12.03.1943
Neðri deild: 74. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 92 í C-deild Alþingistíðinda. (2578)

108. mál, sala á spildu úr Neslandi í Selvogi

Gísli Sveinsson:

Það má segja, að það sé að bera í bakkafullan lækinn að ræða frekar um þetta margra ára þrætumál, en út af ummælum, sem hér hafa fallið, vildi ég þó segja fáein orð. Ég verð þá fyrst að segja, að þegar farið er að tala um landsfeður og landsníðinga í þessu sambandi, þá er ég ekki alveg með á nótunum. Ég þekki talsvert til landauðnar og þess, hvernig hún fer fram, og mér er nær að halda, að það sé rétt, sem á hefur verið bent, að hím stafi ekki alltaf af búfénaði. En ef fara á að hafa það að einhverri grýlu á Alþ., að menn rækti búfé og hafi fjárbeit, þá þykir mér skörin vera farin að færast upp í bekkinn, því að búfjáreign hefur til þessa ekki að jafnaði verið talin landsmönnum hættuleg. Okkur hefur alltaf verið ljóst hér á Alþ., að málið hefur ekki eingöngu verið sótt af kappi, heldur og varið af ofsa. Mér er kunnugt um þann ágæta bónda, sem þarna býr, að hann hefur verið kappsmaður frá bernsku, enda búandi góður, og er það viðurkennt af andstæðingum hans. En ekki er hann einn um kappsemd í málafylgju. Ég vil ekki áfella þann mann, sem er í þjónustu hins opinbera og sótt hefur málið einna fastast frá hinni hliðinni, en því verður þó ekki neitað, að frá þeirri hlið hafa fallið ýmis orð, sem verið hafa nokkuð ofsakennd og telja má ofsögð. Ég vil taka undir með hv. þm. Borgf. um það, að nokkuð muni vera að marka orð hv. 1. þm. Árn., sem er maður kunnugur þarna um slóðir. Ef ég væri málinu alveg ókunnugur, mundi ég helzt taka mark á þeim mönnum, sem eru úr héraðinu. Hinir benda raunar á búnaðarþingið og búnaðarsambandið. En eru þeir aðilar kvaddir til að vita betur í þessu máli en menn, sem sjálfir eru úr Árnessýslu? Ég sé ekki, að búnaðarþingsmenn séu meira virði en alþm. né búnaðarþing meira virði en Alþ., jafnvel í búnaðarmálum. Á búnaðarþingi var að vísu lögð fram till. í þessu máli og samþ., en í þeirri staðreynd, að till. er samþ., þarf vitanlega ekki að felast nein trygging fyrir sérþekkingu. Mér virðist málið nú komið í það horf, að sæmilega ætti að vera séð fyrir því, að ekki yrði rasað um ráð fram, þó að þessi till. næði fram að ganga. Sá varnagli er sleginn, að tryggt sé, að óvilhallir menn fjalli hér um. Það eiga ekki að vera neinir flokkamenn, heldur dómkvaddir menn, sem óhætt á að vera að treysta til hlutleysis. Þá ber og að gera ráð fyrir því, að þess verði gætt, að þeir menn verði efninu kunnugir og viti á því full skil. Ég fyrir mitt leyti mun því láta skeika að sköpuðu og telja mér óhætt að fylgja málinu að þessari merkjalínu, sem hér hefur verið dregin.