07.01.1943
Efri deild: 26. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 111 í C-deild Alþingistíðinda. (2618)

73. mál, jarðræktarlög

Haraldur Guðmundsson:

Ég er alveg sammála hv. þm. Str. hvað þetta síðasta atriði snertir, og þess vegna álít ég ástæðulaust að láta málið fara til n. En út af því atriði í fyrri ræðu hans, að það sé sjálfsagt að 1áta Búnaðarfélag Íslands skera úr um þetta, vil ég segja það, að ég álít það ekki koma til mála. Það er Alþingi, en ekki Búnaðarfélag Íslands, sem verður að ákveða um þetta. Þá vil ég snúa mér að hv. þm. Barð. Hann gerir talsvert að því að fullyrða ýmislegt, svo sem væri hann þess umkominn að skýra frá því, hvernig landsmenn hugsa o.s.frv. Hann fullyrðir, að hugur bænda sé mjög andvígur 17. gr. Hann fullyrðir, að „skilgetnir feður“ séu nú orðnir leiðir á þessu afkvæmi sínu. Ég hef nú ekki fyrr heyrt getið um skilgetna feður, og er það víst eitt af þeim nýjungum, sem þessi hv. þm. flytur inn í þessa d. Þá segir hv. þm. um sinn keppinaut, Steingr. Steinþórsson, að hann hafi látið svo sem hann vildi afnema 17. gr., en hafi þó ekki viljað lofa því, og það hafi sennilega orðið til þess, að hann varð undir í kosningabaráttunni fyrir vestan. Ef svo er, þá held ég, að hv. þm. ætti að vera þakklátur fyrir 17. gr., ef það er fyrir hennar sakir, að hann komst á þing í þessum kosningum.

Ég vil svo að lokum endurtaka það, að hér er um svo mikilsvert stefnuatriði að ræða og hér eru svo glögg mörk milli skoðana manna, að það virðist engin ástæða til þess að setja málið í n. Hér er um það að ræða, hvort það fé, sem hið opinbera leggur fram til jarðræktar, verður notað til þess að hækka jarðirnar í verði og veita þeim mönnum, sem selja þær, mikinn hagnað, og það geri þannig hinum eftirkomandi erfitt að nýta og nota jarðirnar.