27.01.1943
Neðri deild: 43. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 43 í C-deild Alþingistíðinda. (2494)

30. mál, einkasala á bifreiðum

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Það hafa þegar orðið allmiklar umr. um þetta mál, enda er að því komið, að það fari úr d. eða verði fellt. Ég hefði nú Maldið, að það næði ekki fram að ganga, því að jafnvel þm., sem í eðli sínu eru fylgjandi einkasölufyrirkomulagi, eru ekki fylgjandi því, að bifreiðaeinkasalan haldi áfram, eins og nú standa sakir. Það er öllum vitanlegt, að á næstunni verða ekki fluttar inn bifreiðar, svo að neinu nemi. Hvers vegna vilja þá sumir þm. halda einkasölunni áfram? Er það til þess að geta haldið því fólki, sem þar hefur starfað, á fullum launum hjá ríkissjóði, þó að ekki sé verkefni til fyrir það? Ég vil ekki gera svo lítið úr því fólki að ætla, að það geti ekki fengið sér atvinnu annars staðar.

Hv. þm. V.-Húnv. reyndi að andæfa till. okkar þm. A.-Húnv. Hún er um það, að skilanefnd megi starfa, meðan reikningsskil fara fram, svo að það komi skýrt í ljós, hvernig einkasalan hefur verið rekin. Ég get ekki ímyndað mér, ef allt er í lagi hjá fyrirtækinu, að það taki svo langan tíma að koma reikningunum í lag. Það ætti hv. þm. V.-Húnv. að vita. Það verður að ætlast til, að fyrirtæki, sem hefur jafnmikla umsetningu og bifreiðaeinkasalan hafði, hafi bókhald sitt í sæmilegu lagi.

Ég vil nota orð eins hv. þm. hér og segja, að mér þykir gaman að sjá, hvaða þm. það verða, sem greiða atkv. með því, að bifreiðaeinkasala verði stofnsett, vitandi það, að fyrirtækið mundi ekki á næstu mánuðum fá neitt. verulegt af vörum til að verzla með. Er það í gustukaskyni við það fólk, sem vann hjá einkasölunni? Ég álít, að margt af því sé svo verkfært fólk, að það geti séð fyrir sér, þó að ríkið fæði það ekki og klæði án þess að fá því nægilegt verkefni.

Um brtt. hv. þm. N.-Þ. vil ég segja það, að hún er alveg fráleit, sérstaklega af því, að hún kemur frá þm. sveitakjördæmis. Þar er farið fram á það að gefa bifreiðarstjórafélögum hér í bæ tækifæri til að tilnefna mann í úthlutunarn. Með því að gefa þeim of mikil áhrif er verið að vinna að því, að dreifbýlið verði afskipt um úthlutun bifreiða, enda er það sízt í Rvík, sem vantar bifreiðar. Það er úti um landið, seni vantar bifreiðar, einkum vörubifreiðar. Það eru fyrirtæki, sem liggja langt frá höfnum og þurfa að flytja afurðir bænda langa vegu, sem nú verða að sitja fyrir. Hjá þeim slitna bílarnir mest og endast stytzt. En ég er vantrúaður á, að stéttarfélög bifreiðarstjóra í Rvík hafi þann rétta skilning á þessu, og því er ég andvígur brtt. hv. þm. N.-Þ.

Ég ætla ekki að lengja mál mitt miklu meira. Bifreiðaeinkasala er ekki til neins sóma né gagns, og ekki heldur til tekjuauka fyrir ríkissjóð. Fskj. með frv. ber það með sér, að ekki er um stórar tekjur að ræða fyrir ríkissjóð, enda vil ég benda á, að það er undirstaða allrar verzlunar, að innkaupin séu góð. Nú fer orð af því, að innkaupin hjá bifreiðaeinkasölunni hafi ekki verið hagstæð. Þegar keyptar eru hundrað bifreiðar í einu, skyldi maður ætla, að hægt væri að ná betri kjörum en fyrir einstaka bifreið. Samt þekki ég dæmi þess, að maður, sem keypti sér bifreið í Ameríku, fékk hana fyrir lægra verð en ef hann hefði keypt hana hjá einkasölunni með tollum, fragt og hæfilegu gjaldi til einkasölunnar. Þetta sannar, að Bifreiðaeinkasalan hefur ekki náð hagkvæmum kaupum, og hefur því ekki leyst þá skyldu, sem hverju verzlunarfyrirtæki ber að inna af hendi. Með frjálsri sölu á bifreiðum hefði mátt ná meiri tekjum í ríkissjóð, um leið og einstaklingum var gefinn möguleiki til þess að fá ódýrari vöru.

Einkasalan hefur líka brugðizt því hlutverki sínu að fækka bifreiðategundum. Það voru 75 tegundir í landinu, þegar hún var sett á stofn, en eru nú 102. En það er alkunna, að aðalrök þeirra, sem mæltu með stofnun einkasölunnar, voru, að tegundunum mundi fækka og hægara yrði að fá varahluti.

Nú munu umr. líklega fara að styttast, og mun alþjóð því fá að sjá, hverjir það eru, sem vilja halda áfram að hafa starfsfólk einkasölunnar á fullum launum hjá ríkinu, þótt ekkert verkefni sé fyrir það.