18.01.1943
Neðri deild: 36. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1212 í B-deild Alþingistíðinda. (2149)

111. mál, rithöfundarréttur og prentréttur

Flm. (Stefán Jóhann Stefánsson):

Herra forseti. — Ég þarf ekki að fylgja þessu frv. úr hlaði með mörgum orðum. Með því er gert ráð fyrir að leiðrétta gömul og úrelt lög um réttleysi höfunda til verka sinna.

Frá því að l. um rithöfundarétt og prentrétt voru sett árið 1906, hefur aðeins verið gerð á þeim smábreyting 1912, en fyrir mörgum árum befur verið kvartað undan því af hálfu listamanna og annarra, að þessi úreltu lög mættu ekki standa svo lengur. Fyrir nokkru var flutt frv. til breyt. á þessum lögum, en það dagaði þá uppi. Árið 1939 var svo flutt frv., sem stefndi í svipaða átt og þetta, en það dagaði einnig uppi. En nú er kominn nýr skriður á þetta mál. Þeir, sem hér eiga um sárt að binda, hafa myndað með sér sterk samtök og hafa nú óskað eftir að löggjafarvaldið veitti þeim aukinn rétt til verka sinna.

Höfuðatriðið er að rýmka það takmarkaða svið til höfundaréttinda, sem rithöfundum og tónskáldum var veitt árið 1905 og með lagabreyt. 1912 var einnig látið ná til mynda og uppdrátta. Mesta öryggisleysið er þó fólgið í því, að eftir 5 ár frá gerð verksins máttu allir notfæra sér það, án þess að höfundurinn gæti nokkuð sagt við því. Nú er lagt til að höfundur fái fullan rétt á verki sínu frá útgáfu þess og áfram um ótakmarkaðan tíma. Þá er og lagt til að rýmka svið laganna, þannig að þau nái til fleiri listagreina og andlegra verka. En svo að þessi lög komi ekki of hart niður á almenningi og öllum félagsskap hér á landi, er sett inn ákvæði um það, að þessi verk megi um hönd hafa á smærri samkomum kvaðalaust án leyfis og endurgjalds.

Nú hefur stéttarfélag höfunda komið sér saman um ákveðinn taxta á verkum sínum, og skal þá sá taxti því aðeins hafa gildi, að hann sé staðfestur af menntmrh. Þetta er gert til þess að tryggja það, að höfundar geti ekki haft fulla einokun á verkum sínum.

Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um þetta frv. Ég vænti þess, að þar sem það er vel undirbúið, fái það að ganga hraðbyri í gegnum þingið. Ég legg svo til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og menntmn.