19.12.1942
Efri deild: 20. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 154 í C-deild Alþingistíðinda. (2697)

66. mál, skólasetur á Reykhólum

Flm. (Gísli Jónsson):

Ég skal ekki vera fjölorður. Hv. þm. Str. viðurkenndi það í ræðu sinni, sem ég tel mjög þýðingarmikið, að Reykhólar voru beinlínis keyptir til þess að hafa þá fyrir skólasetur, og má honum vera það kunnugast, því að þá var hann landbúnaðarráðherra. Þetta ætti að vera nægilegt til þess, að hv. d. samþ. 1. gr. frv. Þá minntist hann á vandkvæðin við það að byggja upp á jörðinni. En nú er annar bóndinn þar að reisa sér bæjarhús á sinn kostnað. Ég álít, að slíkar byggingar megi ekki fleiri verða án framtíðarskipulags og þess vegna þoli málið ekki bið. Þm. talaði einnig um það, að heimild væri fyrir því að flytja prestinn frá Stað að Reykhólum. En það hefur ekki ver ið tekið með í reikninginn, að biskup setti sig algerlega móti því, nema prestssetrinu væri þá tryggt þar jafnmikið jarðnæði og Staður er, en það þýðir nærri alla Reykhóla, og er talið alveg óverjandi að fórna svo miklu fyrir þá breytingu. Um barnaskóla á Reykhólum verður ekkert sagt frekar en gert er í grg. Hv. þm. Str. taldi, að málið hefði fengið ónógan undirbúning. Ég verð að segja, að héraðsskóli Skagfirðinga, sem hann tók til samanburðar, hefur ekki enn komizt í framkvæmd þrátt fyrir 10 ára undirbúning, og það er ekki það, sem ég eða Barðstrendingar óska eftir, að þetta mál þurfi að tef ja með sérstökum „undirbúningi“ um 10 ára skeið. Ég legg svo mikið upp úr 2. gr., að þótt hún og ekkert annað af frv. yrði samþ. að sinni, teldi ég málið vel á veg komið. Ég tel miklu nauðsynlegra að skipa nefndina og fá áætlanir hennar en að einhverjir menn hópi sig saman um einhverjar tillögur, sem yrðu ekki í samræmi við fyrirætlanir kennslumálar ráðuneytisins.

Annars vil ég leyfa mér að upplýsa, að það liggur skjalfest fyrir hér á hv. Alþ., hvað Vestfirðingar sjálfir vilja í þessu efni, og lesa upp með leyfi hæstv. forseta áskorun frá aðalfundi Búnaðarsambands Vestfjarða þann 11. maí 1942. Hún hljóðar svo:

„Aðalfundur Búnaðarsambands Vestfjarða 1942 skorar á ríkisvaldið að stofnsetja á Reykhólum svo fljótt, sem við verður komið skóla, er veiti hagnýta fræðslu í búnaði og verklegum greinum, auk almennrar bókfræðslu. Ef rannsóknir leiða í ljós, að Reykhólar séu heppilegur staður fyrir tilraunastöð landbúnaðarins á Vestfjörðum, þá mælir fundurinn eindregið með því, að slík stöð verði þar stofnsett í sambandi við væntanlegan skóla. — Reykjanesi, 11. maí 1942. Kristinn Guðmundsson (fundarstj.). Guðmundur Ingi Kristjánsson (fundarritari).“

Þetta er alveg í samræmi við grg. frv. Hún er aðeins fyllri. Þar er tekið fram, að rannsókn og undirbúningur sé gerður í n. samkv. 2. gr.

Það var atriði í ræðu hv. þm. Str. í gær, sem ég vildi minnast á, um skiptaráðandann í búinu þarna. Ég býð honum að sjá öll gögn í því máli. Það er nú upplýst og sannað, að ekkert var birt erfingjunum um þetta, fyrr en búið var að ganga frá þessum málum. Honum mun þá hafa verið þetta ljóst sem ráðh., en virðist ekki hafa séð neina ástæðu til að aðvara skjólstæðing sinn.

Um það, í hvaða n. þetta mál fer, er mér ekkert keppikefli í sjálfu sér. Ég hafði þó helzt búizt við, að það færi í menntmn. eða þá allshn. En það er sama hvaða n. les gögn þessa máls, hún mun sjá, að þetta er réttlætiskrafa.