25.03.1943
Efri deild: 81. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1201 í B-deild Alþingistíðinda. (2098)

8. mál, vegalög

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Deilan stendur ekki um það, hvaða vegum sé nauðsynlegt að koma inn á vegalögin, heldur um það, hvort opna skuli vegalögin og þar með missa taumhald á frv. Mér skilst á hv. 1. þm. Eyf., að augu hans væru nú loks að opnast fyrir þeirri hættu, og er það gott þótt seint sé. Hann lýsti því sem sé yfir. að hann mundi taka aftur sína brtt., ef hin:.ar brtt. yrðu felldar eða teknar aftur, og ég mun viðhafa sömu aðferð með till. mína. Mér er skylt að svara hv. 1. þm. Eyf., en hann spurði um, hvaða reglu hefði verið fylgt við afgr. þessa máls, og bætti því við, að engri reglu hefði verið fylgt. Sú regla var viðhöfð að senda allar till. til vegamálastjóra og fá umsögn hans um þær, síðan var samþ. í samgmn. að till. skyldu upp teknar. Enn fremur voru hv. þm. spurðir um, hvað þeir gætu fallizt á, og þar á meðal hv. 1. þm. Eyf. –Þetta var sú regla sem fylgt var. Aldrei var um það rætt, hvar þörfin væri mest, en ef svo hefði verið, þá hefði hv. 1. þm. Eyf. ekki fengið neitt.

Hv. þm. Dal. kaus sér styttri veginn, en vegamálastjóri áleit heppilegra að taka lengri leiðina, og það er þess vegna ekki samgmn. að kenna að ekki hefur verið fallizt á till. hv. þm. Dal.

Út af þeim ummælum hv. 1. þm. Eyf., að reipdrátturinn um málið væri mér að kenna, þá vík ég þeim ummælum aftur til föðurhúsanna, en vil benda á, að mikil óreiða virðist vera í hugsunarkerfi þessa hv. þm., hvað málinu viðvíkur.

Ég tel heppilegra að ljúka umr. um málið á þessum fundi, því að ég álit að það sé þegar nægilega rætt.