04.02.1943
Neðri deild: 49. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1266 í B-deild Alþingistíðinda. (2244)

37. mál, lögsagnarumdæmi Reykjavíkur

Ólafur Thors:

Herra forseti. — Þetta mál hefur verið mjög ýtarlega rætt í Ed., og við þessa umr. hefur hv. þm. Mýr. gert því allmikil skil. Ég er mér þess meðvitandi, að langar umr. um málið eru þýðingarlausar, en þó get ég ekki komizt hjá að segja um það örfá orð.

Ég viðurkenni eins og hv. þm. Mýr. þörf höfuðstaðarins fyrir landrými og veit, að það er háttur manna annars staðar, þar sem svipað stendur á, að reyna í tæka tíð að færa út kvíarnar, meðan kostnaður við það er viðráðanlegur og með hliðsjón af þeirri þörf, sem framtíðin segir til um. Ég er því meðal þeirra manna, sem eru fullkomlega reiðubúnir til að líta á þessa hlið málsins, sem snýr að Reykjavíkurbæ. Hins vegar veit ég líka, að það er ekki til of mikils mælzt við hv. þdm., að þeir geri sér þess nokkra grein, hver hluti bæði viðkomandi hrepps- og sýslufélags verður með því móti, að ákvæði frv. verði lögfest. Ég tel þess vegna, að í þessu máli beri í lengstu lög að leita samkomulags. Ég hef sjálfur sem þm. G.-K. gert mér far um að leita hófanna við bæjarstjórn Rvíkur um að ganga svo langt sem yfirvöld bæjarins sjá sér fært í því skyni að reyna að ná um þetta mál samkomulagi við hreppinn. Ég hafði, a.m.k. um nokkurt skeið, von um að þetta mætti takast, og er ekki enn úrkula vonar um farsællega niðurstöðu af þeim tilraunum, en því vil ég ekki leyna, að mér þykir í þeim efnum ekki blása eins byrlega og ég hafði vonað.

Ég vil ekki fara dult með þá skoðun, um leið og ég lýsi yfir, að ég vil gjarnan líta á málið frá sjónarmiði Rvíkur, að mér þykir ekki hafa gætt nægilegrar viðsýni af hendi Reykjavíkurbæjar í samningaumleitunum við Mosfellshrepp í þessu efni. Ég hef nýlega átt tal við hv. þm. Mýr., sem, eins og hann sjálfur sagði, á sæti í hreppsnefnd Mosfellshrepps, og orðaði við hann leið til samkomulags í þessu máli, sem mér fannst frá sjónarmiði Rvíkur fullkomlega aðgengilegt. Ég skal Ekki viðhafa stóryrði, en það stappar nokkuð nærri í huga mínum, að það sé yfirdrottnunarstefna, sem lýsir sér í því af hendi Reykjavíkurbæjar, ef sú leið reynist ófær. Hv. þm. Mýr. sagði að sönnu, að hann hefði í þessu máli ekkert umboð á þessu stigi málsins til að tala f.h. hreppsins, en hann lét þó skina í það við mig, að ef ég hefði fram að bera sáttatilboð frá Rvík svipað því, sem ég orðaði við hann, þá teldi hann hvergi nærri girt fyrir, að hægt væri að taka málið upp á vinsamlegum grundvelli. Ég vil leyfa mér, um leið og ég endurtek, að mér er ljóst, að langar umr. og þrætur um málið færa það ekki nær markinu, og um leið og ég get vísað til sögu málsins, eins og hv. þm. Mýr. sagði hana, þó að þar kunni að vera fram dregið meir sjónarmið annars aðilans, að skora fastlega á þá n., sem mun vera allshn., sem fær þetta mál til meðferðar, að hún einbeiti vilja sínum og getu þegar í öndverðu og reyni að ná frjálsu samkomulagi um málið. Ég treysti því, að þótt hv. alþm. vilji líta á nauðsyn Reykjavíkurbæjar, þá gleymi þeir ekki heldur hinum eindregnu óskum og kröfum hreppsins. Ég leyfi mér því að vænta þess, að hv. n. reyni að ná samkomulagi, og ég fyrir mitt leyti er fús til að tjá henni, hvað það var, sem ég var að ræða um við hv. þm. Mýr. um hugsanlega lausn á málinu og vil mælast til þess, að hv. allshn. vilji hafa viðræður um það við hann og mig og einhvern umboðsmann frá Reykjavikurbæ.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara um málið fleiri orðum á þessu stigi málsins.