31.03.1943
Neðri deild: 87. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1290 í B-deild Alþingistíðinda. (2271)

37. mál, lögsagnarumdæmi Reykjavíkur

Bjarni Ásgeirsson:

Herra forseti. — Ég kemst ekki hjá að svara nokkrum orðum hv. frsm. meiri hl., sem nú talaði hér, þó að hann að ýmsu leyti haggaði lítið þeim aðalrökum, sem flutt hafa verið fram gegn þessu máli.

Hann talaði um, að honum fyndist hjákátlegt að tala um hraða í þessu máli, þar sem liðinn væri hálfur annar mánuður, frá því að því var hreyft hér á þingi. Ég benti á, að málið hefði legið niðri um stund, en nú væri kominn á það hundrað mílna hraði. Þetta minnti mig á brimróður hjá sjómönnum, þegar þeir liggja tímunum saman þar, sem lending er slæm, til þess að bíða eftir lagi, og svo taka þeir brimróðurinn með öllum þeim hraða, sem þeir geta sett á bátinn. Það var sá hraði, sem mér virtist sérstaklega koma fram hér. Ég beindi til þeirra. sem betur vissu, hvort þessi brimróður, sem hér er tekinn, væri eitthvað í sambandi við það, að það er vitanlegt, að 2–3 þm., sem kunnugt er, að eru málinu andvígir, eru nú fjarverandi. Það var vitanlegt, að þessi ferð stóð fyrir dyrum hjá þeim, og það vill svo einkennilega til, að þegar er þessir menn eru komnir á skipsfjöl, hafa leyst landfestar og komnir í hæfilega fjarlægð frá þinginu, þá er brimróðurinn tekinn með þeim mesta hraða, sem verða má. Ég óskaði ekki eftir, að málinu væri frestað á sínum tíma. Það er mikill misskilningur hjá hv. frsm. meiri hl., að málinu hafi verið frestað fyrir mitt tilstilli. Það voru aðrir, sem áttu upptök að því, en ég. Hann segir, að það líti út fyrir, að þessi ósk mín, sem aldrei kom frá mér, hafi ekki verið fram borin til að reyna að leysa málið, heldur til að tefja málið og eyðileggja það, vegna þess að það hafi ekki komið fram nein ný tilboð frá Mosfellssveit, sem samkomulag gæti orðið um í málinu. Nú er þetta ekki rétt hjá honum, því að ég bar fram af hálfu hreppsins, að vel gætu komið til mála samningar á þeim grundvelli, að hreppurinn góðfúslega léti frá sér önnur lönd, ef það gæti orðið til þess, að hreppurinn gæti fengið að halda innan vébanda sinna þeim löndum, sem hann leggur mesta áherzlu á að hafa áfram og eðlilegast er, að tilheyri áfram Mosfellssveit, en láta hins vegar af hendi, þó að hann óskaði þess ekki, önnur lönd, sem eru nær Rvík, sem eðlilegra væri, að væru innan lögsagnarumdæmis Rvíkur, en önnur lönd, sem hreppurinn óskaði eftir forkaupsrétti á. til þess að tryggja, að þau væru áfram innan hreppsfélagsins. Þetta er tilboðið, sem fram kom frá okkar hálfu, en hefur ekki verið litið við. Ég tel því, að nú eins og alltaf áður hafi Mosfellshreppur teygt sig eins langt og mögulegt var til samkomulags við hinn volduga nágranna sinn, til þess að málið yrði leyst á viðunandi hátt, en þetta hefur aldrei tekizt, hvorki fyrr eða í þetta skipti.

Þá vil ég minnast á nokkur atriði, sem hv. frsm. meiri hl. færði fram fyrir nauðsyn Rvíkur til að fá inn í lögsagnarumdæmi sitt öll þau lönd, sem hér um ræðir. Hann minntist á Hólm og nauðsyn bæjarins fyrir því að ráða nokkurnveginn yfir þeim löndum, þar sem vatnsveita bæjarins væri og rafveitan líka. Ég held, að það hafi verið hv. 8. þm. Reykv., sem hélt fram á dögunum, að nauðsyn vær í fyrir bæinn að eiga enn þá meira land en hér er farið fram á, t.d. Reykjatorfuna, til þess að hann fengi þar með yfirráð yfir hitaveitulandinu. Ég dreg í efa, að það sé nokkur lífsnauðsyn fyrir bæinn að eignast öll lönd, sem hann að einhverju leyti þarf að nota eða notar efni frá, því að þá færi landsþörf hans að teygjast nokkuð víða. Þá sé ég ekki betur en að með sama rétti mætti segja, að væri nauðsynlegt fyrir bæinn að eignast landið kring um Sogið austur í Árnessýslu til þess að ná undir sig þeim landsréttindum, sem Sogsaflið byggist á. Þannig mætti lengi telja. Það gæti t.d. vel hugsazt, að nauðsynlegt væri fyrir bæinn að eignast námuna vestur á Snæfellsnesi, þar sem vikurinn er, sem notaður er utan um hitaveitupípurnar, Ég vil spyrja hv. frsm. meiri hl., hvort honum finnist ekki ástæða til að bæta við lögsagnarumdæmi Rvíkur jörðinni vestur á Snæfellsnesi, þar sem hin ágæta víkurnáma er, og þannig mætti lengi telja. Ég sé ekki, að það sé nein nauðsyn fyrir bæinn að eiga uppsprettulindirnar, sem hann fær kalda vatnið frá, og ég sé ekki heldur, að hann þurfi að eiga landið, þar sem það vatn er, sem hann ætlar að hita sig með, þar sem hann hefur tryggt sér réttinn til að nota það.

Þá er hv. frsm. að tönnlast á því, sem áður hefur verið talað um, að bærinn hafi keypt Korpúlfsstaðatorfuna. Þetta er nýtt heiti í málinu. Ég veit, að það eru til margar torfur á Korpúlfsstöðum. En það er talað um torfur í þeirri merkingu, að það séu margar jarðir, sem heyri undir sömu jörð. Og að tala um Korpúlfsstaðatorfu í þeirri merkingu er bara vitleysa. Korpúlfsstaðir eru ein sérstök jörð í Mosfellssveit og hefur glögg landamerki eins og aðrar jarðir þar, og þar hefur aldrei fyrr eða síðar verið til nein Korpúlfsstaðatorfa fremur en Lágafellstorfa, Lambhagatorfa eða nein önnur torfa, kennd við eina eða aðra af þeim jörðum, sem nú eiga að tilheyra. þessari Korpúlfsstaðatorfu. Þær eru allar sérstakar jarðir, hver út af fyrir sig, hver með sérstöku nafni, og sér metnar, hver út af fyrir sig, eftir mati fasteignabókar og hafa aldrei tilheyrt neinni torfu. Þetta torfunafn á Korpúlfsstöðum er seinni tíma tilIbúningur til þess að reyna að réttlæta það, að þeir, sem kaupa Korpúlfsstaði, eigi líka forkaupsrétt að öllum þeim jörðum, sem Thor Jensen átti í Mosfellssveit. Þetta nær engri átt. Mosfellssveit hefur fullan rétt til að krefjast forkaupsréttar af hverri einstakri jörð fyrir sig úr þeim jarðaflokki, sem þarna er seldur, án tillits til þess, hvort hann krefst forkaupsréttar af öðrum jörðum þar eða ekki.

Hv. þm. hélt því fram, að Reykjavíkurbær hefði farið að öllu leyti vel að í samningum sínum. Ég kemst því ekki hjá að rifja upp sögu þessa máls til þess að sýna, hvort það er rétt hjá hv. frsm., að Reykjavíkurbær hafi ekki sýnt hinn minnsta yfirgang í þessu máli. Þegar Mosfellshreppur krafðist forkaupsréttar á löndum þessum, komu bein tilmæli frá borgarstjóranurn í Rvík um, að reynt yrði að semja friðsamlega um málið. Þetta varð til þess, að Mosfellshreppur frestaði kröfu sinni um forkaupsrétt, en reyndi að fara samkomulagsleiðina og tók upp þá samninga, sem stóðu yfir mest allt s.l. sumar, aðallega vegna dráttar hjá bænum um að framkvæma ýmis atriði í sambandi við úrlausn málsins. Ef enginn samkomulagsgrundvöllur hefði verið til, var engin ástæða fyrir bæinn að biðja um samninga, en orð höfðu verið látin falla af hálfu bæjarvalda Rvíkur, að grundvöllurinn væri til, og m.a.s. nefnd ýmis atriði, sem kæmu til greina, m.a. það, að bænum yrði gefinn kostur á að eignast Grafarholtið. Allt þetta var rannsakað nákvæmlega af hálfu Mosfellshrepps og reynt að bú á í haginn fyrir samkomulag, en eftir allan þennan drátt, þegar komið er fram á vetur, slítur Rvíkurbær samkomulagstilraunum, hleypur frá málinu og kastar því inn á Alþ.

Ég tel, að það sé langur vegur frá því, að ekki hafi verið samkomulagsgrundvöllur fyrir hendi, en ég hygg, að það sé annað, sem mjög hafi vantað, og það var samkomulagsvilji af hálfu Rvíkur.

Hv. þm. talaði mikið um, að það, sem hefði valdið úrslitum og verið aðalþröskuldurinn, hefði verið hið háa verð á Grafarholti. Hann sagði. að n. manna, — hann sagði af öllum flokkum —, hefði komizt að þeirri niðurstöðu, að það mundi mega bjóða í það 150 þús. kr. Einn af mönnunum, sem hv. þm. átti við, Jens Hólmgeirsson, var þá ekki í bænum, en hvort skipaður var maður í hans stað, veit ég ekki, en það er rétt., að n. felldi þann dóm, að hæfilegt verð væri 150 þús. kr.

Hv. frsm. lét svo sem það verð, sem eigandi Grafarholts setti upp, 600 þús. kr., væri fjarstæða ein, og vitnaði í fasteignamatið. En fasteignamatið sannar ekkert. Ef hv. þm. vildu bera saman fasteignamat á jörðum, sem Rvík hefur bæði keypt og gerir samninga um, mundu þeir finna, að þar er ekki öllu minni munur á fasteignamati og kaupverði en í þessu tilfelli. Sannleikurinn er, að munurinn er orðinn geysimikill. Hitt, hlýtur hv. frsm. að skilja, að sú dýrtíðarfylgja, sem riðið hefur yfir og hefur svo mjög komið fram í verðhækkun á löndum og lóðum. kemur eðlilega mest fram á jörðum í nágrenni kaupstaða, og því er ekki undarlegt, þó að Grafarholtið hafi hækkað meir en aðrar jarðir, sem fjær liggja þeirri miðstöð, sem Rvík er, og ég hef fært rök að því áður, að vegna þess verðlags, sem nú er, er það engin fjarstæða, sem eigandi Grafarholts setur upp. Það er ekki meira en það, sem jörðin rentar sig fyrir í höndunum á honum. Þó að frsm. vildi halda því fram, að tilboð, sem lá fyrir um kaup á Grafarholti af hendi óviðkomandi manns, hafi verið gert til að sýnast, er það alrangt. Ég hef haft aðstöðu til að kynna mér tilboðið. Það hefur verið lagt fram í þinginu, og það mun sannast á sínum tíma, að þetta kaupverð er raunverulegt, enda ekki líkur til, að Rvík geti orðið eigandi að Grafarholti fyrir minna verð, svo að hið háa verð var í sjálfu sér engin afsökun fyrir Rvíkurbæ fyrir að hlaupa frá þeim samningum, sem hafnir voru, því að enda þótt þessi leið lánist, mun koma í ljós, að bærinn fær ekki Grafarholt fyrir minna verð.

Ég get verið hv. þm. sammála um, að það getur verið hentugt fyrir bæjar- og sveitarfélög að eignast sem mest af þeim löndum, sem bæirnir standa á. En ég hygg, að Rvík ætti að byrja nær sér en þetta, því að ég veit ekki betur en að enn sé mikill fjöldi landareigna í bænum í eigu einstakra manna. En þó að nauðsynlegt væri, eins og hv. þm. segir, að Rvík eignaðist meira en hún á nú utan lögsagnarumdæmis síns, m.a. í þeim tilgangi, sem hv. þm. minntist á, er ekki rannsakað hvaða lönd lægi opnast fyrir, að bærinn eignaðist, og ég hef þá skoðun, að það séu mörg önnur lönd, sem bænum er miklu meiri nauðsyn að fá en lönd efst uppi í Mosfellssveit, Varmá og Lágafell. Þess vegna förum við fram á, að Alþ. hraði sér ekki að afgreiða málið á þessu stigi, heldur gefi sér tóm til að láta óvilhalla menn rannsaka, hvaða lönd Rvík sem nauðsynlegust og komi henni að mestum notum. Ég er sannfærður um, að lönd t.d. í Fossvogi eru miklu sjálfsagðari.

Mosfellshreppur leggur svo mikla áherzlu á að fá að halda þessum löndum, að hann hefur gert Rvík hvert tilboðið á fætur öðru til að reyna að fá hana til að sleppa þeim, einkum Varmá og Lágafelli. Að missa þau mundi torvelda hreppnum mjög að starfa áfram sem sérstakt hreppsfélag. Ég vil mjög eindregið vísa á bug þeirri aðdróttun frsm. meiri hl., að mótstaða hreppsins sé sprottin af fjandskap gegn Rvík og skilningsleysi á þörfum hennar til að eignast nægilegt land. Ég tel, að hreppurinn hafi sýnt fullan skilning til að leysa þetta mál, og það þó að hann yrði að fórna miklu, eins og þau tilboð sýna, sem liggja fyrir, þegar hreppurinn vill ganga að því, að tekin verði af honum lönd, eins og Gufunes, Korpúlfsstaðir og jafnvel Grafarholt, og eru sum þeirra stærstu jarðir Mosfellshrepps, sem hafa gefið hvað mestar tekjur í sveitarsjóðinn. Allt þetta vill hreppurinn leggja í sölurnar til samkomulags.

Ég neita því ekki, að Rvík þarfnist meira lands en hún hefur, en ég tel engar sannanir fyrir því, að henni sé svo bráð nauðsyn nú þegar að eignast Varmána, Lágafellið og Lambhagann, að það sé afsakanlegt, að bærinn neyti þess þingvalds, sem hann kann að hafa til að taka þessar jarðir með l., þrátt fyrir hörð mótmæli Mosfellshrepps, sem þó er búinn að gangast inn á að sleppa stærri löndum en þessum til lausnar málinu. Hér er eitthvað annað á bak við en nauðsyn bæjarins. Ekkert landhungur getur verið um að ræða fyrir Rvík, ef þau lönd, sem bærinn á völ á illindalaust, eru þegin.

Hv. þm. kunni því illa, að aðferð bæjarins væri líkt við aðfarir stórveldanna. Í því sambandi sagði hann, að stórveldi legðu undir sig lönd með báli og brandi, en hér ætti bara Alþ. að skera úr. Það er vitanlegt, að mismunandi aðferðir koma til greina. En þessi andi í garð Mosfellshrepps er ekki öðruvísi en þar, sem um ofbeldi og yfirgang er að ræða.

Hv. þm. talaði mikið um, að sú regla gilti hér sem alls staðar annars staðar, að minni hagsmunir yrðu að lúta fyrir hinum meiri. En ég vil láta sanna það, að raunverulegir hagsmunir séu á bak við þetta, sem geri það nauðsynlegt að eyðileggja til hálfs eða fulls veikan nágranna. Það skyldi ekki vera, að hér væri það minni máttur, sem hér yrði að víkja fyrir meiri mætti.

Ég vil að lokum beina því til hæstv. forseta, hvort ekki sé ástæða til að taka til athugunar, hvort í þessu frv. felist ekki ákvæði, sem verði að teljast nærgöngul við stjskr. Það er farið fram á að svipta Mosfellshrepp rétti, sem hann hefur nú samkv. l. um að neyta forkaupsréttar á vissum löndum. Þegar hreppurinn er búinn að ákveða að nota þennan rétt, er hlaupið til að reyna að taka hann af honum með l. Ég vil í þessu sambandi lesa upp nokkrar línur úr álitsgerð sýslunefndar Kjósarsýslu. Bergur Jónsson, sem er mjög reyndur lögfræðingur, segir f.h. sýslun.: „Verður ekki betur séð en að hér stappi mjög nærri stjórnarskrárbroti, ef það er ekki beinlínis tvímælalaust. Að vísu skal eigi lagður dómur á það hér, hver úrslit þess máls yrðu, en hitt er tvímælalaust, að Mosfellshr. á skýlausa kröfu til þess að fá úr því skorið af dómstólum, hvort forkaupsréttarkrafa hans er lögleg. Mun það sennilega einsdæmi í löggjöf hér á landi, að hindrað sé með ofríki í lagasetningu, að menn fái skorið úr rétti sínum samkvæmt lagasetningu. Er því treyst, að Alþ. fari eigi að nauðsynjalausu að taka upp slíka löggjafaraðferð.“

Ég vil vænta þess, að forseti felli úrskurð um, hvort ekki sé ástæða til að vísa málinu frá vegna þessa atriðis. Ég óska þessa úrskurðar, þegar málið verður næst tekið fyrir.