07.12.1942
Neðri deild: 10. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 22 í C-deild Alþingistíðinda. (2464)

30. mál, einkasala á bifreiðum

Flm. (Sigurður Þórðarson):

Herra forseti. Frv. þetta, sem hér liggur fyrir á þskj. 41, er um einkasölu á bifreiðum, bifhjólum, hjólbörðum, hjólbarðaslöngum og um úthlutun bifreiða.

Eins og kunnugt er, var með l. nr. 30 9. jan. 1935 ríkisstj. veitt heimild til einkasölu á bifreiðum með meiru. Samkv. þessum heimildarl. var Bifreiðaeinkasala ríkisins sett á stofn með reglugerð frá 26. apríl 1935 og tók til starfa 1. maí það ár.

Bifreiðaeinkasalan hefur starfað óslitið siðan og til 25. sept. s.l., að reglugerðin um starfsemi hennar var úr gildi felld. Frá þeim tíma tók skilanefnd, skipuð af fjmrh., við stjórn einkasölunnar. Hætti þá einkasalan að kaupa inn vörur og hefur frá þeim tíma aðeins selt vörubirgðir sínar, er fyrir voru og hún átti hér heima og erlendis.

Á síðasta Alþ. var borið fram frv. til l. um að leggja niður Bifreiðaeinkasölu ríkisins. Frv. þetta náði ekki fram að ganga. Mun Alþ. hafa litið svo á, að slík ráðstöfun væri ekki heppileg, eins og á stóð, þar sem þessar einkasöluvörur, bílar og hjólbarðar, eru nú ófáanlegar á erlendum markaði, án þess að hið opinbera annist um þau kaup.

Í þau 7 ár, sem bifreiðaeinkasalan hefur starfað, hefur rekstur hennar gengið vel, og hefur hún skilað álitlegum hagnaði til ríkis og bæjar- og sýslufélaga.

Á síðustu tímum hefur bifreiðaeinkasalan ekki getað fullnægt bílaþörf landsmanna. Hefur þá úthlutun bíla sætt mikilli gagnrýni, einkum eftir það, að núv. hæstv. fjmrh. tók bílaúthlutunina að mestu í sínar hendur. Síðasta Alþ. afgreiddi þál. um úthlutun bifreiða, sem í fyrsta lagi sagði mjög ákveðið fyrir um það, hvaða reglum bílaúthlutunin ætti að lúta, og í annan stað sýndi þál. þessi tvímælalausan vilja Alþ. um það, að bifreiðaeinkasalan skyldi halda störfum sínum áfram.

Hæstv. fjmrh. hefur enga opinbera greinargerð látið í té til skýringar þeirri ráðstöfun sinni að leggja niður Bifreiðaeinkasölu ríkisins og ráðstafa sjálfur þeim bifreiðum, sem Alþ. ákvað, að gert skyldi af þar til kjörinni n. Þetta er í stuttu máli saga málsins.

Frv. þetta er fram komið í tilefni af þeim atburðum, er gerzt hafa í þessum málum, eftir að síðasta Alþ. lauk, þar sem lögð hefur verið niður 13ifreiðaeinkasala ríkisins, og þar með gengið á snið við fyrirmæli síðasta þings um úthlutun á bifreiðum einkasölunnar.

Frv. þessu, ef að l. verður, er ætlað að tryggja endurreisn og áframhaldandi starfsemi einkasölunnar. Jafnframt er því ætlað að tryggja það fyrirkomulag um úthlutun innfluttra bifreiða, er síðasta Alþ. ákvað.

Loks verður að teljast nauðsynlegt, að löggjöf verði sett um þessi atriði, er þannig sé úr garði gerð, að tryggt sé, að sú meðferð þessara mála, er nú hefur verið um skeið, endurtaki sig ekki.

Með tilvísun til alls þessa má því fullyrða, að frv. þetta sé aðeins staðfesting á gerðum og yfirlýstum vilja síðasta Alþ.

I. kafli frv. þessa er mjög samhljóða heimildarl. frá 9. jan. 1935 og reglugerðinni frá 26. apríl s.á. Þó er sú efnisbreyt. í þessum kafla frv., að í stað heimildarl. komi l., er tryggi það, að Alþ. eitt ákveði, hvort einkasala á bifreiðum skuli rekin eða ekki. Virðist ekki ástæða til, að lausari ákvæði gildi um þessa einkasölu en aðrar, þær er nú starfa samkv. sérstökum lögum.

Il. kafli frv. er um úthlutun þeirra bifreiða, sem fluttar eru og fluttar verða til landsins. Þessi kafli er efnislega í fullu samræmi við þál. þá, er samþ. var í Sþ. 1. sept. s.l. með 28 atkv. gegn 7. Þó gerir sú þál. ráð fyrir, að allt að 2/3 hlutar innfluttra fólksbíla fari til atvinnubílstjóra og bílastöðva, en með því að þetta virðist eiga betur við sem starfsregla en lagafyrirmæli, er það ekki tekið hér upp í frv.

Um nauðsyn þess, að aðalákvæði þál. fái lagagildi, vísast til grg. þeirrar, er fylgdi þáltill. á sumarþinginu, og svo skýrslu þeirrar, er úthlutunarnefnd bifreiða, er kosin var á sumarþinginu, hefur sent Alþ.

III. kafli þarf engra skýringa við.

Um ákvæði til bráðabirgða er það að segja, að það er til þess ætlazt, að bifreiðaeinkasalan verði endurreist í stað þess að stofna nýja einkasölu á grundvelli hinna nýju l. Mundi sú ráðstöfun ekki valda neinum truflunum á almennum viðskiptum, þar sem engir aðrir innflytjendur hafa enn hafið innflutning á þeim vörum, sem einkasalan verzlaði með, sem m.a. mun stafa af því, að hér er um að ræða vörur, sem ekki eru fáanlegar erlendis fyrir milligöngu einkafyrirtækja eftir venjulegum viðskiptaleiðum. Enn fremur skal á það benda, að enn er starfsemi bifreiðaeinkasölunnar á því stigi, að um stöðvun fyrirtækisins er tæplega hægt að tala enn sem komið er, heldur aðeins truflun, sem útilokar ekki áframhaldandi starf einkasölunnar, ef Alþ. fellst á að endurreisa hana.

Vona ég svo, að frv. þetta fái skjóta og góða afgreiðslu Alþ. Óska ég, að því verði, að þessari umr. lokinni, vísað til 2. umr. og fjhn.