11.01.1943
Neðri deild: 29. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 98 í C-deild Alþingistíðinda. (2587)

31. mál, alþýðutryggingar

Skúli Guðmundsson:

Eins og fram er tekið í grg., sem fylgir þessu frv. mínu, hefur Alþ. áður samþ. og sett lög um það, að starfsmenn ýmissa stofnana séu undanþegnir því að greiða iðgjöld í Lífeyrissjóð Íslands. Í frv. er farið fram á, að starfsmenn samvinnufélaganna, sem stofnað hafa lífeyrissjóð á sama hátt, losni við að greiða iðgjöld til sjóðsins. Hv. allshn. hefur ekki talið sér fært að mæla með frv., og eru mér það vonbrigði, að hún skuli ekki vilja stuðla að því, að þetta misrétti hverfi sem fyrst úr sögunni. Ég vil leggja til, að d. felli þá rökst. dagskrá, sem fram er komin, og greiði atkv. með frv.

Hitt er rétt, að endurskoðunar mun þörf á þessari löggjöf. Samþ. var í Ed. 21. maí 1942 ályktun um, að stjórnin hraðaði svo endurskoðun l. um alþýðutryggingar, að niðurstöður þeirrar rannsóknar og endurskoðunar lægju fyrir þingi því, sem nú situr. Nú er mér ekki kunnugt, hvort stjórnin hefur látið fram fara endurskoðun, en óþarft ætti að vera að skora á stjórnina þing eftir þing að láta þá endurskoðun fara fram. Væri æskilegt að fá upplýsingar um það hjá hv. 1. þm. Árn., ef honum er kunnugt, hvað hæstv. stjórn hefur aðhafzt í málinu.