19.12.1942
Efri deild: 21. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 83 í B-deild Alþingistíðinda. (240)

85. mál, dómnefnd í verðlagsmálum

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Frv. þetta hefur farið á skömmum tíma gegnum hv. Nd. og mætt óvenjulegri mildi þar. Aðalorsök til þess mun vera sú, að það er barið fram af hinni nýju stj. Umr., sem fram hafa farið, bera það með sér, að hér er um að ræða fyrstu göngu barns, sem varla kann að staulast, og því er ef til vill ekki rétt að bregða fæti fyrir það ef það kynni að geta orðið til þess, að um yrði bætt í framtíðinni. Þó þykir mér hlýða að benda á nokkrar hættur, sem orðið gætu á vegi þessa hvítvoðungs, til þess að frekar væri hægt að varast þær. Ég vil þá fyrst minna á það, að l. frá 29. maí þessa árs voru sett til að ná sama marki, en það brást fyrir þegnskaparleysi ákveðinnar og allstórrar stéttar. 3. gr. þessara l. fékk ekki staðizt nema til sumarþingsins, þar eð það var yfirleitt skoðun þm., að ekki yrði komizt hjá að afnema hana til að fyrirbyggja þá þjóðarsmán að hafa í gildi 1., sem voru þverbrotin, af því að ákveðinn hópur manna, neitaði að hegða sér eftir þeim. En það var ekki látið sitja við að afnema þetta atriði. Hv. Alþ. gekk en lengra. Það bætti inn í l. nýju atriði, þar sem leyft er að rjúfa gerða samninga. Það var bent á það þá hér í hv. d., að það kynni að koma afturkast og þetta kynni að verða þeim að fótakefli, sem fyrir því gengust, og ég held, að það muni koma á daginn. Það má öllum vera ljóst, að dýrtíðin verður ekki yfirunnin nema með sameiginlegum fórnum allra stétta. En þau l., sem hér ræðir um, miðast ekki að því, heldur er þar fórnunum velt yfir á eina ákveðna stétt manna. Ég tel að vísu ekkert á móti því, að þessi stétt fórni nokkru, því að henni hefur áskotnazt mikið fé að undanförnu. En mér finnst það ekki rétt, að öðrum stéttum sé með öllu sleppt við fórnirnar. Mér þykir þetta því undarlegra sem afstaða hæstv. fjmrh. var öll önnur á ráðherrafundi nýlega, þar sem ég var viðstaddur. Þar kom það fram, að Sjálfstæðisfl. var reiðubúinn að leggja miklar byrðar á þessa stétt, ef það yrði þá látið ganga jafnt yfir aðrar stéttir. Núverandi hæstv. fjmrh. reis þá manna hæst og kvað ómögulegt að fallast á, að þessi eina stétt taki á sig blóðfórn eins og þá, sem hér er um að ræða. Enda er auðséð, að þetta frv., ef það nær fram að ganga, getur orðið til að skapa öngþveiti eins og það, sem ríkti fyrir vinnulöggjöfina. Hæstv. fjmrh. hlýtur að vera ljóst, að vörur, sem koma inn í landið á næstunni, verður ekki hægt að selja með sömu álagningu og áður, þar sem kostnaður við mannahald og innkaup hefur aukizt. Ég er ekki að tala um silkisokka eða glerkýr, heldur kol og slíkar vörur, sem innflytjendur geta ekki tekið á sig að flytja til landsins, ef þeir sjá sér ekki fært að selja þær öðruvísi en með tapi. Sama máli gegnir um alls konar viðgerðir. Einnig á því sviði hefur kostnaður hækkað, og þeir, sem þær annast, yrðu því að taka af sínum ágóða, ég veit ekki, hve mikið, en það gæti komizt á það stig, að þeir kysu heldur að framkvæma engar viðgerðir, er þeir fyndu, að fórnunum væri velt einhliða yfir á þeirra bak. Ég hlustaði á hæstv. forsrh. lýsa stefnu ríkisstj. nú fyrir skömmu, og hann taldi höfuðverkefni hennar að sporna við aukningu dýrtíðarinnar. Ég lít líka svo á, að þetta sé fyrir öllu. En mér skildist líka hæstv. ríkisstj. setja sér það mark að koma atvinnuvegum landsmanna á heilbrigðan grundvöll. Nú er öllum ljóst, sem til málsins þekkja, að til þess að þetta sé framkvæmanlegt, verða fyrst og fremst grunnlaun verkamanna og verkakvenna, sem vinna við íshúsin, að fara niður í það, sem var fyrir 1. júlí, og vísitalan að fara niður í 182, því að þessi atvinnuvegur er einn af þeim meginstoðum, sem halda uppi útflutningnum. Ég vil því spyrja hæstv. rh., hvort í ráði sé að hækka grunnkaup og vísitölu þannig, að þessir atvinnuvegir geti komizt í lag og hægt sé að skapa þjóðinni trygga útflutningsmöguleika. Ef hæstv. ríkisstj. hefði lögfest vísitöluna í 182 stigum, þá hefði þessu frv. tvímælalaust verið tekið með meiri gleði en nú er. Sú stétt, sem um er að ræða, hefði tekið á sig byrðarnar með meiri fúsleik. En vegna þeirra yfirsjónar að gera þetta ekki, er hætta á, að þessar ráðstafanir nái alls ekki þeim tilgangi, sem þeim er ætlað að ná.

Ég vænti þess að fá um þetta hrein og ótvíræð svör.

Mér þykir rétt í sambandi við þetta að upplýsa, hve mikil sú fórn yrði af hálfu launastéttanna í landinu, ef þær einnig yrðu látnar taka á sig þær byrðar, sem nauðsynlegar eru í viðreisnarstarfinu. Með því að miða við 250 kr. grunnlaun þá yrði upphæðin á hvern aðila 30 kr. á mánuði. Ef íslenzka þjóðin býst ekki við svo stórum fórnum til þess að rétta við hag landsmanna, þá verð ég að segja, að hún geri ekki ráð fyrir miklum erfiðleikum framundan. Og vil ég benda á, að allar þessar stéttir hafa fengið þetta frá 25–50% grunnlauna hækkun og verðlagsuppbót á það með l. frá Alþ. Mér finnst það ekki ósanngjarnt, að einnig þessar stéttir, launastéttirnar í landinu, fái sinn skerf, er þjóðin þarf á því að halda, og á þann hátt einan, að allir taki þátt í þeim erfiðleikum, er þjóðfélagið á við að búa, er hægt að komast hjá því, að reipdráttur og metingur stétta á milli skapist, er það kemur til framkvæmda, er í frv. felst. Og í sambandi við þetta mál vil ég eindregið leiða athygli hv. þm. að þessu, hvort þetta frv., þegar það verður að l., verður ekki til þess að skapa ófrið, smáskæruhernað, sem við könnumst vel við úr okkar þjóðfélagi. Við þurfum ekki að líta langt til baka til að sjá, hvað það var, sem eyðilagði gerðardóminn (BSt: Það voru gæsaveiðarnar). Nei, það var allt annað þar á bak við.

Þá vil ég og benda á, að þessi l. munu koma til með að hafa ekki svo lítil áhrif á þá smæstu í þessum bæ, er reka smáiðnað og kaupa þurfa vinnuafl og ef gróðinn er svo mikill hjá verzlunum almennt á þeim vörutegundum, er undir dómn. heyra, að það verður ekki tilfinnanlegt að selja vöruna eftir verðfestingu þá, sem með frv. þessu á að ganga í gildi, þá hefði dómn. leyft að leggja of mikið á vörurnar, og er það þungur dómur, ef svo væri. Ef þessu væri ekki til að dreifa, verða þeir aðilar sjálfir að taka á sig skaðann eða þá að hætta og stöðva sölu sínu og fá út úr því algert öngþveiti viðskiptanna eða þá í þriðja lagi að leggja út í smáskæruhernað, sem ég býst við, að enginn mundi óska eftir í þjóðfélagi voru enn á ný.

Ég hlustaði á umr. í Nd. um afnám síðasta liðs 1. gr. og þá till., er vakti umr. um það. Ég verð að segja, að mér finnst lítið unnið við þá brtt., er hv. 7. þm. Reykv. kom með eftir þá yfirlýsingu hæstv. atvmrh., er hann gaf þar, þó ber því ekki að neita, að þeir, sem ekki vilja láta það sjást í l. að hafa verið undir sömu ákvæði settir, að það lýsir ekki miklum fórnarhug. En þó að hæstv. atvmrh. setti það skilyrði m.a., að grunnlaun hækkuðu ekki á þessum tíma, þá er það vitað mál, að þau hækka ekki um áramótin. Hitt er vafamál, hvort betra er að fá yfir sig stríð um kauphækkun frá hendi þeirra manna, er þurfa að kaupa vinnukraft. Ég veit ekki, hvort sú barátta er neitt hollari en ef alþýðufólkið í landinu hefði einnig í þessu tilliti tekið á sig byrðina líka. — Ég er ekki að segja, að atvinnurekendur séu að færast undan eða ætli að færast undan þeirri skyldu, er á herðum þeirra hvílir, sem þegna í þjóðfélagi voru, en ég er í vafa um, að þeir taki það gott og gilt að þurfa einir að standa undir þeirri byrði, sem þjóðin öll á að standa saman um að bera.

Ég vil svo taka það fram, að ég ræði þetta mál aðeins frá mínu sjónarmiði, en ekki flokksins. Form. Sjálfstfl., (ÓTh), ræddi þetta sama mál í Nd. í dag og gat þá um sjónarmið flokksins. En ég hef talið mér skylt að ræða þetta mál á þann veg, sem ég hef nú gert, vegna þess að ég veit, að hæstv. fjmrh. hefur ekki athugað alla þá erfiðleika, er hann kannske þarf að stíga í þessu máli, en það má hæstv. fjmrh. vita, að sú stétt, sem á með frv. þessu að bera þunga þeirra ráðstafana, sem gera þarf, er á engan hátt að færast undan honum, ef hún sér, að öðrum þegnum þjóðfélagsins er og gert það skylt að taka á sig þá erfiðleika, er öllu þjóðfélaginu mætir um þessar mundir.