18.03.1943
Efri deild: 76. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1222 í B-deild Alþingistíðinda. (2170)

111. mál, rithöfundarréttur og prentréttur

Magnús Jónsson:

Ég vil aðeins gera grein fyrir atkv. mínu, og get ég þar að langmestu leyti vísað til þeirra annarra, sem hafa talað í þessu máli. Ég mun greiða atkv. með dagskrártill. breyttri eins og hún kemur fram í skrifl. brtt. hv. þm. Barð. Þetta má þó ekki skilja sem andstöðu mína móti málinu, heldur finnst mér stappa nærri, að það sé gamanleikur að setja þessa löggjöf nú og semja síðan eftir henni reglugerðir samtímis því, að samþ. er í Sþ. till. um, að ríkisstj. láti undirbúa löggjöf um þetta efni, og ekkert útlit er fyrir annað en að sú löggjöf verði til fyrir lok þessa árs, svo að þessi l. mundu vart koma í gildi fyrr en um leið og þau væru úr gildi numin af þeirri löggjöf, sem stj. lætur væntanlega undirbúa.

Ég tek undir með hv. samþm. mínum um það, að mér finnst orðalag 1. gr. gróflega almennt. Ég segi þó ekki, að ég gæti ekki fallizt á það, ef á undan væri gengin rannsókn manna, sem hefðu kannske borið þetta saman við löggjöf annarra landa. Mér sýnist 1. gr. ríkt að orði kveða um það, að listamaður eigi listaverk sitt, en ekki sá, sem hefur keypt það. En hvað sem öðru líður, þá er listaverk, sem maður hefur eignazt, hans eign, og sá eignarréttur er verndaður í stjórnarskránni og verður ekki af honum tekinn nema með heimild um eignarnám, en ég skil vel, að listamenn hér hafi fundið, að þeir hafi verið nokkuð vanhaldnir af þeirri löggjöf, sem nú gildir um þetta efni. Ég get samþykkt dagskrána í þeirri mynd, sem hún fær, ef brtt. hv. þm. Barð. verður samþ., því að henni fylgir aukinn eftirrekstur um, að fljótt verði undinn bugur að þeirri löggjöf, sem Sþ. samþykkti till. um nú fyrir skömmu.