hefði lagt til, og gerði fyrirspurn, hvort ég, eins og aðrir þm., vildi ekki sætta mig við, ef farið væri eftir till. vegamálastjóra eingöngu, að taka hana þá aftur. Ég gekk vitaskuld inn á þetta, vildi ekki beita hörku og stefna málinu í voða, því að búast mátti við, að aðrir þm. gerðu það sama. Á þeim grundvelli einum tók ég till. aftur.

En nú vill það til við 3. umr., að á sama fundi og á að afgr. málið úr d. ber samgmn. sjálf fram nýjar till. í þessu máli, og ég veit, að af þeim eru þó nokkrar, sem vegamálastjóri hefur ekki mælt með og jafnvel á móti. Mér finnst þetta vera afgreiðsla, sem ekki er hægt að sætta sig við orðalaust. Ég álít, að samgmn. og hv. frsm. hennar, sem virðist líta á sig sem eins konar „drottin allsherjar“ í vegamálum þjóðarinnar, þegar honum var falið þetta mikla hlutverk, eigi að reyna að standa við fyrirheitin, sem gefin voru. Hv. frsm. gat þess, að eftir að till. vegamálastjóra voru fengnar, hafi n. samt sem áður leitað samkomulags við þm. um að taka fleiri vegi á vegalög. Ég hef alls ekki orðið var við þessar samkomulagsumleitanir n., og ekki hefur verið komið með einu einasta orði að máli við mig um að taka upp neina till. nema þær, sem vegamálastjóri hefur lagt með. Mér er mjög um geð að gera uppsteit út af þessu máli. En ég get ekki látið kyrrt liggja, þegar þingnefndir leyfa sér slíka framkomu, að bera þau boð til þm., að afgr. eigi málið með samkomulagi um grundvöll þann, sem felst í till. vegamálastjóra, en koma á síðustu stundu fram með till., sem hann leggur á móti. Með þessu tel ég, að n. hafi gengið lengra en sæmilegt er.

Af þeim till., sem ég hafði með höndum, er það sérstaklega ein, sem ég sé mér ekki fært að láta liggja niðri úr því sem komið er, og flyt því hér, en skriflega vegna framkomu n., þar sem hún kom ekki með till. sínar fyrr en á þessum fundi. Þessi till. er um Hnappadalsveginn af Stykkishólmsvegi um Hnappadal og Heydal að Bílduhóli á Skógarströnd. Hér er ekki um veg að ræða fyrir einn einasta hrepp eða sýslu, heldur er um að ræða mjög þýðingarmikinn veg fyrir þrjár sýslur, Snæfellsnessýslu, Hnappadalssýslu og Dalasýslu. Nú eru tveir vegir þarna vestur á bóginn, annar um Kerlingarskarð til Stykkishólms, hinn um Bröttubrekku til Dala. Báðir eru vegirnir mjög örðugir að vetrinum og snjóþungir. En mitt á milli liggur Heydalur og Hnappadalur, þar sem allir kunnugir menn telja, að mundi vera fær vetrarvegur, svo að segja alla vetur, vegna þess hvað hann liggur lágt yfir sjó.

Ég vil enn taka fram, að mér þykir ákaflega leitt að neyðast til að skerast úr leik og bera fram sérstaka brtt., sem n. hefur ekki tekið upp. En það er eingöngu vegna þess, að framkoma n. var á þessa lund, sem ég hef lýst. Ég hafði sýnt fullan þegnskap í því að draga mínar till. til baka, þegar það var látið í veðri vaka, að eingöngu ætti að fara eftir till. vegamálastjóra. Ég vil þess vegna leggja fram þessa till. nú og bið hæstv. forseta að leita afbrigða, þar sem hún er skrifl. og of seint fram komin. En það er ekki mín sök, heldur nefndarinnar.