15.03.1943
Neðri deild: 75. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1329 í B-deild Alþingistíðinda. (2384)

145. mál, tollskrá o.fl.

Frsm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Ég vil aðeins minna á það, að þessi deila um það, hvort eigi að gera mun á innfluttu hráefni og fullunninni iðnaðarvöru, þegar um toll er að ræða, er ekki ný. Þessi sama deila stóð í sama máli á þingi 1940, því að þá var deilt um það, hvort það ætti að endurgreiða alla tolla af kassaefni eða bara af því ótilhöggnu, og úrskurður þingsins var eindreginn í þá átt, að það ætti að gera mun á þessu til þess að vernda íslenzkan iðnað, og þó var ódýrara þá að búa til trékassa en nú er. Þessi tollur, 8%, er einhver lægsti verndartollur, sem til er hjá okkur, og hlutfallslega við vinnulaunin er hann hverfandi, þar sem þau hafa hækkað svo gífurlega, en það er gefið, að verndartollur verður einhver að vera, og í þessu tilfelli er hann svo lágur, að hann getur ekki verið lægri. Ég vil undirstrika það, að þessi deila er ekki ný, að útflytjendur fá í sambandi við þetta stórkostlega lækkun á umbúðum, eða sem nemur ekki minna en 200 kr. á tonn.