31.03.1943
Neðri deild: 87. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1285 í B-deild Alþingistíðinda. (2270)

37. mál, lögsagnarumdæmi Reykjavíkur

Frsm. meiri hl. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. — Eftir að haldnar höfðu verið framsöguræður okkar í meiri og minni hl. allshn., þá gerði ég ráð fyrir, að mál þetta yrði lítið rætt, með tilliti til þess, að fá mál hér á hæstv. Alþingi hafa verið eins vel skýrð bæði í grg. frv. og í nál., bæði meiri og minni hl. allshn. í hv. Ed. En því var ekki að heilsa, heldur stóð hver ræðumaðurinn upp af öðrum við umr. málsins í gær og kom með alls konar fyrirspurnir, sem hann heimtaði, að ég svaraði. Allt, er þeir spurðu um, er skýrt í skjölum málsins, og mér er ekki grunlaust um, að þessar fyrirspurnir hafi frekar verið bornar fram til þess að tefja framgang málsins. Ég vil þó rekja málið ýtarlega enn einu sinni og svara þessum fyrirspurnum.

Hv. þm. Mýr., sem er andstæðingur þessa máls, talaði um það, að óeðlilegur hraði væri kominn á það nú, og krafðist þess í gær, að það yrði tekið af dagskrá. Ég vil benda þessum hv. þn1. á það, að málið var síðast á dagskrá 16. febr., og þannig er hálfur annar mánuður, síðan 2. umr. byrjaði, svo að varla er hægt að tala um, að það sé með 100 mílna hraða. Stuðningsmenn frv. féllust á að hafa þessa hvíld, ef ske kynni, að náðst gæti samkomulag um málið, en það var gefið fyllilega í skyn af hv. þm. Mýr. sem fulltrúa Mosfellshrepps, að nýr samningsgrundvöllur væri fyrir hendi. En þegar það reyndist ekki heldur, kom Mosfellshreppur með hinar sömu till. um málið, þá var ekkert frekar hægt að gera. Það virðist svo sem aðeins hafi vakað fyrir andstæðingum málsins að tefja það. Það kemur því úr hörðustu átt hjá hv. þm. Mýr. að vera að tala um of mikinn hraða málsins. Aðstandendur frv. féllust á að fresta málinu, með það fyrir augum, að til sætta drægi, en svo standa menn hér upp og brigzla þeim um ofbeldi og annað af því tæi.

Ég mun nú snúa mér að efni frv. sjálfs og svara fyrirspurnum, er fram hafa verið bornar. Frv. fer fram á að stækka lögsagnarumdæmi Rvíkur og leggja undir bæinn nokkrar jarðir í Seltjarnarnes- og Mosfellshreppi. Úr Seltjarnarneshreppi vill bærinn taka 2 jarðir og hluta af þeirri þriðju. Fyrst er Elliðavatn, sem bærinn hefur þegar keypt, og það er óneitanlega óeðlilegt, að þessi eign Reykjavíkurbæjar, sem bænum er mjög nauðsynleg, skuli liggja í öðrum hreppi. Svo er það jörðin Hólmur, og ástæður fyrir því, að bærinn vill fá hana í sitt umdæmi, eru tvær. Fyrst er sú, að vatnsveitufræðingar bæjarins hafa bent bæjarstjórn Rvíkur á þá hættu, sem stafar af nýtingu jarðarinnar, eins og hún er nú, fyrir vatnsból bæjarins. Hin ástæðan er sú, að það stendur til, að allverulegur hluti lands jarðarinnar leggist til Heiðmerkur, hins fyrirhugaða friðlands Reykvíkinga. Samkv. l. í fyrra er ríkinu heimilað að selja Rvíkurbæ jörðina, en úr þessu hefur þó ekki orðið enn þá, vegna þess að Seltjarnarneshreppur hefur krafizt forkaupsréttar, en án efa verða þessi l. framkvæmd.

Þriðja jörðin er Vatnsendi, eða hluti hennar, sem á einnig að leggjast undir Heiðmörk. Bæjarstjórn hefur heimild til að taka þessa spildu eignarnámi samkv. l. frá 1942. Um þessar þrjár jarðir er óþarft að fara fleiri orðum, en af því, er ég hef sagt, er auðsætt, að kröfur bæjarins eru ekki gerðar út í bláinn, heldur eru gildar ástæður fyrir hendi.

Aðrar jarðir eru Grafarholt og Korpúlfsstaðatorfan. Fyrir ári festi Reykjavíkurbær kaup þessari torfu fyrir um 2 millj. kr. Þegar þeir kaupsamningar eru um garð gengnir, kemur Mosfellshreppur og krefst forkaupsréttar að hluta af þessari torfu. Ég mun ekki rekja þessa sögu málsins ýtarlega, því að hún ætti að vera öllum hv. þm. deildar innar vel kunn. Síðan berst skriflegt tilboð frá Mosfellshreppi, dags. í nóv., að því er mig minnir, cm í ljós kom, að þetta var enginn samningsgrundvöllur. Þá fyrst samþykkti bæjarstjórn Rvíkur einróma að skora á Alþingi að veita bæjarstj. heimild til að leggja þetta undir lögsagnarumdæmi bæjarins. Á þessu er augljóst, að samningaumleitanir fóru fram eins og í líkum tilfellum, en þær strönduðu. Það liðu þannig 3 ársfjórðungar frá því, að kaup voru gerð á þessari torfu, og þar til bæjarstjórn Rvíkur samþykkti þessa ályktun sína. Enn fremur hafa forgöngumenn málsins sýnt sanngirni í því að fresta málinu í 11/2 mánuð, en það bar engan árangur, því að það kom í ljós þrátt fyrir yfirlýsingu hv. þm. Mýr., að hann hafði ekki í hyggju að leggja fram neinar nýjar till. í málinu.

Ég vil vekja athygli hv. þdm. á því, að ekki er um að ræða að taka þessar jarðir eignarnámi, heldur aðeins að leggja þær undir lögsagnarumdæmi Rvíkurbæjar. Hins vegar er í 3. gr. frv. farið fram á, að bæjarstjórn Rvíkur heimilist að taka eignarnámi jörðina Grafarholt. Bænum er mikil nauðsyn að eignast þá jörð, t.d. vegna sandnáms og malartekju, og sú nauðsyn er viðurkennd, en það strandaði á verði jarðarinnar.

Nærfellt sömu mennirnir og mátu Korpúlfsstaðatorfuna mátu Grafarholtið, og ég vil geta þess, að þeir voru hver úr sínum flokki. Það voru hv. þm. Hafnf., Jens Hólmgeirsson, fyrrv. bæjarstjóri á Ísafirði, Steinþór Guðmundsson og Valtýr Stefánsson. Þetta mat var 150 þús. kr., og þegar litið er á fasteignamat jarðarinnar, má það teljast ágætt, því að það var síðast um 27600 kr. En eigandi jarðarinnar heimtaði 600 þús. kr. minnst. Það má vera, að þetta sé sanngjörn krafa í augum sumra, en forráðamenn bæjarins töldu sig ekki hafa heimild til að ganga að þessum ofurkjörum. Að vísu er sagt. að boðið hafi verið í jörðina af öðrum aðila 600 þús. kr. Ef þetta boð reyndist rétt, en ekki tilbúið, og ef til eignarnáms kæmi, þá yrði að sjálfsögðu tekið tillit til þessa, en ef það reyndist tilbúið boð, þá mundi fara fram nýtt mat á jörðinni.

Það hefur af hálfu andmælinga málsins verið spurt um þörf Reykvíkinga á þessu landi. Í raun og veru spyrja menn hér um það, sem þeir vita, því að í skjölum málsins er þessi nauðsyn rakin ýtarlega. Stærsta ástæðan er sú, að bæinn vantar lönd til ræktunar, og það ætti ekki að standa á Framsfl. að viðurkenna það, að bæjarbúum sé nauðsyn á landi í þessu skyni. Það hefur meira að segja af hálfu þess flokks verið deilt á meiri hl. bæjarstjórnar Rvíkur fyrir það, að þeir sjái ekki bæjarbúum fyrir nægu landi til ræktunar.

Hv. þm. Mýr. hélt því fram, að Reykjavíkubær hefði tugi þús. ha. lands til ræktunar og það væri meira en nokkur borg í heiminum hefði. Út af þessum ummælum get ég sagt það, að eftirspurn eftir landi til ræktunar er nú svo mikil í bænum, að litlar líkur eru til, að þeim verði fullnægt, og þess vegna er það staðreynd, að bæinn vantar þessi lönd. Enn fremur hafa komið fram raddir í bæjarstj. um, að nota beri Korpúlfsstaði til mjólkurframleiðslu fyrir bæjarbúa, og þar að auki vantar bæinn beitilönd fyrir sauðfé, kýr og hesta. Auk þess er viðurkennt, að fyrir kaupstaði, og þá ekki sízt Rvík, sem í býr þriðjungur landsmanna, er nauðsynlegt að geta gripið til landbúnaðarins, ef annað bregzt, auk þess hve mikil hollusta fylgir því fyrir fólk, sem í kaupstöðum býr, að eiga land fyrir utan bæjarrykið.

Á enn aðra ástæðu má og benda, en það er skipulagning bæjarins. T.d. í landi Grafarholts hefur risið upp fjöldi sumarbústaða, en þeir eru byggðir alveg skipulagslaust. Sama sagan er sem sé að endurtaka sig þar, sem í Skildinganesi og Skerjafirði fyrir nokkrum árum. Þar var byggt svo skipulagslaust, að til vandræða horfir nú, en bærinn gat þá engu ráðið í því efni.

Í þriðja lagi vil ég minna á eina ástæðu, en hún er sú, að jarðirnar í nágrenni Rvíkur, og þá sérstaklega Grafarholt, hafa stórhækkað í verði, ekki vegna almennrar verðhækkunar í landinu, heldur eingöngu vegna nábýlisins við Rvík. Verðhækkun á jörðum er með ýmsu móti. Stundum er það vegna almennrar verðhækkunar, stundum vegna skipulagsbreytingar. Hér er það eingöngu vegna nábýlisins við Rvík, enda er því ekki á móti mælt, að þessi gífurlega verðhækkun stafar ekki fyrst og fremst af gæðum jarðarinnar út af fyrir sig, því að hún er alls ekki kostamikil, heldur af því að hún hefur góða aðstöðu vegna nábýlisins við Rvík.

Það er rétt hjá hv. þm. Mýr., að þegar ekki er búið að lögleiða verðhækkunarskatt, er ekki réttlátt að láta slíkan skatt bitna á eiganda einnar einustu jarðar. Um það er ekki hér að tala, heldur á að koma í veg fyrir, að einstakir menn vegna nábýlis við höfuðstaðinn geti tekið miklar tekjur, án þess að þeir á nokkurn hátt hafi til þess unnið.

Því er haldið fram, að lögsagnarumdæmi Rvíkur verði ólöglegt, ef frv. verður samþ. Það er rétt, að í því verða tveir hólmar. Það eru Blíkastaðir og hluti af Lágafelli. En þessu er því til að svara, að það er alls ekki einsdæmi, að lögsagnarumdæmi séu þannig. Það skapast af staðháttum og öðru. T.d. er Seltjarnarneshreppur margar eyjar. Um skeið var hluti af Árbæ og Ártúnum í lögsagnarumdæmi Rvíkur sem eyjar, svo að það er ekkert einsdæmi. Það er vitað, að bærinn mundi ekki geta orðið í næstu framtíð eigandi þessara jarða, og þörf hans er fullnægt með frv., eins og það er, og þess vegna þótti ekki nauðsyn að taka þetta með í frv. En vil benda á, að það er engin frágangssök, þó að lögsagnarumdæmið sé þannig lagað. Það þýðir ekki að fara aðeins eftir linunum á kortinu, heldur verður að fara eftir þörf manna.

Í þessum orðum ætla ég, að ég hafi svarað flestum fyrirspurnum, sem hér hafa komið fram. Þó er ein ádeila á bæjarstj., sem ég vil ekki láta ómótmælt. Það hefur verið borið fram af hendi hv. frsm. minni hl. og hlutaðeigandi hreppsnefndar, að meðferð jarða, sem Rvík á nú þegar, sýni, að henni sé tæplega til þess trúandi að fara með jarðir, þær séu svo illa setnar og ábúð þeirra sé svo léleg, að það sé ekki til fyrirmyndar að veita Rvík meiri lönd. Í þessu efni er aðallega átt við Elliðavatn, að ég ætla. Ég vil upplýsa, að þegar þessi kaup voru gerð, var það í samningnum, að seljandinn mætti búa áfram á jörðinni, og það má vera, að það sé þetta, sem hv. ræðumenn eiga við, þegar þeir eru að tala um, að jörðin hafi verið illa setin eða rækt á þessu tímabili. Það er alls ekki í ádeiluskyni á hann sagt, vegna þess að gæði jarðarinnar áður, sem voru ekki sízt hið mikla engi, hafa nú verið eyðilögð með rafmagnsveitunni og standa nú að miklum hluta undir vatni. Fyrir 11/2–2 árum var jörðin tekin af ábúandanum, og bærinn notar hana síðan. Hann notar hana ekki til búskapar, heldur er ætlazt til, að talsvert af henni fari undir Heiðmörk, og auk þess vil ég geta þess, sem hv. þm. kannske ekki vita, að bærinn rekur þarna hæli fyrir vangæfa menn, sem er undir stjórn geðveikrahælisins á Kleppi, og hefur það orðið til að bæta úr þeim vandræðum, sem eru á að geta komið slíkum mönnum á hæli, sem hefur valdið öllum landshlutum miklum erfiðleikum. Ég vil því alveg vísa því á bug, að hægt sé að finna að meðferð Reykjavíkurbæjar á Elliðavatni. Í fyrsta lagi var það alls ekki tilgangur bæjarins með kaupum á jörðinni að reka þar búskap í gömlum stíl, og möguleikar til þess hlutu að skerðast með rafveitunni. Í öðru lagi á að leggja nokkurn hluta landsins undir Heiðmörk, og í þriðja lagi er rekið þar hæli, og þess vegna er þetta ekkert sambærilegt við þann búskap. sem áður kann að hafa verið rekinn þar.

Ég held, að hv. þm. Mýr. hafi einnig nefnt annað dæmi, Gufunesið, sem sé ekki vel nýtt af bænum, en hafði áður verið stórbýli. Það er rétt, en ég vil benda hv. þd. á, að stór hluti þessarar jarðar, Gufunes, er nú notaður til beitar, en talsverður hluti af henni hefur verið tekinn undir loftskeytastöð, og enn hefur nokkur hluti hennar verið notaður til skemmtistaðar, svo að ekki er þess að vænta frekar en á Elliðavatni, að þarna sé stórbýli að fornum sið.

Af fyrirspurnum, sem fram hafa verið bornar, held ég ekki, að það sé fleira, sem ég á ósvarað. Það hefur komið fram hjá hv. frsm. meiri hl., að bærinn hafi ekki þörf fyrir sand úr Grafarholtslandi, vegna þess að hann eigi nóg byggingarefni. Ég held, að þetta sé ekki rétt. Það má vera, að hann eigi nóg byggingarefni á næstunni, en ef maður hugsar fram í tímann, þá nægir það ekki. En ef bærinn hefði nóg byggingarefni, þó að hann fengi ekki Grafarholt, þá sýnir það, hversu fráleitt er að verðleggja Grafarholtið á 600 þús. kr., sem er byggt á því, að bærinn þurfi að nota sand þaðan. Ég skal ekki segja, hvort það er rétt, ég held, að hann þurfi þess, en þessar tvær röksemdir stangast nokkuð mikið á.

Um þá fyrirspurn, hversu mikill tekjumissir það mundi verða fyrir Mosfellssveit og sýsluna, vil ég taka fram, að auðvitað kemur slíkt og á að koma fram, ef fjárskipti verða milli umræddra sveitarfélaga. Slíkt er venja, þegar l. sem þessi eru samþ., og það er ákveðið í þeim eins og þessu frv., að fjárskipti skuli fara fram. Það verður gert af gerðardómi, sem skipaður verður af hæstarétti, og Reykjavíkurbær greiðir allan kostnað af þessum gerðardómi. Það liggur því ekki fyrir nú, hversu miklu tapi hreppur og sýsla verði fyrir, heldur verður það metið af þessum gerðardómi.

Hjá hv. þm. Ísaf. komu fram sömu dylgjur og hjá hv. þm. N.-M., að hér væri á ferðinni sérhagsmunamál gróðabrallsmanna o.s.frv. Ég skal ekki svara þessum dylgjum mjög, en vil aðeins beina því til d., hvort það sé trúleg saga, sósíalistar beri hag Thor Jensens fyrir brjósti, en Sósfl. styður þetta mál óskiptur. Ég vil spyrja hv. þm. Ísaf., hvort það hafi verið hagsmunir Thors Jensens, sem vöktu fyrir flokksbróður hans, Jóni Axel Péturssyni, þegar hann manna fyrstur beitti sér fyrir þessu máli.

Loks eru svo gífuryrðin um, að hér sé um að ræða freklega ágengni og ósvífni af hendi Reykjavíkurbæjar. Í umr, og nál. hefur þessu verið líkt við ágengni stórveldanna, þegar þau hafa lagt undir sig smáveldi. Það er talað um, að Rvík vilji fá „Lebensraum“. Það mátti ekki minna gagn gera en að líkja vinnubrögðum bæjarstjórnar Rvíkur við herferðir nazista úti í löndum. Það þarf ekki að eyða orðum að því, hvílík feikna fásinna það er, þegar verið er að líkja Rvík við vopnuð stórveldi úti í löndum, sem setja smáríkjunum úrslitakosti og leggja þau síðan undir sig með hervaldi, ef þau ganga ekki í einu og öllu að skilmálum þeirra. Hér er aftur um tvær hliðstæður að ræða, Rvík og Mosfellshrepp, sem samkv. lögum og stjskr. eru jafnrétthá. Þar er spurningin um hagsmuni tveggja sveitarfélaga, sem lögum samkv. eru jafnrétthá. Rvík er ekki hér með ágengni stórvelda að leggja undir sig lönd, heldur leitar hún til Alþ. til að fá dæmt um, hvors hagsmunir krefjast frekar að fá þetta land. Það er mesta blekking og fjarstæða að líkja þessu við ágengni stórvelda og annað slíkt. Hér er um enga hagsmuni að ræða, heldur þörf bæjarins, — við getum kallað það lífsþörf hans. Þetta er borið undir úrskurð Alþ., og það á að dæma í málinu. Ég skal viðurkenna, að samþ. þessa frv. yrði mikil skerðing á hagsmunum Mosfellshrepps og Kjósarsýslu, og ég skil vel, að þetta sé viðkvæmt mál af þeirra hendi, en þar gildir það eilífa lögmál um meiri og minni hagsmuni, sem kemur alls staðar fyrir, að minni hagsmunir verða oft að lúta í lægra haldi fyrir hinum meiri, ekki svo að skilja, að minni hagsmunirnir séu réttlausir, og hér í þessu tilfelli á Mosfellshreppur og Kjósarsýsla að fá fullar bætur eftir mati. Það er algild regla, og um það eru ákvæði í stjskr., að þegar hagsmunir fárra rekast á hagsmuni fjöldans, er heimilt fyrir löggjafann að grípa inn í, og segja: „Það má ekki stöðva eðlilega þróun þeirra mörgu manna af fáum mönnum.“ Í þessu tilfelli verður að meta, hvort Rvík, þar sem 1/3 hluti landsmanna býr, hefur ekki meiri þörf á að fá þetta land til ræktunar og hollustu fyrir borgarana og vegna aðstreymis hingað heldur en hinir tiltölulega mjög svo fáu menn í Mosfellshreppi og Kjósarsýslu.