02.03.1943
Neðri deild: 69. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 134 í C-deild Alþingistíðinda. (2652)

50. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Jón Pálmason:

Herra forseti. — Tilgangurinn, sem vakir fyrir þeim, sem flytja þetta frv., er, sem kunnugt er sá, að koma í veg fyrir, að gengið sé meira á fiskstofninn en orðið er, með því að koma í veg fyrir, að dragnótaveiði sé stunduð á innfjörðum.

Það er ekkert að undra, þó að þessi fulltrúi þeirra, sem hafa um stundarsakir gripið til þessara veiða, vilji láta halda þeim áfram. En ég held það sé vanráðið að láta þær viðgangast eins og verið hefur. Það er vissa fengin fyrir því, að þegar farið er að stunda dragnótaveiðar á innfjörðum, þá hverfur aðstaða smábátaeigenda til þess að hafa nokkuð upp úr veiði sinni.

Annars var það eitt annað atriði, sem ég vildi víkja að, og það er það, hvað það er mikið ósamræmi í allri löggjöf á þessu sviði. Það var fyrir 10–11 árum sett í lög, að ekki mætti kasta vörpu í vikum eða innfjörðum í veiðivötn, sem væru innan við ósa. En það má samkv. þessum l. skarka með dragnætur utan við ósa og fæla burtu þann fisk, sem gengur í vötnin. Þetta er svo mikið ósamræmi og ósanngirni, að furðu sætir, að þetta skuli hafa verið látið ganga svo til í mörg ár. Ég skal segja frá því, af því að ég er þannig settur, að ég bý nálægt ós og nálægt stórvatni, þar sem silungsveiði var stunduð þar til 1932, en er nú bönnuð. En jafnframt er leyft, að dragnótabátar séu nætur og daga utan við ósinn og veiði ekki einungis fisk, heldur og silung og lax. Og svo langt gekk .það hér um haustið, að einn dragnótabáturinn strandaði við Húnaós í blæa logni. Svo nærri gekk hann ströndinni. Hann var að skarka með sína vörpu, þar sem hugsanlegt var, að silungur og lax héldu sig, áður en hann gengi inn í ósinn. Þetta dæmi sýnir ósanngirni og ósamræmið í löggjöfinni, og slíkt er endemi, ef Alþ. ekki breytir l. Það þarf enga sérþekkingu til að sjá, ef skarkað er með vörpu, þar sem tiltakanlega grunnt er við ósa eða á innfjörðum, hvort það er ekki eyðilegging fyrir þann fisk, sem þangað gengur.

Ég bendi á þetta atriði til sönnunar því, hve nauðsynlegt er að gera þá breytingu á l. um dragnótaveiðar, að þær verði ekki leyfðar jafnótakmarkað og verið hefur. Ég mun svo ekki skipta mér meira af þessu máli. Ég er ákveðinn í að fylgja þessu frv. og greiða atkv. á móti uppástungu hv. sjútvn. Þetta er svo mikið atriði, að ég held, að hver þm. ætti að gera það upp við sig, án þess að salta það í heilt ár í mþn., hvort sanngjarnt sé að gera hér breyt. eða ekki.